Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Það þarf ekki sérþekkingu til að átta sig á því að blikur eru á lofti í efnahagsmálum hér á landi líkt og í heiminum öllum. En ólíkt flestum öðrum löndum erum við á Íslandi í sterkri stöðu til takast á við áskoranir sem eru fram undan. Skynsamleg og fumlaus viðbrögð í peninga- og ríkisfjármálum skipta sköpum.
Kórónuveiran ætlar að reynast alþjóðlegu efnahagslífi þyngri í skauti en nokkur reiknaði með, jafnvel hinir svartsýnustu. Á mánudag lækkaði gengi allra íslenskra hlutabréfa í Kauphöllinni. Um allan heim byrjaði vikan illa. Lækkunin var sú mesta á einum degi frá því að Lehman Brothers hrundi árið 2008. Í London féllu hlutabréf um 8% og í Bandaríkjunum lækkaði gengi fjármálafyrirtækja um 7%. Mánudagsins 9. mars verður líklega minnst sem svarta mánudags.
Bóndinn safnar korni
Eitt meginmarkmið hagstjórnar er að búa svo um hnútana að hagkerfi geti tekist á við það óvænta – að hægt sé að sigla í gegnum efnahagslega erfiðleika. Þegar gefur á bátinn í efnahagsmálum kemur betur í ljós en áður hversu skynsamlega haldið hefur verið á ríkisfjármálum á síðustu árum. Fyrir tæpu ári orðaði ég þetta þannig að allt frá 2013 hafi bóndinn í fjármálaráðuneytinu verið duglegur við að safna korni í hlöður til að mæta mögrum árum. Hann hafi ekki fallið í þá freistingu að eyða búhnykk og hvalrekum í pólitískt stundargaman.
Árangurinn: Staða ríkissjóðs hefur gjörbreyst á síðustu árum. Í lok árs 2011 námu skuldir ríkissjóðs um 86% af vergri landsframleiðslu. Við lok síðasta árs var hlutfallið komið niður í tæp 22%. Erlend staða þjóðarbúsins er einnig sterk. Umskiptin eru ótrúleg. Árið 2015 var staðan neikvæð um 5% af landsframleiðslu en er nú jákvæð um 25%. Erlend staðan hefur aldrei verið betri. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er um 28% af landsframleiðslu.
Góð staða ríkissjóðs, ríflegur gjaldeyrisforði, miklar erlendar eignir og sú staðreynd að íslenska bankakerfið er óvenjulega vel fjármagnað, gefur Íslendingum möguleika til kröftugar viðspyrnu þegar kreppir að. Og kannski munu þeir sem hafa talið það lausn allra vandamála að henda krónunni og taka upp evru læra að meta mikilvægi þess að vera fullvalda þjóð í peningamálum.
Til skamms tíma
Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir til hvaða aðgerða stjórnvöld grípa á næstunni til að vinna gegn efnahagslegum áföllum. Verkefnið er hins vegar nokkuð skýrt.
Það verður að slaka á aðhaldi peningamála, lækka eiginfjárkröfur bankanna til jafns við það sem gerist í samkeppnislöndum okkar, afnema eiginfjárauka og endurskoða lausafjárbindingu. Þannig verður auknu súrefni hleypt út í efnahagslífið í gegnum fjármálakerfið. Lækkun vaxta er einnig skynsamleg við ríkjandi aðstæður. Gengi krónunnar hefur gefið eftir á síðustu vikum. Veikara gengi er hluti af aðlögun efnahagslífsins og styrkir stöðu samkeppnisgreina – ferðaþjónustunnar og útflutningsfyrirtækja.
Í ríkisfjármálum verður að slaka á klónni. Koma til móts við fyrirtæki sem glíma við tímabundna erfiðleika og létta undir með heimilunum. Lækkun skatta – tímabundin og til frambúðar – skiptir þar miklu.
Til lengri tíma
Samkvæmt fjárlögum nema framlög til fjárfestinga ríkisins ríflega 78 milljörðum á þessu ári og hafa aukist um rúma 27 milljarða að raungildi frá árinu 2017. Ríkisstjórnin hefur þegar gefið til kynna að fjárfesting í innviðum verði aukin enn meira á þessu og komandi árum. Með öðrum orðum: Það verður stigið á bensíngjöfina.
Með sama hætti og lægri skuldir bæta hag almennings er mikilvægt að innviðir séu byggðir upp og stoðir hagvaxtar styrktir. Það skiptir hins vegar miklu í hvaða innviðum er fjárfest og með hvaða hætti.
Í niðursveiflu – slaka í efnahagslífinu – er tækifæri til að byggja upp til framtíðar. Ég hef, ásamt félögum mínum, barist fyrir því í mörg ár, að umbreyta ákveðnum eignum ríkisins í hagræna innviði. Raunar hef ég gengið svo langt að halda því fram að á komandi árum eigi fjármögnun hagrænna innviða fyrst og fremst að vera í formi umbreytingar á eignum ríkisins (sala hlutabréfa, fasteigna, jarða o.s.frv.) og í gegnum samstarfsverkefni við stofnanafjárfesta (lífeyrissjóði og aðra fjárfesta). Um leið gerist hið augljósa. Svigrúm ríkissjóðs til að ráðast í fjárfestingu í félagslegum innviðum (s.s. skólar og heilbrigðisstofnanir) eykst.
Í viðtali við hlaðvarp ViðskiptaMoggans í síðustu viku varpaði ég fram þeirri hugmynd að komið yrði á fót innviðasjóði ríkisins og að eiginfjárframlag yrði a.m.k. helmings hlutur í Íslandsbanka. Innviðasjóðurinn fjármagni innviðaverkefni ýmist einn eða í samstarfi við stofnanafjárfesta um einstök verkefni. En mestu skipti í hvaða innviðum fjárfest er. „Þú getur fjárfest í einhverri steinsteypu, byggingu, sem kallar síðan í sjálfu sér á aukin ríkisútgjöld í framtíðinni. Ég er ekki þar. Ég vil að við einbeitum okkur að því að setja fjármuni í að byggja upp hagræna innviði sem eru arðbærir, létta undir með atvinnulífinu, létta undir með einstökum byggðum í landinu. Þar horfi ég á samgöngurnar fyrst og fremst, fjarskiptin og flutningakerfi raforku.“
Til skemmri og lengri tíma er verkefni stjórnvalda í senn einfalt og flókið: Að hleypa súrefni inn í atvinnulífið og létta undir með heimilunum í gegnum skattkerfið. Okkur hefur tekist að búa svo um hnútana á síðustu árum að súrefnið er til á flestum tönkum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2020