Keisarinn er nakinn

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Borgin eyðir tugum milljóna í auglýsingar og umsýslukostnað til að láta íbúa kjósa um sjálfsögð viðhaldsverkefni sem borgin á að sinna. Nú er komið í ljós að verkefnið, sem að mestu snýst um að setja upp grenndargáma og ruslafötur, fór 60 milljónum fram úr áætlun.

Hugmyndin um Hverfið mitt er prýðileg. Íbúar vita betur en stjórnmálamenn í hvaða framkvæmdir þarf að ráðast í hverfinu þeirra. Það er gott að virkja borgarbúa til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Það gerir hverfin betri og borgina um leið. Það er líka gott að færa fjárveitingarvald til íbúa því meirihlutinn í Reykjavík hefur hingað til ekki gefið tilefni til að láta treysta sér fyrir peningum skattgreiðenda.

En verkefnið virðist bara dýrt skálkaskjól. Er um raunverulegt íbúalýðræði að ræða þegar borgarbúar eru látnir kjósa á milli þess að setja upp gönguljós eða ungbarnarólu? Hvort vill fólk grenndargáma eða körfuboltavöll? Á að laga vatnsskemmdir á skólalóð eða setja nýja rennibraut í Laugardalslaug? Það getur varla talist íbúalýðræði að fá að kjósa um að setja sjálfsagt viðhald borgarinnar eða umferðaröryggi á oddinn.

Ég fékk nýlega svar við fyrirspurn minni um sundurliðaðan heildarkostnað við Hverfið mitt á árinu 2018. Það var eins og marga grunaði. Tugir milljóna fara í auglýsingar og annan umsýslukostnað, til að leyfa íbúum að kjósa að mestu um sjálfsögð viðhaldsverkefni. Svo hljómaði kunnuglegt stef, verkefnið fór 60 milljónum fram úr áætlun.

Væri ekki nær að þessir peningar, sem koma úr vasa skattgreiðenda, færu í að laga það sem er bilað og í að setja upp ruslafötur þar sem þarf? Spörum okkur að minnsta kosti rándýrt sýndarlýðræði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. desember 2019.