Eins og jafnan eru fjörugar pólitískar samræður kringum kaffivélina í Valhöll. Þar má gæða sér á ávöxtum úr skál eða kreista boðskap úr dagblöðum. Einn af öðrum tínast ráðherrar og aðstoðarmenn fram úr fundarherbergi Óðins. Þegar búið er að fylla á bollana sest forystan áfram að skrafi. Það eru Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, varaformaðurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og nýkjörinn ritari Jón Gunnarsson. Það liggur beint við að spyrja hvernig þeim líður um áramót þegar kjörtímabilið er rúmlega hálfnað. Segja má að línur séu að skýrast í breiðri þriggja flokka stjórn sem krefst óhjákvæmilegra málamiðlana.
Eftirfarandi viðtal við forystu Sjálfstæðisflokksins er úr blaðinu Á réttri leið sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf út í febrúar 2020, en blaðið í heild má nálgast hér.
„Það er auðvitað flóknara að leiða mál til lykta og ná fram stefnumálum flokksins í þriggja flokka stjórn, það segir sig sjálft,“ segir Þórdís Kolbrún, „en með því erum við að hafa raunveruleg áhrif og berum ábyrgð á stórum og mikilvægum málaflokkum. Verkefnið er að takast á við málefni dagsins og horfa til framtíðar með þá stefnu Sjálfstæðisflokksins í veganesti sem hefur reynst farsæl fyrir þjóðina í ár og áratugi.“
Reynir á þanþolið að sætta ólík sjónarmið
Þórdís tekur sem dæmi loftslagsmálin. „Það er risastórt mál sem yngri kynslóðir hafa miklar skoðanir á og áhyggjur af – og þær vilja fá skýra sýn frá flokknum. Okkar afstaða er afdráttarlaus. Við stóðum að því með samstarfsflokkum okkar í ríkisstjórn að móta ítarlega aðgerðaáætlun þar sem markið er sett á kolefnishlutleysi árið 2040. Við höfum lagt ríka áherslu á að ýta undir fjárfestingar í nýrri tækni og lausnum, sem geta ef vel tekst til orðið öðrum þjóðum fordæmi. Við viljum heldur beita ívilnunum en skattlagningu og styðjum þannig við framþróun í atvinnulífinu. Það kallast á við nýsköpunarstefnu sem vorum að hleypa af stokkunum, en þar setjum við á fót nýjan sjóð til að þroska fjárfestingarumhverfið. Við getum ekki bara treyst á það hefðbundna, stundum þarf að stíga inn til að næra sprotana í nýsköpun.“
„Við erum með traustan og góðan hagvöxt og sá vagn hefur á síðustu árum einkum verið dreginn af ferðaþjónustunni,“ segir Jón. „Ferðamönnum hefur fjölgað mikið, en allir sjá að þar erum við komin að krossgötum. Til framtíðar litið verðum við að bregðast við því. Hvernig sjáum við fyrir okkur áframhaldandi lífskjarasókn og uppbyggingu í íslensku efnahagslífi? Á hvaða grunni sköpum við tækifæri til frekari verðmætasköpunar? Nýsköpun er eitt, eins og Þórdís Kolbrún kom inn á. Hitt er ljóst, að það verður að skapa sátt um skynsamlega nýtingu þeirra auðlinda sem við höfum úr að spila. Við þurfum að tengja þessar framfarir við byggðaþróun í landinu – að uppbygging í atvinnulífi og verðmætasköpun efli byggðir landsins.“
Erum í öfundsverðri stöðu
„Í fyrsta skipti í áratugi gerðist það árið 2016 að ekki var hægt að mynda tveggja flokka stjórn og það gerðist aftur árið 2017,“ segir Bjarni. „Það er birtingarmynd breytinga sem orðið hafa á hinu pólitíska landslagi. Við stjórnmálamenn þurfum að koma til móts við þann þjóðarvilja – vitandi að aldrei í sögunni hefur tekist að halda út heilt kjörtímabil með þriggja flokka stjórn. Auðvitað eru þetta krefjandi aðstæður, en þetta gengur vel. Mér þykir í raun merkilegt hvað kastljósið er mikið á stjórnarflokkunum, en ekki stjórnarandstöðunni. Maður hefði ætlað að í þriggja flokka stjórn yrðu til sóknarfæri í stjórnarandstöðu – en þar er enginn flokkur valkostur til að leiða eitt eða neitt.“
– Hvað stendur upp úr á kjörtímabilinu?
