Sálrænt heilbrigði efnahagsmála

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Það ligg­ur í mann­legu eðli að halda að sér hönd­um á tím­um óvissu. At­hafnamaður­inn set­ur áform um fjár­fest­ing­ar í nýj­um tækj­um á ís og fjöl­skylda sem hug­ar að íbúðakaup­um hik­ar og bíður þess að framtíðin skýrist.

Á tím­um óvissu er lítið hægt að full­yrða annað en að lík­ur séu á því að efna­hags­leg um­svif minnki. Jafn­vel hag­fræðing­ar, sem eru sann­færðir um að hægt sé að setja allt efna­hags­lífið inn í reiknilík­an og spá fyr­ir um framtíðina, játa sig sigraða. Spá­mód­el hag­fræðinga (sem sum­ir hverj­ir telja sig eiga sæti á bekk með raun­vís­inda­mönn­um) eru ófull­kom­in.

Óvissa í efna­hags­mál­um er oft vegna at­hafna eða at­hafna­leys­is stjórn­valda. Brex­it og viðskipta­deil­ur Banda­ríkj­anna og Kína, hafa valdið efna­hags­leg­um höfuðverkj­um í flest­um lönd­um heims. Póli­tísk­ur óstöðug­leiki hef­ur leikið mörg lönd grátt í gegn­um sög­una. Efna­hags­leg­ar hörm­ung­ar eru fylgi­fisk­ur stríðs og átaka.

Þannig skap­ar maður­inn sjálf­ur óvissu. En sumt er ekki á mann­legu valdi. Nátt­úr­an velt­ir ekki fyr­ir sér stöðunni á hluta­bréfa­mörkuðum og læt­ur sér þróun efna­hags­mála í léttu rúmi liggja. Nátt­úru­ham­far­ir, felli­bylj­ir, eld­gos, flóð, þurrk­ar, skógar­eld­ar og önn­ur óár­an, eru oft þung­ur baggi fyr­ir ein­stök lönd og landsvæði, stund­um heim­inn all­an. Far­sótt­ir ógna lífi og heilsu. Í heimi nú­tím­ans, þar sem fólk ferðast frjálst milli landa, get­ur veiru­sótt orðið að heims­far­aldi, sem hef­ur ekki aðeins al­var­leg­ar af­leiðing­ar á líf ein­stak­linga held­ur tefl­ir í tví­sýnu efna­hags­leg­um stöðug­leika og líf­kjör­um al­menn­ings.

Kór­ónu­veir­an (Covid-19)

Far­ald­ur Covid-19 af völd­um nýrr­ar kór­ónu­veiru sem á upp­runa sinn í Wu­h­an-héraði í Kína hef­ur breiðst hratt út. Von­ir um að hægt væri að hemja út­breiðsluna rætt­ust ekki. Lík­lega slepp­ur ekk­ert land und­an veirunni.

Hér verður ekki gert lítið úr þeirri ógn sem staf­ar af kór­ónu­veirunni. Veiru­sótt sem verður far­ald­ur er al­var­leg. Ekki verður annað séð en að viðbrögð ís­lenskra yf­ir­valda hafi verið fum­laus og hnit­miðuð. Og að lík­ind­um er það und­ir hverju og einu okk­ar komið hvernig til tekst í bar­átt­unni.

En það er nauðsyn­legt að gera ekki meira úr hætt­unni en efni standa til. Í gær­morg­un (þriðju­dag) höfðu verið staðfest smit af völd­um veirunn­ar í 90.936 ein­stak­ling­um í heim­in­um öll­um, að því er fram kem­ur á vef BBC. Lang­flest­ir hinna smituðu eru í Kína (80.151), síðan í Suður-Kór­eu (4.812), Ítal­íu (2.036) og í Íran (1.501). Staðfest dauðsföll eru 3.117 – lang­flest í Kína.

Til sam­an­b­urðar er vert að hafa í huga að á hverju ári veikist um einn millj­arður manna af in­flú­ensu á hverju ári. Milli 290 og 650 þúsund deyja en stofn veirunn­ar er misal­var­leg­ur.

Van­met­in áhrif

Margt bend­ir til að stjórn­völd og viðskipta­lífið í heild sinni hafi van­metið áhrif kór­ónu­veirunn­ar – áhrif­in geta orðið meiri, dýpri og lang­vinn­ari en nokk­ur reiknaði með. Liðin vika var sú versta á hluta­bréfa­mörkuðum í Banda­ríkj­un­um frá fjár­málakrepp­unni 2008. Þrjár helstu vísi­töl­ur hluta­bréfa lækkuðu um 10% eða meira, þrátt fyr­ir nokkra hækk­un fyr­ir lok markaða á föstu­dag.

