Réttsýni, mildi og mannúð

„Ég var ekki há í loftinu þegar ég gerði mér grein fyrir því að kosningar voru eitthvað merkilegt fyrirbæri sem tengdist föður mínum. Hann var vélstjóri á togara og var einn af þessum mönnum sem hafði brennandi áhuga á pólitík, vann ávallt fyrir sinn flokk, Sjálfstæðisflokkinn og sína menn, þegar hann var í landi,“ segir Salome Þorkelsdóttir, fyrrverandi þingmaður, forseti Alþingis og Sjálfstæðiskona. „Ég minnist þess hve mér var mikið í mun strax á barnsaldri að standa með föður mínum þegar stjórnmál báru á góma, og hve ég gladdist þegar „flokknum okkar“ farnaðist vel. Þessi pólitísku barnabrek mín snérust síðan upp í alvöru lífsins og hafa fylgt mér alla tíð.“

Salome, sem er fædd árið 1927, kom fyrst inn á Alþingi árið 1979 og var þá ein af aðeins þremur konum. Á þingi gegndi hún stöðu forseta Alþingis lengst af, fyrst sem forseti efri deildar og síðar meir sem forseti sameinaðs þings. En hinn pólitíski ferill Salome teygir anga sína aftur til ársins 1962, en hún sat í hreppsnefnd Mosfellshrepps í 16 ár.

„Ég gekk í Kvenfélag Lágafellssóknar þegar við hjónin vorum nýflutt í Mosfellssveitina, nú Mosfellsbæ. Ég var ung móðir og húsmóðir 21 árs og hélt að það tilheyrði að ganga í kvenfélagið, en áttaði mig svo á að félagskonur voru miklu eldri og ráðsettari en ég,“ segir Salome og hlær. „En mér var vel tekið og ég starfaði á þeim vettvangi árum saman. Ég hafði brennandi áhuga á að starfa í kvenfélaginu og eiga þátt í að koma að ýmsum góðum málum sem félagið sinnti, á framfæri við ráðamenn. Samhliða sótti ég pólitíska fundi þegar tilefni  gafst til á vegum Sjálfstæðisfélagsins sem var stofnað á svipuðum tíma. Svo kom að því að lagt var að mér að gefa kost á mér í hreppsnefndarkosningum 1962. Það var að frumkvæði einnar konu í kvenfélaginu sem lagði hart að mér.“

Árið 1962 var Salome fyrsti varamaður í hreppsnefnd en kemst svo inn árið 1965 þegar Guðmundur Magnússon kennari, sem prýddi 1. sætið, flytur úr sveitinni. Á þessum tíma var Salome á svokölluðum launþegalista en þá voru ekki flokkspólitískir listar bornir fram heldur notuð ýmis heiti til auðkenningar á framboðslistum. Salome segir þetta fyrirkomulag hafa gert henni ljóst hve mikilvægt það er í stjórnmálastarfi að koma fram fyrir réttan hóp.

„Ég tók annað sætið á „lista launþega.“ Ég hafði jú verið launþegi áður en ég gifti mig, unnið á skrifstofu hjá opinberri stofnun. Svo að það gat alveg staðist í mínum huga. Ég átti svo eftir að kynnast því að ég var komin í karlasamfélag þar sem flokkspólitíkin var annars vegar og réði ríkjum. Það fór í taugarnar á mönnum sem studdu Sjálfstæðisflokkinn að ég var komin á framboðslista með „kommum“ eins og það var orðað og því ekki við hæfi fyrir sjálfstæðismenn að kjósa listann. Vinstri menn gátu ekki kosið hann vegna „íhaldsstelpunnar“. Þá ákvað ég að ef ég færi aftur í framboð yrði það aðeins undir réttu nafni, lista Sjálfstæðismanna. Og þannig var það eftir þetta,“ segir Salome, sem lítur á hreppsnefndarstörfin sem mikilvægan skóla áður en hún fór á þing.

Salome varð Sjálfstæðiskona ung að aldri en eins og áður sagði var faðir hennar, sjómaðurinn Þorkell Sigurðsson alltaf í mikilli baráttu fyrir flokkinn. En hvað var það við stefnu Sjálfstæðisflokksins sem heillaði þig?

