Fyrsti fundur lögregluráðs sem tók til starfa um áramótin var haldinn í gær og hefur það því formlega tekið til starfa. Um er að ræða formlegan samráðsvettvang lögreglustjóra sem byggist á því markmiði að efla samráð og tryggja hæfni lögreglunnar til að takast sameiginlega á við þær áskoranir sem uppi eru hverju sinni. Í lögregluráði eiga sæti allir lögreglustjórar á landinu, auk héraðssaksóknara. Ríkislögreglustjóri er formaður ráðsins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, kynnti hinn nýstofnaða samráðsvettvang á síðasta ári og sagðist þá binda vonir við að ráðið verði líflegur vettvangur umræðu, hugmynda og tillagna, sem geti veitt dómsmálaráðherra hvers tíma mikilvæga ráðgjöf um breytingar á skipulagi og starfsemi lögreglunnar, sem og veitt ráðherra og dómsmálaráðuneytinu nauðsynlegt aðhald.
Með stofnun lögregluráðs er stefnt að aukinni samvinnu og hagkvæmari nýtingu fjármagns og mannafla, allt með það að markmiði að lögreglan starfi í auknum mæli sem ein heild óháð því hvernig yfirstjórn er háttað. Gert er ráð fyrir að ráðið fundi mánaðarlega og fari yfir samstarfsverkefni embættanna, verklag, framþróun og stefnu lögreglunnar. Ríkislögreglustjóri fer áfram með málefni lögreglu í umboði ráðherra en skylt verður að bera veigamiklar ákvarðanir undir lögregluráð og leita eftir sjónarmiðum ráðsins um stefnumótun, sameiginleg útboð og ákvarðanir um að fela einstaka embætti lögreglustjóra lögregluverkefni á landsvísu svo dæmi sé tekið.