Staðan aldrei verið sterkari

Aukið frelsi, lægri álögur og einfaldara líf var grunnstef þingmanna Sjálfstæðisflokksins á liðnu ári í sínum störfum fyrir land og þjóð – stef sem hefur ómað hátt og snjallt í níutíu ár eða frá því að flokkurinn var stofnaður árið 1929 og stefnan fyrst mörkuð í þágu einstaklings-, viðskipta- og athafnafrelsis.

Skattar á einstaklinga og fyrirtæki lækkuðu umtalsvert á árinu þegar samþykkt var að tillögu fjármálaráðherra að lækka annars vegar tekjuskatt einstaklinga um 70-120 þúsund krónur á ári og hins vegar tryggingagjaldið um 4,2 milljarða króna eða sem nemur 424 nýjum störfum ári. Þá hafa ríkisskuldir hvergi lækkað hraðar en á Íslandi samkvæmt greiningu matsfyrirtækisins Moody‘s sem hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á dögunum. Tollar á innflutt matvæli lækkuðu einnig um 240-590 milljónir króna sem leiðir til lægra vöruverðs.

Vextir hafa lækkað og húsnæðisvextir hafa aldrei verið lægri en það skiptir sköpum fyrir heimilin í landinu. Verðbólgan hefur einnig verið hamin og verðbólguhorfur eru ágætar. Þá hefur kaupmáttur aukist um 26,6% frá árinu 2013 á vakt Sjálfstæðisflokksins sem gerir það að verkum að fólk á rúmlega fjórðungi meira í veskinu um hver mánaðarmót í dag en það gerði fyrir sex árum. Staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið sterkari.

Í samfélagi þar sem sífellt stærri hluti verðmæta byggist á hugviti er brýnt að innviðir styðji við þess háttar starfsemi. Ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra setti á laggirnar frumkvöðlasjóðinn Kríu á árinu og tryggði 2,5 milljarða króna í verkefnið. Vísisjóðir geta sótt fjárfestingar til Kríu sem eykur aðgengi frumkvöðlafyrirtækja að fjármagni.

Ísland á mikið undir því að rækta góð viðskiptasambönd við sem flest ríki heimsins. Utanríkisráðherra undirritaði þrjár nýjar bókanir við fríverslunarsamning Íslands og Kína á árinu og opnaði þannig ný tækifæri fyrir útflutning á íslenskum framleiðsluafurðum til Kína. Nýr fríverslunarsamningur við Indónesíu hafði sömuleiðis mikinn ávinning í för með sér. Þá urðu breytingar á skipulagi Íslandsstofu á árinu sem skilaði sér í aukinni þjónustu til íslenskra útflytjenda og öflugra samstarfi við atvinnulífið.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í atvinnuvegaráðuneytinu gerðu sér einnig lítið fyrir á haustmánuðum og felldu brott yfir 1.000 reglugerðir. Ekki verður slegið af á nýju ári en afnema á 16 lagabálka, einfalda og breyta lögum og afnema fjölda leyfisveitinga sem allt miðar að því að greiða götu atvinnulífsins. Einfaldara og skiljanlegra regluverk stuðlar að aukinni verðmætasköpun, meiri skilvirkni, meiri samkeppni, lægra verði og þar með betri lífskjörum. Við erum á réttri leið.

Þá var frelsi fólks loks aukið á helgidögum þjóðkirkjunnar þegar banni við tiltekinni starfsemi, skemmtunum og afþreyingu á helgidögum var aflétt að tillögu dómsmálaráðherra. Mikilvæg skref voru einnig stigin á árinu til að færa þinglýsingar alfarið í rafrænt horf sem reynast mun bylting fyrir almenna borgara. Bætt stafræn þjónusta er mikilvæg fyrir betri samskipti fólks við hið opinbera og einnig tækifæri til að draga úr umhverfisáhrifum enda fækkar þar af leiðandi ferðum fólks stofnana á milli. Það sparar líka tíma, einfaldar lífið og eykur vonandi ánægju.

Á nýju ári bíða ný tækifæri, nýjar hugmyndir og lausnir fyrir fólkið í landinu. Staðan er góð, undirstöðurnar eru sterkar og full ástæða til að halda bjartsýn inn í árið 2020.