Ekki bara geymsla

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Fang­ar eiga rétt á al­mennri heil­brigðisþjón­ustu og þar með talið aðstoð sál­fræðinga og sér­fræðinga í fíkn­sjúk­dóm­um. Dóms­málaráðuneytið hyggst hrinda í fram­kvæmd og fylgja eft­ir aðgerðaáætl­un sem í meg­in­drátt­um snýst um að efla heil­brigðisþjón­ustu við fanga og tryggja mark­vissa og sam­hæfða fram­kvæmd þjón­ust­unn­ar.

Sér­stök áhersla verður lögð á að efla geðheil­brigðisþjón­ustu og skil­greina verklag í innri starf­semi fang­els­anna vegna breyt­inga á heil­brigðisþjón­ust­unni. Ráðist verður í aðgerðir til að sporna gegn dreif­ingu og neyslu vímu­efna á Litla-Hrauni. Þess­um mark­miðum fylg­ir aukið fjár­magn. Starfs­fólk fang­els­anna hef­ur unnið þrek­virki við þröng­an kost, en meira þarf til að koma.

Ítrekað hef­ur verið sýnt fram á að stór hluti þeirra sem lenda á glap­stigu hef­ur orðið fyr­ir áföll­um sem nauðsyn­legt er að vinna úr. Sam­kvæmt ný­legri rann­sókn glíma tæp­lega 60% pró­sent fanga í ís­lensk­um fang­els­um við vímu­efna­vanda. Um sjö­tíu pró­sent eiga sögu um slík­an vanda. Hátt hlut­fall fanga er með ADHD og ann­ars kon­ar vanþroska­tengd vanda­mál, sem þarfn­ast meðferðar fag­manna.

Fang­els­is­mála­stjóri hef­ur sagt í fjöl­miðlum að það sé aug­ljóst öll­um þeim sem þekkja til í fang­els­un­um að flest­ir, ef ekki all­ir, sem sitja í fang­elsi eigi við ein­hvers kon­ar fíkni­vanda að stríða. Það verður að hjálpa því fólki sem glím­ir við slík­an vanda. Lang­flest­ir glæp­ir eru framd­ir und­ir áhrif­um fíkni­efna. Ef unnt væri að grípa inn í og koma fólki á beinu braut­ina væri hægt að fækka af­brot­um og þar af leiðandi end­ur­kom­um í fang­els­in.

End­ur­koma fanga, sem í flest­um til­fell­um eru ung­ir karl­menn, er ekki bara vanda­mál þess sem dæmd­ur er til refsi­vist­ar held­ur sam­fé­lags­ins alls. Um helm­ing­ur þeirra fanga sem afplána í fang­els­um lands­ins hef­ur áður mátt sæta fang­elsis­vist. Beinn kostnaður við hvern fanga er tæp­lega tíu millj­ón­ir króna á ári. Það er allt fyr­ir utan þá óham­ingju sem fang­elsis­vist­in kall­ar yfir fang­ana sjálfa og fjöl­skyld­ur þeirra.

Frels­is­svipt­ing er afar íþyngj­andi aðgerð og henni fylg­ir mik­il ábyrgð. Stjórn­völd­um ber að standa und­ir þeirri ábyrgð og gera allt sem í þeirra valdi stend­ur til þess að tryggja að raun­veru­leg betr­un eigi sér stað í fang­els­um lands­ins. Með aðstoð fag­manna fáum við betra fólk út úr fang­els­un­um en gekk þangað inn.

Fag­menn­irn­ir geta von­andi fært fólki verk­færi til að tak­ast á við lífið utan veggja fang­els­anna. Það er til mik­ils að vinna. Fang­elsi er ekki geymslu­staður fyr­ir fólk sem við höf­um ekki burði til að sinna. Fang­ar þurfa tæki­færi til að kom­ast aft­ur á beinu braut­ina; með eitt­hvað í fartesk­inu út í lífið. Skapa þarf skil­yrði til þess að þeir geti orðið virk­ir sam­fé­lagsþegn­ar og von­andi ham­ingju­sam­ari ein­stak­ling­ar að lok­inni afplán­un í fang­els­um lands­ins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. desember 2019.