„Þetta er stefnan sem byggir á réttsýni, mildi og mannúð. Það er stefnan í þremur orðum. Þetta eru orð sem mér fannst svo frábær þegar Ragnhildur Helgadóttir heitin sagði þau við mig.“

Og hefur þú aldrei efast um það að vera Sjálfstæðiskona?

„Nei, aldrei. Það var aldrei vafi í mínum huga og er ekki enn. Þó að auðvitað er oft eitthvað sem maður er ekki ánægður með, einhver einstök mál eða málaflokkar en þetta er flokkurinn. Þetta er stefnan sem ég fylgi.“

Konur og Sjálfstæðisflokkurinn

Árið 1979 þegar Salome tekur sæti á þingi eru aðeins þrjár konur alþingismenn í hópi 60 karla. Guðrún Helgadóttir fyrir Alþýðubandalagið, Jóhanna Sigurðardóttir fyrir Alþýðuflokkinn og Salome fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

„Á þessum tíma voru konur að hasla sér völl á vettvangi stjórnmála og þótti gott að hafa eina konu á lista svona upp á punt. Ekki voru nú allir sáttir við þetta kvennabrölt í framboðsmálum en smám saman fjölgaði okkur á þeim vettvangi eins og öðrum. Í mínum huga var eðlilegt og reyndar bráðnauðsynlegt að konur til jafns við karla ættu sterka rödd á vettvangi stjórnmálanna. Ég vildi leggja mitt lóð á vogarskálina, láta rödd mína heyrast og vera virkur þátttakandi.“

Hvaða hlutverki telur þú að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gegnt þegar kemur að þátttöku kvenna í stjórnmálum?

„Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hafi að vissu leyti forystu hvað varðar þátttöku kvenna innan stjórnmálaflokkanna. Kvenfélögin innan Sjálfstæðisflokksins hafa gegnt mikilvægu hlutverki í flokksstarfinu enda hafa konur ávallt verið áberandi og sterkur hópur innan flokksins. Þó að ég hafi ekki sjálf starfað innan sérstaks sjálfstæðiskvenfélags hef ég átt þess kost að fylgjast með starfinu og ég tel að það sé enn full þörf á að hafa LS (Landssamband Sjálfstæðiskvenna).“

Salome minnist þess sérstaklega að þær konur sem voru á þingi komu yfirleitt úr Sjálfstæðisflokknum. Fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi árið 1922 og sat til 1930 var Ingibjörg H. Bjarnason, skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík. Hún var upphaflega kosin af sérstökum kvennalista sem spratt upp úr réttindabaráttu kvenna, en hún  gekk síðar (1924) í Íhaldsflokkinn sem við samruna við Frjálslynda flokkinn varð að Sjálfstæðisflokknum árið 1929. Auður Auðuns var fyrsta konan sem gegndi ráðherraembætti dóms- og kirkjumálaráðherra árið 1970 og í kjölfar hennar varð Ragnhildur Helgadóttir menntamálaráðherra frá 1983 til 1985 og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1985 til 1987. Ragnhildur var fyrsta og eina konan til að gegna embætti forseta neðri deildar Alþingis 1961 til 1962 og á ný 1974 til 1978.

„Það var einmitt fyrir hvatningu frá Ragnhildi að ég var valin í embætti forseta efri deildar Alþingis kjörtímabilið 1983 til 1987 og síðar forseti sameinaðs þings 1991 og fyrsti forseti Alþingis 1991 til 1995 þegar deildaskipting þingsins var aflögð. Við vorum tvær konur og 23 karlar í þingflokknum kjörtímabilið 1983 til 1987.“

Salome telur framboð Kvennalistans árið 1983 hafa átt mikilvægan þátt í því að ryðja brautina fyrir konur bæði innan og utan Sjálfstæðisflokksins. En þrátt fyrir tíðarandann með tilkomu Kvennalistans segist Salome ekki hafa farið í pólitík á þeim forsendum.

„Hvað mig varðar fór ég ekki í pólitík sem kvenfrelsis- eða kvenréttindakona. Ég hafði fyrst og fremst í huga að starfa að góðum málum með konum og körlum. Mín áhugamál voru á vettvangi ýmissa velferðarmála. Hin svokölluðu mjúku mál sem í víðu samhengi varða fjölskylduna, unga sem aldna, skóla-, heilbrigðis- og félagsmál og svo umferðarmál svo dæmi séu tekin. Mig langaði fyrst og fremst að vera þátttakandi í að bæta samfélagið. Til þess að það gangi eftir er brýnt að bæði konur og karlar vinni saman,“ segir Salome.