„Það sem fyrir okkur vakti var að reyna að halda í hönd vinnumarkaðarins í gegnum samningalotuna og standa vörð um efnahagslegan stöðugleika,“ segir Bjarni. „Þar hefur náðst mikill árangur. Ef við horfum fram á við stöndum við frammi fyrir stórum spurningum, sem lúta enn og aftur að atvinnusköpun – sköpun nýrra tækifæra. Hvað getum við gert til að örva vöxt fjárfestinga í einkageiranum sem hafa verið að dragast saman? Vinnumarkaðurinn lagði sitt lóð á vogarskálarnar með nafnlaunahækkunum, vextir hafa lækkað verulega og verðbólga haldist lág, en við þurfum að leggjast á árarnar af meiri þunga.“
– Það eru blikur á lofti í hagkerfinu?
„Helsta hættan sem við stöndum frammi fyrir er að hagvöxtur verði ekki jafnmikill og við þurfum á að halda,“ svarar Bjarni. „Að því leytinu til erum við í varnarstöðu – við þurfum að verja þann mikla árangur sem náðst hefur á liðnum árum. Þrátt fyrir allt erum við í þeirri öfundsverðu stöðu að við getum sagt að það sé raunhæft markmið að Ísland haldist áfram í allra fremstu röð þjóða hvað lífskjör varðar.
Ef við horfum til að mynda til eldri kynslóða, þá finnum við fyrir kröfunni um að fólk hafi meira handa á milli á efri árum, en á sama tíma erum við að mælast með best lífskjör eldri borgara innan OECD – og þeir hafa líka bætt stöðu sína hlutfallslega mest af öllum aldurshópum. Við getum horft til jöfnuðar sem er hvergi meiri, atvinnuöryggis kvenna og jafnréttis almennt, lágmarkslauna og atvinnustigs. Nánast sama hvar er borið niður, þá erum við í fremstu röð. Kannski endurspeglast það í því að kröfur launþegahreyfingarinnar eru að færast æ meira frá lífskjörum yfir í lífsgæði. Ég held það sé raunhæft markmið að Ísland eigi að vera besti staður í heiminum til að búa á. Enda er það svo í raun og veru, að á hverju málefnasviði fyrir sig, þá berum við okkur jafnan saman við þær þjóðir sem fremstar eru í heiminum. Það sýnir best hversu stórstígar framfarir hafa orðið á Íslandi frá upphafi síðustu aldar þegar við vorum fátækasta þjóð Evrópu.
Það er um leið mikilvægt að gera sér grein fyrir að þú færð aldrei allt. Það er ekki bæði hægt að hafa hæstu laun í heimi, mesta kaupmátt og bestu lífskjör og tryggja um leið afburða samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Það er enginn vafi að samkeppnisstaða okkar hefur versnað með hærri launum. Ég tel rétt að hafa áhyggjur af samkeppnisstöðunni, lægri skattar á fyrirtæki – lægri bankaskattur og lægra tryggingagjald eru liðir í aðgerðum okkar til að bregðast við. Fjárfesting atvinnulífsins er áhyggjuefni og við þurfum að bregðast við. Að þessu leytinu til stöndum við á tímamótum, verkefnin hafa breyst.“
Fleira ungt fólk að kaupa fyrstu íbúð
