Verndum störf í borginni

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Kröftugt atvinnulíf er grunnforsenda þróttmiklils efnahags og fjölbreyttra atvinnutækifæra. Þau opinberu kerfi sem við byggjum samfélag okkar á eru órjúfanlega tengd gangverki atvinnulífsins. Menntun, heilbrigði og velferð þjóðarinnar er fjármögnuð með verðmætasköpun í fyrirtækjarekstri. Því er mikilvægt að halda til haga. Þegar heimsfaraldur ógnar atvinnurekstri ógnar hann um leið þeim undirstöðum sem við byggjum samfélag okkar á. Hann ógnar störfum og afkomu heimilanna.

Hagkerfið er sannarlega berskjaldað fyrir þeim ytri áhrifum sem COVID-19 faraldurinn veldur. Faraldurinn hefur þegar, og mun óhjákvæmilega áfram, hafa bein áhrif á atvinnulíf í borginni. Ríkisstjórnin hefur þegar kynnt aðgerðir til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins. Ekki er síður mikilvægt að sveitarfélög bregðist við.

Sveitarfélög vinna nú að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en áttunda heimsmarkmiðið snýr að góðri atvinnu og hagvexti. Þar segir að stuðla skuli að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Tryggja þurfi að þróttmikill efnahagur gagnist öllum þjóðfélagsþegnum, að hagvöxtur auki hagsæld landsmanna og sú sýn speglist í stefnumörkun í opinberum fjármálum.

Fyrirsjáanlega munu fjölmörg fyrirtæki verða fyrir tekjumissi vegna faraldursins. Eftirspurn eftir hvers kyns vöru og þjónustu mun að líkindum dragast tímabundið saman. Fólk heldur að sér höndum. Þegar fyrirtæki verða fyrir svo skyndilegum tekjumissi er fyrirséð að forsvarsmenn reyni til þrautar að draga úr útgjöldum. Einhverjum reynist jafnvel nauðsynlegt að grípa til uppsagna. Í svo krefjandi rekstrarumhverfi er mikilvægt að Reykjavíkurborg leggi sitt á vogarskálarnar. Tryggja þarf aukið svigrúm svo ráða megi fram úr rekstrarerfiðleikum og draga úr uppsögnum.

Á borgarstjórnarfundi næsta þriðjudag mun Sjálfstæðisflokkur leggja til einfaldar aðgerðir sem miða að bættu rekstrarumhverfi á krefjandi tímum. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði lækkaðir, gjaldskrár dótturfyrirtækja og fagsviða verði lækkaðar, gjaldfrestir lengdir og aukinn kraftur settur í opinberar framkvæmdir. Sérstök áhersla verði á viðhaldsverkefni, en viðhaldi skólahúsnæðis og annarra innviða hefur verið illa sinnt síðastliðin 12 ár. Jafnframt verði á síðari stigum ráðist í markaðsátak til stuðnings ferðaþjónustu í borginni.

Aðgerðirnar miða að því að takmarka það ófyrirséða tjón sem faraldurinn getur valdið atvinnulífi í borginni, vernda störf og afkomu heimilanna og tryggja hagstæð skilyrði til viðspyrnu og endurreisnar – til hagsbóta fyrir okkur öll.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. mars 2020.