Þegar kröfur og greiðslur fara ekki saman

Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður bæjarráðs Garðabæjar:

Á annað þúsund manns bíða eftir því að komast í hvíldarinnlögn og tæplega fimm hundruð eru á biðlista eftir hjúkrunarrými. Til viðbótar bíða 89 einstaklingar eftir dvalarrými. Þetta kemur fram í svörum heilbrigðisráðherra á Alþingi. Hjúkrunarheimilum hefur lítið fjölgað síðasta áratuginn, þörfin eykst og biðtími lengist. Á annað hundrað manns bíða á Landspítalanum og nálægum sjúkrahúsum eftir því að komast á hjúkrunarheimili og það eykur álagið á spítalana með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra eiga daggjöld, sem ákveðin eru af ráðherra, að standa undir rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila. Því miður virðist það eingöngu eiga við um í orði en ekki á borði og dæmin um það eru nokkur. Hjúkrunarheimilið Ísafold var opnað árið 2013 og var rekið af Garðabæ. Daggjöldin voru langt frá því að duga fyrir daglegum rekstri og þurfti Garðabær að greiða um 100 milljónir á ári til rekstrarins til að halda uppi sjálfsögðum gæðum á heimilinu. Hér skal tekið fram að gæðaviðmið eru sett fram í kröfulýsingu heilbrigðis- og velferðarráðuneytisins um starf hjúkrunarheimila. Sami aðili setur því fram gæðakröfurnar, sem rekstraraðila er gefið að starfa eftir, og neitar svo að greiða kostnað þannig að hægt sé að uppfylla þessar kröfur þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi bent á að það vanti talsvert upp á að daggjöld geti staðið undir rekstri hjúkrunarheimila.

Vitlaust gefið

Hér er vitlaust gefið og það er ekki forsvaranlegt að bæjarfélög þurfi að nýta skattfé íbúa til að greiða háar fjárhæðir í verkefni sem eru á forræði ríkisins og eiga að vera fjármögnuð af ríkinu lögum samkvæmt. Árið 2016 stefndi Garðabær ríkinu vegna reksturs á hjúkrunarheimilinu Ísafold og þess sem upp á vantaði inn í reksturinn frá ríkinu árin 2013-2015. Vonbrigðin eru þau að Landsréttur hefur nú staðfest sýknudóm yfir ríkinu vegna 320 milljóna kröfu Garðabæjar á ríkið.

Garðabær rekur ekki lengur Ísafold enda er ekki hægt að réttlæta fyrir bæjarbúum að svo háar upphæðir af skattfé íbúa séu notaðar til að niðurgreiða verkefni á vegum ríkisins og eiga að vera fjármögnuð af því. Árið 2017 var samið við Hrafnistu um að taka við rekstrinum og það gengur ágætlega enda var meðgjöf frá Garðabæ fyrstu árin. Akureyri er í svipuðum sporum og Garðabær, situr uppi með mikinn kostnað í meðgjöf í þjónustu við aldraða. Glæsilegt húsnæði fyrir hjúkrunarheimili var byggt upp á Seltjarnarnesi en bæjaryfirvöld þar neitaðu að taka við rekstri hjúkrunarheimilis enda duga daggjöld ríkisins ekki fyrir rekstri hjúkrunarheimilis þar frekar en annars staðar þar sem gæðakröfum þessa sama ríkis er fylgt. Það sama gerði Kópavogur. Sveitarfélögin geta ekki látið bjóða sér slík vinnubrögð.

Þessi saga er ekki ný. Svona hefur hún verið um langt skeið og segir okkur að þegar verkefni fara frá ríki yfir á sveitarfélög er vitlaust gefið. Svona var sagan líka árið 1996 þegar rekstur grunnskóla fór yfir til sveitarfélaga og aftur með málefni fatlaðs fólks. Þá hefur um langt skeið verið deilt um ástand vega þegar kemur að yfirfærslu frá ríki til sveitarfélaga og í raun galið að ekki sé til skýrari rammi um þau skil. Eins og staðan er í dag er erfitt fyrir sveitarstjórnarfólk að vera jákvætt gagnvart fleiri yfirfærslum þótt þær séu í eðli sínu skynsamlegar m.t.t. nærþjónustu. En fjárhagslega fyrir bæjarsjóði og annan rekstur þorir enginn í þann darraðardans.

Samskipti og samvinna sveitarfélaga við ríkið er engin fyrirmyndarsaga og það er fjarri því að eitthvert jafnræði gildi í þeim samskiptum. Slíkt er aldrei vænlegt til árangurs.

Á Íslandi eru tvö opinber stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög. Samskipti og samvinna þeirra ættu að vera á jafningjagrundvelli. Þegar það kemur að skiptingu verkefna eða yfirfærslu þarf allt að vera uppi á borðum, hvort sem það er ástand vega, húsnæðis eða annarra innviða eða ef stefnt er að því að breyta kröfum og reglugerðum sem hafa áhrif á rekstur og annan kostnað. Í samningum ætti jafnframt endurmat fram í tímann að vera þannig að í samningum sé möguleiki á leiðréttingum ef breytingar verða sem kalla á fjárútlát. Þannig losnum við við ósætti og óþarfa togstreitu milli ríkis og sveitarfélaga.

Gleymum heldur ekki að á endanum bitna slík átök á þeim sem síst skyldi, þeim sem þurfa að nýta sér þjónustuna og hafa ekki val um annað.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. desember 2019.