„Sumir segja að Spánn á íslenskum eftirlaunum sé besti staður í heimi,“ segir Jón og hlær, en verður svo aftur alvörugefinn. „Mér finnst líka nauðsynlegt að koma inn á tækifærin sem við höfum skapað ungu fólki. Það gefur okkur meðbyr að sjá í öllum könnunum hversu séreignarsparnaður skiptir ungt fólk miklu máli. Á síðustu 1–2 árum hefur orðið mun meira um kaup ungs fólks á sinni fyrstu íbúð. Fyrir það skiptir stöðugleikinn mestu máli, kaupmáttaraukningin, séreignarsparnaðurinn, lenging fæðingarorlofs. Við horfum til þessa hóps og höfum unnið markvisst að því að draga úr regluverki á byggingamarkaði, þannig að það borgi sig að byggja og húsnæðisverð verði viðráðanlegra. Vinna við einföldun regluverks sem Þórdís Kolbrún setti af stað með OECD í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er þegar farin að skila sér og markmiðið er að á þessu kjörtímabili náist mikill árangur í því.“
„Ef eitthvað eitt stendur upp úr eftir hringferðina í fyrra, þá eru það skilaboðin frá fólki um allt land að kerfið sé fyrir fólki, en ekki fyrir fólk,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Styðjið okkur í því að grípa tækifærin,“ tekur Bjarni undir. „Sjáið til þess að hið opinbera sé ekki fyrir okkur.“
„Að innviðirnir séu í lagi,“ skýtur Jón inn og ljóst af öllu að þeim er mikið niðri fyrir, því Þórdís Kolbrún grípur orðið aftur: „Við gerum þá kröfu til ykkar að þið dragið úr afskiptum stjórnvalda og leyfið okkur að gera okkar besta.“
Bjarni grípur boltann. „Það má ekki stöðva framtakssemi fólks í fæðingu af opinberu eftirlitskerfi og regluverki. Þetta er það sem stendur upp úr hjá fólki hringinn um landið, sama hvort um ræðir bændur, starfsfólk fiskeldis, iðnaðarmenn eða frumkvöðla sem eru að koma af stað brugghúsi eða vinna lækningarvörur úr afurðum sjávarútvegs. Það er nánast sama hvar mann ber niður, hvort talað er við hugbúnaðargeirann, alls staðar segir fólk það sama: „Við viljum biðja ykkur um að greiða götu okkar, þannig að hugmyndir okkar geti orðið að veruleika. Það er ánægjulegt að geta sagt við þetta fólk að til þess að gera langtímaáætlanir þurfi það einmitt stöðugt efnahagsumhverfi, lága verðbólgu og vexti, frið á vinnumarkaði. En það er líka liður í að leysa úr læðingi þessa krafta að létta skattbyrði af atvinnurekendum og launþegum.“
Jón kinkar kolli og segir: „Við trúum því að verðmætasköpunin sem því fylgir skapi á endanum meiri tekjur fyrir ríkissjóð.“
Sköpunarkrafturinn uppspretta verðmætasköpunar
Nýsköpunarstefnan sem við vorum að marka gengur út á það að skapa meiri verðmæti sem er forsenda lífskjarasóknar og fyrir því að eiga fyrir öflugu velferðarkerfi,“ segir Þórdís Kolbrún. „Við njótum þess að vera yngri þjóð og að lífeyrissjóðskerfið stendur betur en í löndunum í kringum okkur, en þróunin er þó ekki sjálfbær á öllum sviðum og við verðum að geta rætt og fundið leiðir til að efla nýsköpun í opinberum kerfum, svo sem heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Þar erum við eftirbátar nágranna okkar á Norðurlöndum.“
– Það verður að teljast áskorun í þessari ríkisstjórn.
„Jú, það er ögrandi verkefni í þessari ríkisstjórn,“ segir Jón.
