Hugarfarsbreyting

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Það er sjálfsögð krafa og réttlætismál að opinberum störfum sé dreift með sem jöfnustum hætti um allt land. Um leið er þetta ein af stærri byggðaaðgerðum hins opinbera enda mikilvægt að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land. Þrátt fyrir reglulega umræðu í þessa veru undanfarin ár sýna nýlegar tölur Byggðastofnunar að enn er langt í land. Fjöldi opinbera starfa er ekki í samræmi við íbúafjölda og þar hallar á landsbyggðina.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að snúa þessari þróun við. Forsætisráðherra hefur lagt áherslu á að skoðað verði sérstaklega þegar ný starfsemi hefst á vegum hins opinbera hvort starfsemin geti verið sett á laggirnar utan höfuðborgarsvæðisins. Þá er í byggðaáætlun að finna kraftmiklar aðgerðir til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni.

Í haust setti ég af stað vinnu við gerð áætlunar til að efla starfsemi þeirra stofnana á landsbyggðinni sem undir mig heyra. Ég lagði ríka áherslu á að slíka áætlun þyrfti að útfæra í samráði við forstöðumenn þeirra stofnana sem um ræðir. Þá þyrfti slík áætlun að færa starfsmönnum meiri sveigjanleika og hagræði um val á starfsstöð auk þess sem fjármagna þyrfti áætlunina frá upphafi. Sömuleiðis þyrfti að kanna leiðir til aukinnar hagræðingar í rekstri, m.a. með því að sameina starfsstöðvar opinberra stofnana í sama húsnæði. Afrakstur þessarar vinnu liggur nú fyrir og verður áætlunin kynnt í dag.

Í áætluninni er að finna áherslur og aðgerðir ráðuneytisins og þeirra stofnana sem um ræðir. Jafnframt eru þar tölusett markmið um fjölgun starfa á landsbyggðinni. Í mínum huga er þó einna mikilvægast að það eigi sér stað ákveðin hugarfarsbreyting hjá hinu opinbera í garð fjölgunar starfa á landsbyggðinni. Að það myndist samstaða um að hafna þeirri aldagömlu hugmynd að opinberar stofnanir og fyrirtæki séu bundin af því að eiga lögheimili í steinsteypu í Reykjavík. Í því felast um leið tækifæri til að efla þjónustu og styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. janúar 2020.