Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Eins og kunnugt er ríkir mikið ófremdarástand varðandi veiðistjórnun á makríl, norsk-íslenskri síld og kolmunna og allir stofnarnir hafa undanfarin ár verið ofveiddir sem nemur um 30% umfram ráðgjöf vísindamanna. Ekkert heildarsamkomulag um skiptingu hefur verið í gildi síðustu árin og hver þjóð ákveðið einhliða sínar aflaheimildir. Ofveiðin mun að óbreyttu hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir afkomu fjölda fólks og fyrirtækja og grafa undan orðspori allra samningsaðila sem ábyrgra fiskveiðiþjóða.
Ísland hefur um árabil reynt að ná samningum, á fjölmörgum strandríkjafundum, auk sérstakra funda sem haldnir hafa verið að frumkvæði Íslands þar sem allir þrír stofnarnir hafa verið ræddir saman. Það er mat mitt að samningsleysi undanfarinna ára kalli enn á ný á viðbrögð af hálfu Íslendinga enda er nauðsynlegt að koma hlutum á hreyfingu.
Nú liggur fyrir að ákveða heildaraflamark Íslands fyrir stofnana þrjá fyrir næsta ár. Á þessum tímapunkti vil ég senda skýr skilaboð til hinna strandríkjanna um að nú sé þörf á sameiginlegum aðgerðum, þessi óábyrga hegðun gangi ekki lengur. Ég hef því ákveðið að aflamark fyrir Ísland í stofnum norsk-íslenskrar síldar og kolmunna verði ákveðið á grundvelli síðustu strandríkjasamninga. Samhliða þessu mun samninganefnd okkar óska eftir fundum með hinum strandríkjunum til að ræða þá alvarlegu stöðu sem er uppi og hvetja til þess að aðilar setjist sem fyrst niður með það að markmiði að ná samningum um sjálfbæra veiðistjórn og sanngjarna skiptingu. Það er mikið í húfi. Skili þetta frumkvæði okkar ekki tilætluðum árangri er augljóst að endurmeta þarf stöðuna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2019.