„Það er samt sátt um að leiða nýsköpun í þessu kerfi,“ segir Þórdís Kolbrún. „Mér finnst við vera með leiðirnar, en ég hef ekki trú á því að hið opinbera geri það eitt og sér. Með þessu á ég við að það eru þarna úti í samfélaginu einstaklingar og hugvit til að leysa áskoranir í þessum kerfum okkar, ýmist til að bæta þjónustu við notendur, auka lífslíkur og líðan fólks, lækka kostnað og auka skilvirkni kerfisins – og jafnvel eru þarna lausnir sem gera allt þetta. Þetta hugvit þarf að eiga greiðan og skilvirkan aðgang að opinbera kerfinu – í þágu okkar allra,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Við höfum líka mörg dæmi um það hvernig einkaframtakið getur stuðlað að nýsköpun og eflt þjónustu í heilbrigðiskerfinu,“ segir Jón. „Heilsugæslustöðin í Höfða í Reykjavík var sett á laggirnar árið 2017 og þar eru 19 þúsund skráðir í dag – það er þjónusta sem er opin öllum, engin mönnunarvandamál og ánægja meðal þeirra sem þangað leita.“
„Víst getur þetta valdið núningi,“ segir Bjarni. „Það hefur verið alið á þeirri hræðslu að stefna Sjálfstæðisflokksins byggist á aðskilnaði milli þeirra sem hafa efni á að kaupa slíka þjónustu og hinna sem hafi ekki efni á því. En stefna okkar er og hefur alltaf verið sú að allir Íslendingar hafi aðgang að sama heilbrigðis- og menntakerfi frá vöggu til grafar. Það á ekki að skipta máli hvaða bakgrunn fólk hefur. Við höfum fjölmörg dæmi um að okkur hafi tekist að byggja upp þjónustu með einkaframtaki, svo sem tannlækningar og sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar. Eins er gagnrýnt að einhverjir geti hagnast á að veita slíka þjónustu, en það má til dæmis leysa með því að fjármagn sé bundið einstaklingum innan kerfisins. Þá njóta menn hagræðisins sem skapast með einkaframtakinu og landsmenn njóta betri þjónustu. Það hefur gefist vel á höfuðborgarsvæðinu og nú er unnið að því að koma slíku kerfi upp annars staðar á landinu. Við höfum ekki fundið annað en ánægju með það og að það bæti aðgengi að heimilislæknum. Að sjálfsögðu á þetta ekki við um hvaða heilbrigðisþjónustu sem er, en við höfum nægilega mörg dæmi um að þetta sé skilvirkt og skili góðri niðurstöðu fyrir heilbrigðiskerfið okkar til að vera opin fyrir því að þróa kerfið áfram.“
– Hvað um menntakerfið?
„Það kerfi er einnig fjármagnað af hinu opinbera og þar hefur útgangspunkturinn alltaf verið sá að tryggja jöfn tækifæri á Íslandi. En það er auðvelt að nefna dæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt breytingar og efnt til nýsköpunar með því að virkja einkaframtakið eins og til dæmis þegar Hjallastefnan fór af stað í Garðabæ. Þá var einmitt búið þannig um hnútana að allir foreldrar væru í sambærilegri stöðu gagnvart því að geta gert upp á milli valkosta – þetta snerist um frelsið til að geta valið.“
„Eru ekki bestu meðmælin með Verzlunarskólanum hversu ásóknin er mikil að komast þar að og svo hefur skóli Ísaks Jónassonar verið rómaður alla tíð,“ bætir Jón við.
Einkaframtakið snýst um frumkvæði og atorkusemi þjóðarinnar
„Stundum er eins og fólk átti sig ekki á því hversu samstarf hins opinbera er mikið við einkaframtakið og nær yfir mörg svið,“ segir Bjarni. „Vegagerðin er meira og minna í gegnum útboð. Við höfum ekki oft framkvæmt meira en við gerum í dag, en við þurfum ekki opinberar stofnanir til að grafa jarðgöng – jafnvel þó að það sé opinber framkvæmd. Það er undarlegur málflutningur að sá fræjum tortryggni gagnvart einkaframtaki, því það er bara annað orð yfir framtak fólksins í landinu, frumkvæði og atorkusemi þjóðarinnar – þeirra fjölmörgu sem vilja drífa áfram verðmætasköpun og fá hjólin til að snúast – oft og einatt til hagsbóta fyrir þjóðfélagið í heild. Hugmyndafræði sjálfstæðismanna snýst um að virkja þessa krafta og skapa landsmönnum jöfn tækifæri til að ná árangri í lífinu.“
– Hver er tilgangurinn með fundaherferð hringinn um landið?
„Fyrst og fremst sá að komast í beint samband við fólk ið okkar úti um allt land – það gekk stórvel í fyrra,“ segir Jón. „Svo er þetta ekkert síður gott verkfæri til að þjappa hópnum okkar saman.“
„Í þingflokknum er nú bara venjulegt fólk sem býr í þessu landi og til þess að næra þær rætur þurfum við einmitt að eiga gott samband við fólkið sem við vinnum fyrir,“ segir Þórdís Kolbrún. „Þessir fundir snúast ekki um að messa yfir neinum – þeir eru tækifæri til að hlusta. Þess vegna eru hringborðsumræður og þingmenn og ráðherrar færa sig milli borða. Við gerðum þetta mjög skipulega í fyrra. Eftir hvern einasta fund fóru starfsmenn á milli og punktuðu hjá sér athugasemdir sem við erum enn að fylgja eftir. Í þeirri hringferð sem er að hefjast núna munum við koma inn á hvað stóð upp úr í fyrra og hvað við höfum gert til að vinna úr því.“
– Það má búast við að raforkuöryggi beri á góma eftir aftakaveðrið um daginn?