Þingstörf og fjölmiðlaumfjöllun

Í þingstörfum sínum lagði Salome mesta áherslu á velferðarmál, þá helst skólamál, heilbrigðismál og umferðarmál. Fyrsta frumvarpið sem hún flutti og varð að lögum var að færa kjördag af sunnudegi yfir á laugardag, en það kynnti hún þegar hún er nýkomin á þing. Annað stórt mál sem kom frá Salome var frumvarp um ljósanotkun bifreiða allan sólarhringinn, allan ársins hring.

„Það gekk ekki svo lítið á í sambandi við það mál og vakti töluverða athygli fjölmiðla. Svarthöfði ritaði langan pistil um þessa tillögu,“ minnist Salome. Í greininni veltir Svarthöfði því upp hvort Salome, sem hann vitnar í sem „þingfrú“, eigi mikið erindi á löggjafarsamkundu þjóðarinnar. „Svona töluðu þeir yfirleitt um mig, blaðamennirnir. Vonandi þekkist ekki þessi lítilsvirðing í garð kvenna lengur,“ segir Salome, og rifjar upp annan titil, „gullhlaðsgrundin“, sem hún hlaut hjá blaðamanni.

Salome var virk í starfi SES, Samtaka eldri Sjálfstæðismanna frá stofnun samtakanna og sat í fyrstu stjórn sem varaformaður og síðar sem formaður. „Við vorum mjög virk í því félagi og börðumst fyrir hagsmunum eldri borgara. Við áttum mjög gott samstarf við forystu flokksins hverju sinni og það var hlustað á okkur og ýmislegt gert í sambandi við kjör og aðstoð við eldri borgara. Ég tel að það hafi verið heillaspor fyrir Sjálfstæðisflokkinn að stofna samtökin. Þau hafa frá upphafi verið virk í starfi innan flokksins. Það eru mánaðarlega haldnir  fundir á miðvikudögum í hádeginu, þar sem eldri sjálfstæðismenn hafa tækifæri til að hitta gamla félaga og vini, konur og karla, hlusta á fróðleg erindi gesta, skiptast á skoðunum og spjalla saman yfir léttum málsverði.“

Framtíð flokksins og heilræði

Nú er margt breytt frá því að Salome sat á þingi og ný áherslumál hafa litið dagsins ljós sem ekki voru jafn áberandi fyrir aldamót. Hvað myndir þú vilja sjá flokkinn leggja áherslu á í dag?

„Í þeim öru breytingum sem eiga sér stað í heiminum verðum við að aðlaga samfélagið að þeim. Fjölskyldan er hornsteinninn sem allt byggist á og ræður úrslitum um lífshamingju manna. Algengt er að báðir foreldrar vinni langan vinnudag utan heimilis sem kallar á sveigjanlegan vinnutíma og hlutastörf í vaxandi mæli, jafnframt samfelldan skóladag og aukna möguleika fyrir dagvistun barna. Þjóðin er að eldast sem kallar á aukna þörf fyrir þjónustu við eldri borgara, þjónustuíbúðir, hjúkrunarheimili og heimaþjónustu svo eitthvað sér nefnt. En það sem skiptir meginmáli nú er að við gerum okkur grein fyrir því sem er að gerast í loftslags- og umhverfismálum. Stjórnvöld verða að vera á varðbergi og taka þátt í nauðsynlegum aðgerðum. Við verðum að passa upp á náttúruna, landið okkar og umhverfið,“ útskýrir Salome, en viðurkennir þó að hún keyri sjálf bensínbíl.

Þig langar ekkert að skipta yfir á rafmagnsbíl?

„Ég veit ekki hvort það taki því fyrir mig,“ segir Salome og hlær.

En hvaða heilræði myndi 92 ára fyrrverandi þingmaður og forseti Alþingis gefa ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í pólitík?

„Að standa með sjálfum sér skiptir öllu máli. Hlusta, ræða málin og skiptast á skoðunum.“

 

Viðtalið birtist í Auði, blaðs félags sjálfstæðiskvenna í nóvember 2019 og var tekið af Höllu Sigrúnu Mathiesen formanni SUS.