Lýðsleikjur og sósíalismi

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Lýðsleikj­ur hafa sam­eig­in­legt eðli með nýsósí­al­ist­um. Lýðsleikj­ur og nýsósí­al­ist­ar vita allt meira og bet­ur en aðrir af hyggju­viti einu sam­an. Þekk­ing þeirra er mun meiri en hjá þeim sem lært hafa og rann­sakað með hlut­læg­um hætti.

Nú eru komn­ar fram lýðsleikj­ur sem hafa meira vit en smit­sjúk­dóma­fræðing­ar á far­alds­fræði sjúk­dóma. Fram til þessa hafa lýðsleikj­ur á Alþingi ein­beitt sér að efna­hags­mál­um. Nú er for­sæt­is­ráðherra ætlað að taka fram fyr­ir hend­ur land­lækn­is, enda hef­ur land­lækn­ir viður­kennt að hafa ekki mikið vit á raðgrein­ingu í veiru­fræði. Senni­lega hef­ur for­sæt­is­ráðherra enn minna vit á veiru­fræði og smit­sjúk­dóm­um en land­lækn­ir.

Það er gott stjórn­ar­far þegar þegn­arn­ir vita ekki nöfn á ráðherr­um. Því vona ég að ráðherr­ar verði við beiðnum og ráðum þeirra sem þekk­ingu hafa og verði ekki aðalleik­end­ur í þeim vör­um sem verður beitt.

Það er ekk­ert nýtt und­ir sól­inni. Eitt sinn tók dóms­málaráðherra til sinna ráða og rak yf­ir­lækni á Kleppi. Reynsl­an af því var af­leit. Ekki aðeins fyr­ir sjúk­linga, held­ur einnig fyr­ir ráðherra. Ráðherr­ann hóf starfs­dag­inn með því að láta aka sér á Klepp til að at­huga hvort hinn nýi yf­ir­lækn­ir á sjúkra­hús­inu væri mikið eða lítið frá­vita af víndrykkju. Og einnig að huga að því hvort yf­ir­lækn­ir­inn gengi stofu­gang á nær­hald­inu. Það var of mikið fyr­ir ráðherr­ann þegar yf­ir­lækn­ir­inn gekk með hagla­byssu á stofu­gang. Senni­lega hef­ur yf­ir­lækn­ir hugsað sem svo að öll­um and­skot­an­um mæti menn þegar þeir séu byssu­laus­ir.

Lýðsleikj­ur alda­mót­anna

Um alda­mót­in komu fram nýj­ar lýðsleikj­ur. Ein slík ók um bæ­inn á grá­um bíl, vel til fara og óaðfinn­an­lega greidd. Lýðsleikj­an brosti til veg­far­enda. All­ir héldu að lýðsleikj­an hefði komið heim með mikla pen­inga úr Bjarma­lands­för. Vegna hins mikla álits sem lýðsleikj­an hafði aflað sér með akstri um borg­ina töldu stjórn­völd að rétt væri að selja lýðsleikj­unni gaml­an þjóðbanka, sem hafði mikla viðskipta­vild vegna íhalds­semi í rekstri. Senni­lega var upp­hafsmaður þess­ar­ar viðskipta­hug­mynd­ar banka­stjóri bank­ans, en hann naut mik­ils álits og trausts og reynd­ist vind­hani. Þegar lýðsleikj­an í bíl­stjóra­sæt­inu var kom­in að kjöt­katl­in­um lét hann bank­ann „sinn“ gefa út og suður. Þetta voru góðverk lýðsleikj­unn­ar. Svona rétt eins og and­leg­ur leiðtogi arg­entínsku þjóðar­inn­ar, Evita Peron. Ekk­ert af gjöf­um lýðsleikj­unn­ar kom úr eig­in vasa. Eins og önn­ur góðverk á kostnað annarra. Og svo sat þjóðin uppi með gjaf­mild­ina. Jafn­vel einkagóðgerðarsjóð lýðsleikj­unn­ar! Eins og hjá and­lega leiðtog­an­um í Arg­entínu!

Til þess að fram­fylgja hinni al­ræmdu helm­inga­skipta­reglu var talið eðli­legt að önn­ur lýðsleikja gæti keypt banka. Sá hafði ekki keyrt reglu­lega um bæ­inn enda bú­sett­ur í öðru landi. Sá rek­ur eig­in vel­gjörðarsjóð og skemmt­ir vin­um sín­um með því að láta Elt­on John syngja og leika fyr­ir gesti sína í af­mæli. Þessi lýðsleikja keypti banka án þess að greiða nokkru sinni eina krónu fyr­ir bank­ann, varð stærsti eig­andi bank­ans, en fór frá gjaldþroti bank­ans með því að hirða um 90 millj­ón­ir doll­ara fyr­ir að stuðla að sam­ein­ingu tveggja banka, ef ann­an bank­ann skyldi kalla banka. Þessi snún­ing­ur var gerður til að all­ir fengju sitt og hags­muna Fram­sókn­ar­flokks­ins væri gætt. Lýðsleikjusnill­ing­ur­inn er nefni­lega fædd­ur inn í gam­alt Sam­bandsveldi. Það var viðskipta­arm­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins en var horfið af yf­ir­borði jarðar þegar hér var komið sögu.