„Allt samfélagið var rækilega minnt á mikilvægi þessara grunninnviða og lífæða samfélagsins. Sú vinna sem við höfum lagt áherslu á undanfarin misseri eins og jarðstrengjavæðing í dreifikerfi, jöfnun dreifikostnaðar raforku og einföldun regluverks þegar kemur að leyfisveitingum nýtist vel til að byggja upp þessa innviði sem um ræðir,“ segir Þórdís Kolbrún.
Mikið eftir í samgöngumálum
„Já, það er gríðarlega mikilvægt að efla innviði til að geta stutt við almenna verðmætasköpun og búsetu um allt land,“ segir Jón. „Við erum komin áleiðis í fjarskiptamálum með ljósleiðaravæðingu, sem felur í sér gríðarleg tækifæri fyrir fólk til fjölbreyttari starfa, náms og bættra lífsgæða. En við eigum heilmikið eftir þegar kemur að samgöngumálum og erum að kortleggja hvernig megi ljúka þeirri uppbyggingu. Svo þarf að efla verulega dreifikerfi raforku til að geta stutt við frekari nýsköpun og verðmætasköpun. Það er sanngirnismál að landssvæði búi við sömu skilyrði að þessu leyti.
Það er mjög mikilvægt að leita allra leiða til að hraða sem mest nauðsynlegri uppbyggingu innviða landsins, eins og í samgöngum og flutningi raforku. Það er augljóst að einstaka landeigendur eða fámennir þrýstihópar eiga ekki að geta komið í veg fyrir nauðsynlega uppbyggingu og framþróun í raforkuflutningskerfinu, svo dæmi sé nefnt. Þar á að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir hagsmuni fárra og við eigum að breyta regluverkinu með það í huga. Einnig er nauðsynlegt að komast að skynsamlegri niðurstöðu þegar kemur að nýjum virkjanakostum til framleiðslu endurnýjanlegrar raforku. Við höfum sett okkur háleit markmið í loftslagsmálum, en á sama tíma er í undirbúningi að að gera þriðjung landsins að þjóðgarði, svonefndan hálendisþjóðgarð. Það rímar að mínu mati illa saman að ætla að skerða mikið möguleika til framleiðslu endurnýjanlegrar orku, á sama tíma og kallað er eftir slíkri orku til uppbyggingar atvinnutækifæra víða um land. Þess vegna tel ég að skoða verði orkuöflunarmálin, orkuflutningsmálin og hálendisþjóðgarð í samhengi og ná heildstæðri sátt í þessum málaflokkum. Eitt má ekki útiloka annað.
Í samgöngumálum er mikið óunnið eins og ég nefndi og það er lífsnauðsynlegt að hraða uppbyggingu samgöngumannvirkja eins og kostur er með bætt umferðaröryggi að markmiði. Slysahrinan í umferðinni það sem af er ári er áminning um það. Alþingi samþykkti fyrir ári síðan samgönguáætlun sem fól í sér mikil tímamót um leiðir til að flýta framkvæmdum. Samkomulag við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fellur ágætlega að þeim hugmyndum. Ný tillaga samgönguráðherra um samgönguáætlun er ekki alveg í takti við ákvörðun þingsins og nú er það Alþingis að sameina þessar hugmyndir og koma þeim í framkvæmd. Það að menn hafa ekki alveg gengið í takt hefur tafið málin sem eru svo brýn. Það er mikilvægt að Alþingi ljúki vinnu sinni sem fyrst, forgangsraði verkefnum og að unnið verði eftir þeirri stefnu að flýta framkvæmdum sem mest,“ segir Jón.
Í einstakri stöðu til að hefja uppbyggingarskeið
„Í tíð þessarar ríkisstjórnar höfum við aukið myndarlega við opinbera fjárfestingu. En við þurfum að gera betur því verkefnið er að vinna upp slaka sem myndaðist í fjárfestingum eftir hrunið. Gleymum því ekki að við höfum á fáum árum einnig fengið stóraukinn ferðamannastraum sem kallar á sterkari innviði.
