Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Það liggur í mannlegu eðli að halda að sér höndum á tímum óvissu. Athafnamaðurinn setur áform um fjárfestingar í nýjum tækjum á ís og fjölskylda sem hugar að íbúðakaupum hikar og bíður þess að framtíðin skýrist.
Á tímum óvissu er lítið hægt að fullyrða annað en að líkur séu á því að efnahagsleg umsvif minnki. Jafnvel hagfræðingar, sem eru sannfærðir um að hægt sé að setja allt efnahagslífið inn í reiknilíkan og spá fyrir um framtíðina, játa sig sigraða. Spámódel hagfræðinga (sem sumir hverjir telja sig eiga sæti á bekk með raunvísindamönnum) eru ófullkomin.
Óvissa í efnahagsmálum er oft vegna athafna eða athafnaleysis stjórnvalda. Brexit og viðskiptadeilur Bandaríkjanna og Kína, hafa valdið efnahagslegum höfuðverkjum í flestum löndum heims. Pólitískur óstöðugleiki hefur leikið mörg lönd grátt í gegnum söguna. Efnahagslegar hörmungar eru fylgifiskur stríðs og átaka.
Þannig skapar maðurinn sjálfur óvissu. En sumt er ekki á mannlegu valdi. Náttúran veltir ekki fyrir sér stöðunni á hlutabréfamörkuðum og lætur sér þróun efnahagsmála í léttu rúmi liggja. Náttúruhamfarir, fellibyljir, eldgos, flóð, þurrkar, skógareldar og önnur óáran, eru oft þungur baggi fyrir einstök lönd og landsvæði, stundum heiminn allan. Farsóttir ógna lífi og heilsu. Í heimi nútímans, þar sem fólk ferðast frjálst milli landa, getur veirusótt orðið að heimsfaraldi, sem hefur ekki aðeins alvarlegar afleiðingar á líf einstaklinga heldur teflir í tvísýnu efnahagslegum stöðugleika og lífkjörum almennings.
Kórónuveiran (Covid-19)
Faraldur Covid-19 af völdum nýrrar kórónuveiru sem á uppruna sinn í Wuhan-héraði í Kína hefur breiðst hratt út. Vonir um að hægt væri að hemja útbreiðsluna rættust ekki. Líklega sleppur ekkert land undan veirunni.
Hér verður ekki gert lítið úr þeirri ógn sem stafar af kórónuveirunni. Veirusótt sem verður faraldur er alvarleg. Ekki verður annað séð en að viðbrögð íslenskra yfirvalda hafi verið fumlaus og hnitmiðuð. Og að líkindum er það undir hverju og einu okkar komið hvernig til tekst í baráttunni.
En það er nauðsynlegt að gera ekki meira úr hættunni en efni standa til. Í gærmorgun (þriðjudag) höfðu verið staðfest smit af völdum veirunnar í 90.936 einstaklingum í heiminum öllum, að því er fram kemur á vef BBC. Langflestir hinna smituðu eru í Kína (80.151), síðan í Suður-Kóreu (4.812), Ítalíu (2.036) og í Íran (1.501). Staðfest dauðsföll eru 3.117 – langflest í Kína.
Til samanburðar er vert að hafa í huga að á hverju ári veikist um einn milljarður manna af inflúensu á hverju ári. Milli 290 og 650 þúsund deyja en stofn veirunnar er misalvarlegur.
Vanmetin áhrif
Margt bendir til að stjórnvöld og viðskiptalífið í heild sinni hafi vanmetið áhrif kórónuveirunnar – áhrifin geta orðið meiri, dýpri og langvinnari en nokkur reiknaði með. Liðin vika var sú versta á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum frá fjármálakreppunni 2008. Þrjár helstu vísitölur hlutabréfa lækkuðu um 10% eða meira, þrátt fyrir nokkra hækkun fyrir lok markaða á föstudag.