Peter Dixon, hag­fræðing­ur hjá Comm­erzbank, seg­ir í viðtali við tíma­ritið Nati­onal Review um helg­ina að staðan sé ólík aðstæðum í fjár­málakrepp­unni 2008. Þá hafi fjár­mála­markaðir brugðist við því sem var að ger­ast en nú séu þeir að bregðast við því sem gæti gerst. „Það er nær ómögu­legt fyr­ir fjár­festa og grein­ing­araðila að gera skyn­sam­leg­ar spár um hvað gæti gerst – við erum í blind­flugi.“

Hversu al­var­leg eða langvar­andi efna­hags­legu áhrif­in eru veit eng­inn. Kór­ónu­veir­an kem­ur hins veg­ar á vond­um tíma fyr­ir efna­hag heims­ins. Hag­vöxt­ur hef­ur farið minnk­andi í Kína og þrátt fyr­ir að vext­ir dansi um og und­ir núll­inu hef­ur hag­kerfi Evr­ópu­sam­bands­ins ekki náð nauðsyn­legri viðspyrnu. Hag­fræðing­ar kepp­ast við að upp­færa spár sín­ar og for­ystu­menn rík­is­stjórna um all­an heim klóra sér í koll­in­um yfir því til hvaða aðgerða sé hægt að grípa. Vext­ir verða a.m.k. ekki keyrðir mikið niður til að örva efna­hags­lífið. OECD hef­ur lækkað hag­vaxt­ar­spá sína fyr­ir heim­inn og hef­ur hún ekki verið lægri frá fjár­málakrepp­unni. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Bloom­berg-upp­lýs­inga­veit­unn­ar er fram­leiðsla verk­smiðja í Kína aðeins 60-70% af getu. Í Kína eru fram­leidd­ar mik­il­væg­ar neyt­enda­vör­ur og íhlut­ir fyr­ir mörg af stærstu fyr­ir­tækj­um heims. Fall í fram­leiðslu hef­ur áhrif á þessi fyr­ir­tæki, s.s. Apple, og neyt­enda­markaði í flest­um lönd­um.

Vís­bend­ing­ar eru um að áhrif kór­ónu­veirunn­ar – að minnsta kosti til skamms tíma – kunni að vera meiri en fjár­málakrepp­unn­ar fyr­ir 12 árum.

Mis­jöfn staða

Sum ríki standa veik­ar efna­hags­lega en önn­ur. Í Evr­ópu hafa flest smit verið á Ítal­íu, enn sem komið er. Ítal­ía hef­ur í mörg ár bar­ist við krón­íska stöðnun og má vart við áföll­um vegna kór­ónu­veirunn­ar. Á síðasta ári var fram­leiðsla ít­alska hag­kerf­is­ins sú sama og fyr­ir 15 árum og 4% minni en 2007 í aðdrag­anda fjár­málakrepp­unn­ar. At­vinnu­leysi viðvar­andi. At­vinnu­leysi meðal 25 ára og yngri er um 29% og er hvergi meira í Evr­ópu­sam­band­inu nema á Spáni og Grikklandi. Verg lands­fram­leiðsla dróst sam­an á síðasta árs­fjórðungi liðins árs.

Það eyk­ur vanda Ítala að þeir geta ekki gripið til pen­inga­legra aðgerða. Verk­fær­in eru öll í hönd­um Seðlabanka Evr­ópu og stýri­vext­ir eru þegar mjög lág­ir (sum­ir nei­kvæðir). Svig­rúmið í rík­is­fjár­mál­um er ekk­ert. Skuld­ir ít­alska rík­is­ins eru um 133% af vergri lands­fram­leiðslu – langt yfir ofan 60% viðmið Evr­ópu­sam­bands­ins. Aðeins Grikk­land er í verri stöðu.

Ólíkt Ítal­íu er efna­hags­leg staða Íslands sterk. Þótt enn sé ekki að fullu hægt að átta sig á hvaða áhrif kór­ónu­veir­an hef­ur á efna­hag okk­ar erum við í stakk bú­inn til að grípa til ráðstaf­ana og get­um beitt verk­fær­um sem standa Ítöl­um ekki til boða, jafnt í pen­inga­mál­um og rík­is­fjár­mál­um.

Mestu áhyggj­urn­ar eru af nei­kvæðum áhrif­um veirunn­ar á ferðaþjón­ust­una. Sam­stillt átak einka­fyr­ir­tækja og rík­is­ins í markaðssetn­ingu lands og þjóðar hef­ur áður skilað gríðarleg­um ár­angri. Þann leik verður að end­ur­taka. En fleira þarf að koma til. End­ur­skoða þarf ýmis sér­gjöld sem lögð eru á ferðaþjón­ust­una sam­hliða því að losa um lausa­fjár­kröf­ur bank­anna til að gera þeim mögu­legt að auka út­lán til fjár­fest­inga – ekki aðeins í ferðaþjón­ustu held­ur á öll­um sviðum at­vinnu­lífs­ins. Við get­um orðað þetta sem svo að verið sé að hleypa súr­efni inn í efna­hags­lífið. Íslensk stjórn­völd geta auðveld­lega skrúfað frá fleiri súr­efniskrön­um, líkt og ég hef margoft bent á í ræðu og riti. Til þess þarf vilja og stefnu­festu.

Viðbrögð markaðsaðila um all­an heim við út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar sýna hve mik­il áhrif sál­ar­ástand – vænt­ing­ar um framtíðina – hef­ur á fram­vindu efna­hags­mála. Bjart­sýni ýtir und­ir efna­hags­leg­ar at­hafn­ir. Svart­sýni og óvissa draga úr fram­kvæmda­vilja sem að öðru óbreyttu leiðir til verri lífs­kjara al­menn­ings. Oft­ar en ekki er sál­ar­ástand í beinu sam­hengi við störf og stefnu stjórn­valda.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2020.