Þjóðaröryggi og íslensk stjórnsýsla

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður:

Orðum þurfa að fylgja aðgerðir. Á næstu dögum mun ég leggja fram skýrslubeiðni á Alþingi þar sem ég vil að skýrt verði hvaða innviðir teljast mikilvægir út frá þjóðaröryggi landsmanna, þ.e. af samgönguinnviðum, raforkukerfi og fjarskiptakerfi.

Forgangsraða þarf í kerfinu þannig að þjóðaröryggi og öryggi fjöldans vegi þyngra en hagsmunir fárra, m.a. með styrkingu flutnings- og dreifikerfis raforku á öllu landinu. Greina þarf samfélagslega innviði út frá þjóðaröryggi landsins og samfélagsins alls þar sem einnig verði skoðað hvaða leiðir séu færar til að tryggja að fjarskiptasamband rofni ekki í aftakaveðrum og náttúruhamförum.

Eitt af því sem bíður löggjafans að ræða er hvort íslenska ríkið ætti með almennum hætti að fara með skipulagsvald vegna helstu grunnviða landsins á grundvelli þjóðaröryggishagsmuna. Til samanburðar við hin Norðurlöndin þar sem farið var að huga að þjóðaröryggismálum fyrir áratugum síðan, þá er íslensk löggjöf heldur vanþroskuð.

Ég óska eftir því að fjallað verði um skilgreiningu á þjóðaröryggi, að staða helstu grunninnviða íslensks samfélags sem varða þjóðaröryggismál verði skoðuð m.t.t. til skipulagsmála, að fjallað verði um hvaða grunnviði íslensks samfélags beri að skilgreina sem mikilvæga með tilliti til þjóðaröryggis, að tekið verði saman hvaða helstu hlutar vegasamgöngukerfisins; vegir, brýr, o.s.frv. beri að skilgreina með hliðsjón af þjóðaröryggi og hvaða stofnanir íslenskrar stjórnsýslu fari með yfirumsjón og þá lagalegu skyldu að tryggja þá þætti. Þá þurfi einnig að fjalla um og skilgreina þá þætti raforkukerfisins, út frá varaafli og stýringu m.a. með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna.

Það verður að teljast sérstaklega mikilvægt út frá hagsmunum þjóðarinnar að koma af stað umræðunni og meta hvort íslenska ríkið ætti með almennum hætti að fara með skipulagsvald vegna helstu grunninnviða landsins á grundvelli þjóðaröryggishagsmuna, það hlýtur að vera hagsmunamál okkar allra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. janúar 2020.