Kynntu aðgerðir upp á 230 milljarða króna

Stjórnvöld munu ráðast í tíu mikilvægar efnahagsaðgerðir vegna COVID-19 veirunnar. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynntu aðgerðirnar í Hörpu í dag.

Umfang aðgerða fyrsta áfanga stjórnvalda til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru nemur um 230 ma.kr. eða tæplega 8% af landsframleiðslu. Aðgerðirnar eru þríþættar og miða að því að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Hér má finna ítarlega kynningu á aðgerðunum.

Viðspyrna fyrir Ísland

  • Ríkið greiðir allt að 75% launa fólks næstu mánuði
  • Ríkisábyrgð á brúarlánum til fyrirtækja
  • Frestun og afnám opinberra gjalda
  • Laun tryggð til fólks í sóttkví
  • Sérstakur barnabótaauki með öllum börnum
  • Heimild til úttektar séreignarsparnaðar
  • Ferðaþjónusta styrkt
  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna framkvæmda
  • Framkvæmdum flýtt og fjárfest í tækniinnviðum
  • Umfang aðgerða um 230 milljarðar króna

Aðgerðunum er ætlað að veita öflugt mótvægi við neikvæð efnahagsáhrif vegan COVID-19. Meginmarkmiðið er að verja störf og auðvelda heimilum og fyrirtækjum að mæta tímabundnu tekjutapi.

Stjórnvöld munu í gegnum hlutastarfaleiðina sem Alþingi samþykkti nýverið greiða allt að 75% launa starfsfólks sem lækkar í starfshlutfalli, að hámarki 700 þúsund krónur. Með því er launafólki og atvinnurekendum gert kleift að halda ráðningarsambandi. Þetta úrræði gildir út maí en verður endurmetið áður en það rennur úr gildi

Gefinn verður kostur á frestun á greiðslu opinberra gjalda hjá fyrirtækjum til næsta árs með það að markmiði að bæta lausafjárstöðu í atvinnurekstri. Þá verður gistináttaskattur afnuminn til ársloka 2021.

Bankaskattur verður lækkaður til að auka svigrúm fjármálastofnana til útlána og ríkisábyrgð á lánum til lífvænlegra fyrirtækja mun auðvelda þeim að standa í skilum, ekki síst á launagreiðslum.

Með því að hjálpa fyrirtækjum að standa í skilum og viðhalda ráðningarsambandi launafólks og vinnuveitenda má stytta þann tíma sem fyrirtæki þurfa til að ná viðspyrnu á ný.

Ýmsar leiðir til stuðnings heimilum

Afkoma fólks og heimila er í brennidepli aðgerða stjórnvalda.

  • Greiðslur eru tryggðar til fólks í sóttkví, ekki síst til að hjálpa fólki að taka ábyrgar ákvarðanir til að draga úr útbreiðslu veirunnar
  • Hlutastarfaleiðinni er ætlað að verja störf og afkomu fólks við þrengingar á vinnumarkaði.
  • Veitt verður heimild til að taka út séreignarsparnað að hámarki 800 þ.kr. á mánuði í 15 mánuði.
  • Endurgreiðslur vegna viðhaldsvinnu við heimili og frístundahúsnæði verða hækkaðar í úr 60% í 100%.
  • Að auki verður endurgreiðsluúrræðið útvíkkað til heimilisþjónustu og tekin upp ný heimild fyrir þriðja geirann svokallaða, sem nær m.a. til almannaheilla- og íþróttafélaga, til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu fólks við byggingaframkvæmdir á þeirra vegum.
  • Greiddur verður út sérstakur barnabótaauki 1. júní 2020 með öllum börnum undir 18 ára aldri. Foreldrar með lægri meðaltekjur en 927 þús. kr. á mánuði árið 2019 fá 40 þúsund kr. á hvert barn og aðrir 20 þúsund kr.

Þessu til viðbótar fer ríkið í sérstakt 20 ma.kr. fjárfestingarátak árið 2020, þar sem hið opinbera og félög þess setja aukinn kraft í samgöngubætur, fasteignaframkvæmdir, og upplýsingatækni, auk þess sem framlög verða aukin í vísinda- og nýsköpunarsjóði. Inntak þess átaks verður kynnt innan skamms.

Spurt og svarað um aðgerðirnar má lesa hér