Fólk hef­ur ekki ímynd­un­ar­afl til að skilja stjórn­mál. Fólk er of sak­laust.

Sósí­al­ismi nú­tím­ans

Nú er helst tal­inn góður málstaður að nefna sig sósí­al­ista og að berj­ast gegn fá­tækt. Ekki það að sósí­al­ist­ar hafi greint fá­tækt bet­ur og dýpra en aðrir. Og alls ekki að þeir hafi betri og skjót­virk­ari ráð til að út­rýma fá­tækt en þau sem áður hef­ur verið beitt.

Ung­ur maður sagði eitt sinn: „Það er blind­ur maður sem sér ekki að sam­eign­ar­skipu­lagið er þjóðskipu­lag framtíðar­inn­ar.“

Sam­eign­ar­skipu­lagið var reynt víða og gekk sér til húðar. Í kjöl­far þess voru glæpa­sam­tök fyrst til að skipu­leggja sig. Þau glæpa­sam­tök voru af tvenn­um toga; þau sem hirtu eign­ir, sem voru í sam­eign, og þau, sem stunduðu glæp­a­starf­semi sem kennd er við mafíu og und­ir­heima í eit­ur­lyfj­um, vændi og man­sali.

Sam­eign­ar­skipu­lagið er reynt í Venesúela og nú er svo komið að flótta­menn frá því landi eru viður­kennd­ir í alþjóðasam­fé­lag­inu sem flótta­menn frá hættu­legu svæði.

Arði af auðlind­um Venesúela er annaðhvort rænt ell­egar að hann fer í af­borg­an­ir af lán­um sem kín­versk­ir bank­ar veittu land­inu. And­virði lán­anna fór í eitt­hvað sem lýðsleikj­ur í Venesúela klúðruðu.

Annað sam­eign­ar­skipu­lag er reynt. Það er í Norður-Kór­eu. Það er ein­falt að bera sam­an lífs­kjör og fá­tækt í Norður-Kór­eu og Suður-Kór­eu. Senni­lega er hung­urs­neyð í Norður-Kór­eu ekki minni en hung­urs­neyð í Úkraínu á tíma Stalíns, en hann var sósí­alisti.

Gleym­um ekki Kúbu. Það tókst að varðveita ástandið á Kúbu frá 1959. Það er sér­stakt rann­sókn­ar­efni fyr­ir fé­lags­vís­indi. Á Kúbu geta þeir sem ein­hvern aur eiga lifað í alls­nægt­um án þess að hag­ur heima­manna vænk­ist. Viðskipti aðkomu­fólks við heima­fólk fara fram með gjald­miðli, sem heit­ir „Cuba Con­verti­ble“. Þetta eru seðlar svipaðir þeim sem Kaup­fé­lag Ísfirðinga og Kaup­fé­lag Beru­fjarðar gáfu út.

Hug­mynda­fræðing­ur sósí­al­ista á Íslandi í dag var í liði með hrun­verj­um í svo­kallaðri út­rás. Þeirri liðveislu ber að gleyma. Blaðaút­gáfa hug­mynda­fræðings­ins tapaði nokkr­um millj­örðum á kostnað ís­lensks al­menn­ings. Þegar leik­ur­inn stóð sem hæst mæld­ist ís­lenski nýsósí­alist­inn millj­arðamær­ing­ur en senni­lega er hann snauður núna. Senni­lega er himna­ríki hans aðeins rop­vatn.

Hættu­leg ráðdeild

Það skap­ast ávallt hættu­leg­ar aðstæður þegar lýðsleikj­ur kom­ast til valda eft­ir að ráðdeild­ar­rík­is­stjórn hef­ur leyst úr bráðum vanda og myndað vara­sjóði.

Nú vilja nýsósí­al­ist­ar breyta verka­lýðsfé­lög­um í stjórn­mála­flokka. Senni­lega yrði slík þróun enda­lok verka­lýðsfé­laga, enda er fé­laga­frelsi í land­inu. Og það er einnig samn­inga­frelsi.

Líf­eyr­is­sjóðir hafa haft ákveðin tengsl við verka­lýðsfé­lög og starfs­grein­ar. Þegar líf­eyr­is­sjóðir verða leik­tæki fyr­ir lýðsleikj­ur er ástandið orðið hættu­legt. Vissu­lega kom upp meðal lýðsleikja krafa um að líf­eyr­is­sjóðir stæðu und­ir hag­vexti framtíðar­inn­ar. Það voru ekki sósí­al­ist­ar sem þess kröfðust. Lýðsleikj­urn­ar leyn­ast víða.

Lýðsleikj­ur eru fljót­ar að eyða vara­sjóðum og fyrn­ing­um. Sam­eign­arsinn­ar og lýðsleikj­ur í Venesúela voru fljót­ar að klára þjóðarauðinn.

Dýr­ling­ar

En spyrja má: Hvenær hef­ur verið til al­menni­leg­ur dýr­ling­ur sem ekki var þjóf­ur í byrj­un­inni? Dýr­ling­ar láta aldrei af þrá sinni að syndga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. mars 2020.