Peter Dixon, hagfræðingur hjá Commerzbank, segir í viðtali við tímaritið National Review um helgina að staðan sé ólík aðstæðum í fjármálakreppunni 2008. Þá hafi fjármálamarkaðir brugðist við því sem var að gerast en nú séu þeir að bregðast við því sem gæti gerst. „Það er nær ómögulegt fyrir fjárfesta og greiningaraðila að gera skynsamlegar spár um hvað gæti gerst – við erum í blindflugi.“
Hversu alvarleg eða langvarandi efnahagslegu áhrifin eru veit enginn. Kórónuveiran kemur hins vegar á vondum tíma fyrir efnahag heimsins. Hagvöxtur hefur farið minnkandi í Kína og þrátt fyrir að vextir dansi um og undir núllinu hefur hagkerfi Evrópusambandsins ekki náð nauðsynlegri viðspyrnu. Hagfræðingar keppast við að uppfæra spár sínar og forystumenn ríkisstjórna um allan heim klóra sér í kollinum yfir því til hvaða aðgerða sé hægt að grípa. Vextir verða a.m.k. ekki keyrðir mikið niður til að örva efnahagslífið. OECD hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir heiminn og hefur hún ekki verið lægri frá fjármálakreppunni. Samkvæmt upplýsingum Bloomberg-upplýsingaveitunnar er framleiðsla verksmiðja í Kína aðeins 60-70% af getu. Í Kína eru framleiddar mikilvægar neytendavörur og íhlutir fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum heims. Fall í framleiðslu hefur áhrif á þessi fyrirtæki, s.s. Apple, og neytendamarkaði í flestum löndum.
Vísbendingar eru um að áhrif kórónuveirunnar – að minnsta kosti til skamms tíma – kunni að vera meiri en fjármálakreppunnar fyrir 12 árum.
Misjöfn staða
Sum ríki standa veikar efnahagslega en önnur. Í Evrópu hafa flest smit verið á Ítalíu, enn sem komið er. Ítalía hefur í mörg ár barist við króníska stöðnun og má vart við áföllum vegna kórónuveirunnar. Á síðasta ári var framleiðsla ítalska hagkerfisins sú sama og fyrir 15 árum og 4% minni en 2007 í aðdraganda fjármálakreppunnar. Atvinnuleysi viðvarandi. Atvinnuleysi meðal 25 ára og yngri er um 29% og er hvergi meira í Evrópusambandinu nema á Spáni og Grikklandi. Verg landsframleiðsla dróst saman á síðasta ársfjórðungi liðins árs.
Það eykur vanda Ítala að þeir geta ekki gripið til peningalegra aðgerða. Verkfærin eru öll í höndum Seðlabanka Evrópu og stýrivextir eru þegar mjög lágir (sumir neikvæðir). Svigrúmið í ríkisfjármálum er ekkert. Skuldir ítalska ríkisins eru um 133% af vergri landsframleiðslu – langt yfir ofan 60% viðmið Evrópusambandsins. Aðeins Grikkland er í verri stöðu.
Ólíkt Ítalíu er efnahagsleg staða Íslands sterk. Þótt enn sé ekki að fullu hægt að átta sig á hvaða áhrif kórónuveiran hefur á efnahag okkar erum við í stakk búinn til að grípa til ráðstafana og getum beitt verkfærum sem standa Ítölum ekki til boða, jafnt í peningamálum og ríkisfjármálum.
Mestu áhyggjurnar eru af neikvæðum áhrifum veirunnar á ferðaþjónustuna. Samstillt átak einkafyrirtækja og ríkisins í markaðssetningu lands og þjóðar hefur áður skilað gríðarlegum árangri. Þann leik verður að endurtaka. En fleira þarf að koma til. Endurskoða þarf ýmis sérgjöld sem lögð eru á ferðaþjónustuna samhliða því að losa um lausafjárkröfur bankanna til að gera þeim mögulegt að auka útlán til fjárfestinga – ekki aðeins í ferðaþjónustu heldur á öllum sviðum atvinnulífsins. Við getum orðað þetta sem svo að verið sé að hleypa súrefni inn í efnahagslífið. Íslensk stjórnvöld geta auðveldlega skrúfað frá fleiri súrefniskrönum, líkt og ég hef margoft bent á í ræðu og riti. Til þess þarf vilja og stefnufestu.
Viðbrögð markaðsaðila um allan heim við útbreiðslu kórónuveirunnar sýna hve mikil áhrif sálarástand – væntingar um framtíðina – hefur á framvindu efnahagsmála. Bjartsýni ýtir undir efnahagslegar athafnir. Svartsýni og óvissa draga úr framkvæmdavilja sem að öðru óbreyttu leiðir til verri lífskjara almennings. Oftar en ekki er sálarástand í beinu samhengi við störf og stefnu stjórnvalda.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2020.