Góðu fréttirnar eru þær að við erum í einstakri stöðu til að hefja slíkt uppbyggingarskeið. Við eigum einfaldlega að umbreyta eign ríkisins í Íslandsbanka í arðbærar fjárfestingar í innviðum. Það er af nógu að taka, allt frá hefðbundnum samgöngufjárfestingum í vegum, brúm og höfnum yfir í fjarskipti, s.s. nýjan gagnastreng og aðra grunninnviði m.a. í heilbrigðisþjónustu.
Það getur tekið tíma að losa um eignarhaldið, en mikilvægast er að setja stefnuna á að selja. Hér er mikilvægt að hafa í huga að ekki er nauðsynlegt að selja allt í einu svo það skipti verulegu máli,
Eigið fé Íslandsbanka er rúmlega 170 milljarðar króna. Jafnvel þótt bankinn myndi seljast á lægra verði en eigið fé hans segir til um, myndi sala á 25–50% eignarhlut á næstu árum opna stór tækifæri til fjárfestinga. Ég efast um að nokkur önnur þjóð í Evrópu sé í annarri eins stöðu til að taka til í efnahagsreikningi sínum og leggja grunn að aukinni verðmætasköpun til framtíðar.
Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um gjaldtöku til að fjármagna samgöngubætur og það er skiljanlegt, vegna þess að við þurfum að hraða framkvæmdum, en nærtækari leið er að losa um þessa verðmætu eign og afmarka gjaldtöku í framtíðinni við stærri framkvæmdir á borð við Sundabraut, Hvalfjarðargöng og aðra gangagerð.
Núna er góður tími til að huga að átaki í þessum efnum, efnahagslífið er tilbúið fyrir opinberar framkvæmdir. Eftir kraftmikið hagvaxtarskeið undanfarin ár er nú minni vöxtur og verðbólgan komin undir 2%,“ segir Bjarni.
Og Jón bætir við: „Í ljósi tillagna fjármálaráðherra um að hluti söluverðmætis Íslandsbanka fari til fjárfestinga í samgöngumálum, gjörbreytast forsendur samgönguáætlunar sem þingið hefur til meðferðar þessa dagana. Það er mjög jákvætt að staða ríkissjóðs skuli vera orðin svo öflug að hægt sé að falla frá hugmyndum um að söluverðmæti bankanna fari til þess að greiða niður skuldir eins og upphafleg áform voru um.
Nýjar forsendur fjármálaráðherra draga verulega úr þörfinni á að efna til sérstakrar gjaldtöku til uppbyggingar samgöngumannvirkja. Mikilvægt er að samgöngunefnd Alþingis taki tillit til þessa í vinnu við samgönguáætlun og að fundin verði leið til að framkvæmdir á grundvelli þessa hefjist á þessu ári. Með þeirri leið sem ráðherra boðar getum við vonandi bætt við verkefnum fyrir tugi milljarða á fyrsta tímabili áætlunarinnar. Áhrifin yrðu mjög mikil og í hönd færu mestu fjárfestingar sögunnar í samgöngumannvirkjum á Íslandi,“ segir Jón Gunnarsson.
– Skapar ríkisstjórn þvert yfir pólitíska ásinn tækifæri á að rífa mál upp úr skotgröfum og ná þverpólitískri samstöðu, svo sem um breytingar á stjórnarskrá?
„Breytingar á stjórnarskrá eiga ekki að ráðast af tímabundnu meirihlutavaldi á þingi, ekki að vera undir einni ríkisstjórn komnar, við eigum að hafa metnað til að byggja á sem breiðastri samstöðu meðal þings og þjóðar. En það kostar vilja frá öllum og það má ekki vera þannig að auðvelt sé að stöðva tillögur sem byggja á góðum undirbúningi með þvergirðingshætti,“ segir Bjarni.
„Hins vegar held ég að þetta ríkisstjórnarsamstarf hafi hentað sérstaklega vel við þær aðstæður sem hér sköpuðust og að ríkisstjórnin hafi sýnt það í verki, t.d. í kjarasamningum síðasta árs, að hún getur náð miklum árangri með þessa breidd. Sum mál eru hins vegar þannig að þau eru síður til þess fallin að leitað sé málamiðlana um þau.“