Hvernig mælum við gæði?

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Það er ýmislegt sem við stjórnmálamenn erum gagnrýnd fyrir, stundum með réttu og stundum með röngu. Nú heyrist því kastað fram að þjóðkjörnir fulltrúar fari ekki að vilja þjóðarinnar og vísað til þess að Ísland verji 8,3% af vergri landsframleiðslu (VLF) til heilbrigðismála samkvæmt því sem kemur fram í nýrri skýrslu OECD en meðaltal OECD-ríkja er 8,8 prósent og öll hin Norðurlöndin eru yfir 9%.

Samanburðir OECD eru oft ágætir til síns brúks en geta aldrei verið einhvers konar alfa omega á hvort við séum að standa okkur í viðkomandi málaflokki. Að halda slíku fram eru rugludallarök.

Í fyrsta lagi segir þessi samanburður auðvitað ekkert um gæði heldur eingöngu hversu háu hlutfalli af VLF er varið í heilbrigðismál. Landsframleiðsla sveiflast í takt við efnahagsástandið hverju sinni. Þörfin á fjármunum í heilbrigðiskerfið er í engu samræmi við efnahagssveiflur nema ef vera skyldi í öfuga átt og því ætti heilbrigðiskerfinu að vera hlíft við niðurskurði þegar illa árar. Fjárþörf kerfisins hlýtur frekar að vera í takt við aldurssamsetningu þjóðarinnar þar sem eldra fólk notar heilbrigðisþjónustu oftar en yngra. Þá er almennt heilbrigði og lýðheilsa betri mæling á þörf innan heilbrigðiskerfisins en landsframleiðsla.

OECD færði okkur PISA-niðurstöður um daginn en þar kemur ýmislegt áhugavert fram. Skólakerfið stendur sig vel á ákveðnum sviðum en því miður miðar okkur ekki upp á við í lesskilningi. Það er áhyggjuefni og ber að taka alvarlega. En það er líka mæling á því hvernig íslensk börn standa í samanburði við börn í öðrum löndum. Hlutfall af VLF sem varið er til menntamála segir ekkert um raunverulega stöðu.

Hvernig stendur íslenskt heilbrigðiskerfi sig í samanburði við önnur lönd, hversu fljótt og vel læknar kerfið þá sjúku? Hvernig er lýðheilsa þjóðarinnar í samanburði við aðrar þjóðir? Hvernig líður sjúklingum í okkar heilbrigðiskerfi í samanburði við nágrannalöndin? Hversu ánægð erum við með þjónustu kerfisins?

Ég held að þessar spurningar og svör við þeim þurfi að liggja til grundvallar við alla ákvarðanatöku um hvar megi efla það mikilvæga kerfi sem heilbrigðiskerfið er.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. desember 2019.