Halldór Blöndal er formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna (SES), en félagsmenn í samtökunum verða flokksbundnir sjálfstæðismenn um leið og þeir ná 60 ára aldri. Halldór var alþingismaður Norðurlands eystra frá 1979 til 2007, ráðherra frá 1991 til 1999 og forseti Alþingis frá 1999 til 2005. Hann hefur verið í pólitík frá blautu barnsbeini. Sem þingfréttaritari Morgunblaðsins sat hann þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1961 eða sama ár og Bjarni Benedidktsson tók við formennsku Sjálfstæðisflokksins af Ólafi Thors. Hann settist fyrst á þing sem varaþingmaður 2. desember 1971. Eftirfarandi viðtal við Halldór er úr blaðinu Á réttri leið sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf út í febrúar 2020, en blaðið í heild má nálgast hér.
Þú hefur komið á fundi þingflokks sjálfstæðismanna frá 1961 og allt fram til 2007. Eru ekki miklar breytingar sem þú hefur upplifað frá því að Ólafur Thors stýrði flokknum?
„Siðirnir hafa breyst. Ólafur Thors er ógleymanlegur, hann var alltaf gamansamur og bjart yfir honum en öðrum þræði var hann alvörugefinn. Bjarni Benediktssoni byrjaði alla reglulega þingflokksfundi með því að fara yfir stöðuna í stjórnmálunum. Það var gagnlegt og raunar ómetanlegt fyrir mig sem ungan þingfréttaritara á sínum tíma.
Fyrir mann sem hefur verið í pólitík alla ævi voru það ekki viðbrigði að fara úr pólitíkinni?
„Eftir kosningar 1999 sagði ég Davíð Oddssyni að ég vildi hætta sem ráðherra en verða forseti Alþingis, sem mér þótti skemmtilegur endir á mínum stjórnmálferli. Mér yngri menn sóttust eftir að komast í ráðherrastól, sem er skiljanlegt. Til þess fara menn í stjórnmál að hafa áhrif.“
En var ekki erfitt að hætta?
„Nei, nei, það var ekki erfitt. Ég var 69 ára gamall og við Kristrún ætluðum að njóta ellinnar saman. Þess vegna var eðlilegt að hætta á þessum tíma. Ég var búinn að vera svo lengi í pólitíkinni fyrir norðan að það var kominn tími til að karlinn hætti.“
Fljótlega eftir það tekur þú við starfi formanns SES, hvernig kom það til?
„Styrmir Gunnarsson kom að máli við mig og spurði hvort ég væri ekki reiðubúinn til að taka við formennskunni af Salóme Þorkelsdóttur og hann myndi fara í stjórnina með mér. Þetta var árið 2009. Við höldum hádegisfundi á miðvikudögum í hverri viku frá september og fram í maí ár hvert. Við byrjuðum smátt og vorum með fyrstu fundina okkar í setustofunni í Valhöll. Fljótt kom í ljós að hún var of lítil og við fluttum okkur í stóra salinn. Það er aldrei fátt á þessum fundum, þeir eru alltaf vel sóttir. Mest hafa verið 130–140 manns. Sumir koma oft en aðrir sjaldnar og við sjáum alltaf ný andlit. Það er endurnýjun í hópnum.
Við höfum einsett okkur að fundirnir séu um það bil klukkustund og þeim lokið uppúr eitt og höfum staðið við það. Það hefur sína kosti. Formið er þannig að ég stýri fundi. Þegar fyrirlesarinn hefur lokið ræðu sinni gefst fundarmönnum kostur á að gera stuttar athugasemdir eða bera fram fyrirspurnir.
Við reynum að vanda val fyrirlesara. Auðvitað köllum við á forsytumenn úr Sjálfstæðiflokknum og áhrifamenn í atvinnulífinu. En við leggjum líka mikið upp úr því að kalla til einstaklinga, sem hafa látið sig málefni aldraðra varða.
Við höfum átt mjög gott samstarf við forystu Sjálfstæðisflokksins og ég vil segja að við höfum náð fram ýmsum baráttumálum okkar, – en nauðsynlegt er að vera vakandi því að alltaf er hægt að gera betur! En það hefur smám saman tekist að hækka að raungildi þær greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sem renna til aldraðra. Þær hafa aldrei verið hærri. Við höfum frá öndverðu lagt áherslu á, að reglur Tryggingastofnunarinnar séu með þeim hætti, að þær dragi ekki úr sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna. M.ö.o. það verði að gefa öldruðum færi á að afla sér viðbótartekna að vissu marki án þess að það skerði greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þannig er nú 100 þús. kr. frítekjumark atvinnutekna og mér er ljúft að geta þess, að formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson beitti sér sérstaklega í því máli.
Enn er að mörgu að hyggja eins og lagfæringum í skattamálum sem við munum beita okkur fyrir að nái fram að ganga. Þá er nauðsynlegt að skerðingar á greiðslum almannatrygginga séu stöðugt í endurskoðun. Þar er margt í framkvæmdinni með þeim hætti, að nauðsynlegt er að bregðast við.“