Óvinafagnaður

Björn Gíslason borgarfulltrúi:

Í síðustu viku misti ég hökuna niður í bringu. Og þá meina ég það í orðsins fyllstu merkingu. Það var þannig, að mér barst símtal um 22:15 rétt eftir síðari kvöldfréttir frá ágætri frænku minni sem búsett er í austurhluta borgarinnar. Þessi frænka mín, sem hringdi í mig, hefur aldrei kosið neitt annað en Samfylkinguna að hennar sögn, þrátt fyrir að ég, frændi hennar, hafi margsinnis reynt að snúa henni  í aðrar áttir. En svona er það nú bara, mér þykir jafn vænt um hana þrátt fyrir.

Það vill svo til að hún er á þeim aldri að eiga barn á leikskólaaldri. Hún er útivinnandi og einstætt foreldri. Hún sækir vinnu miðsvæðis í borginni. Og hún er ein af þeim kjósendum Samfylkingar sem á erfitt með að viðurkenna það sem aflaga fer hjá þessum blessaða flokki.

Í þessu símtali okkar kvað þó heldur betur við annan tón. Og er það kannski ekki skrýtið, að mér frænda hennar, hafi brugðið all verulega. Enda hélt ég í fyrstu, í sannleika sagt, að hún væri að gantast í mér, eins og hún á til að gera.

Hún tilkynnti mér það að hún væri gefast upp á því að búa í Reykjavík og bað mig, borgarfulltrúann og frænda hennar, að reyna hvað ég gæti að til að snúa þeirri, svo mjög vægt sé til orða tekið, heimskulegu ákvörðun meirihlutans við.

Nú allt í einu opnaði hún sig.

Staðreyndin er sú að hún þarf að aka til og frá vinnu og það tekur hana 70 mínútur, ef hún er heppin, fram og til baka, daglega. 35 mínútur hvora leið. Og stundum, sagði hún mér, getur það tekið, á morgnana hátt í eina klukkustund aðra leiðina.

Þessi ákvörðun meirihlutans olli henni það miklum áhyggjum  og kvíða að hún hringdi í frænda sinn, sem er í flokki, sem hún hefur aldrei stutt. Ekki það, hún hringir nú stundum í mig, en aldrei talar hún við mig um pólitík enda hefur verið þegjandi samkomulag á milli okkar, frá því að hún fór að hafa vit á stjórnmálum, að ræða hana ekki. Ég viðurkenni það þó, að ég brýt nú oftar en ekki samkomulagið þegar að kosningum kemur. En sem betur fer er okkur mjög vel til vina og hún fyrirgefur mér svona oftast nær.

Í þetta skiptið, og kannski eðlilega, grátbað hún mig um reyna allt hvað ég gæti að snúa þessari ákvörðun við, enda hafði hún í orðsins fyllstu merkingu miklar áhyggjur af því, hvað vinnuveitandi hennar myndi segja, þegar hún þyrfti að tilkynna honum það að hún yrði að fara í lægra starfshlutfall ef ákvörðun meirihlutans gengi eftir. Einstæða móðirin sem hefur lítið á milli handanna.

Hún kvaðst mjög kvíðinn fyrir þessu. Ég verð að viðurkenna að það fauk allhressilega í mig við að hlusta á frásögn hennar. Og hugsa um afleiðingar þessarar ákvörðunartöku meirihlutans.

Og þetta er dagsatt, hér er um engar ýkjur að ræða. Þessi frábæra frænka mín er ekki ein um þetta vandamál enda hefur umferðarþunginn í Reykjavík aldrei verið meiri, og engin meirihluti hefur boðað jafn mikinn óvinafögnuð og þessi meirihluti.

Samt sem áður ákveður meirihlutinn að visa frá tillögu okkar þess efnis að falla frá ákvörðun hans um styttingu opnunartíma leikskólanna á síðasta borgarstjórnarfundi.

Þetta er sennilega óvinsælasti meirihluti sem hefur starfað í borginni frá upphafi borgarstjórnar. Þetta er meirihlutinn sem er með færri atkvæði en minnihlutinn á bak við sig. Það er ekki bara umferðarþunginn, sem meirihlutinn þverskallast við að leysa, heldur er það fjármálin, skólamálin, skipulagsmálin svo fátt eitt sé nefnt.

Við getum nefnt mörg önnur mál, s.s. Elliðaárdalinn, sameiningar í Grafarvogi, nýtt leiðakerfi strætó, vegakerfið, klóakmálin, innkaupamálin og margt, margt fleira. Þetta er saga, og þetta er saga meirihlutans. Það er ekki eitt, það er allt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2020.