Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Í september 2018 reyndi ég að vekja athygli þingmanna á því að Ríkisútvarpið ohf. fari ekki að lögum sem um fyrirtækið gilda. Í tæpa níu mánuði hafi ríkisfyrirtækið virt að vettugi skýrt lagaákvæði um stofnun dótturfélags um samkeppnisrekstur. Enginn siðapostuli, innan þings eða utan, tók til máls og krafðist þess að einhver axlaði ábyrgð. Engu er líkara en í hugum sumra stjórnmálamanna skipti það meira máli hver brýtur lög en að allir fari að lögum.
Enn í dag fer Ríkisútvarpið ekki að lögum en vonir standa til að það breytist innan skamms í kjölfar áfellisdóms Ríkisendurskoðanda í skýrslu til Alþingis sem kynnt var nýlega: „Ríkisendurskoðandi bendir á að ekki sé valkvætt að fara að lögum. Það er skylda RÚV ohf. að fara eftir þeim.“
Í 4. grein laga um Ríkisútvarpið segir meðal annars:
„Ríkisútvarpið skal stofna og reka dótturfélög, sem að fullu leyti eru í eigu þess, fyrir aðra starfsemi en þá sem kveðið er á um í 3. gr.“
Lögin voru samþykkt í mars 2013 að frumkvæði Katrínar Jakobsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra. Í bráðabirgðaákvæði var Ríkisútvarpinu veitt tímabundin heimild til „að afla tekna með viðskiptaboðum, sölu og leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess og annarri þjónustu sem fellur undir 4. gr. þar til dótturfélög hafa verið stofnuð og eru tekin til starfa“. Í upphafi var Ríkisútvarpinu gert skylt að stofna dótturfélag sem tæki til starfa í ársbyrjun 2014. Í bandormi í tengslum við gerð fjárlaga var gildistökunni frestað til ársbyrjunar 2016. Í desember 2015 fékk Ríkisútvarpið enn frest og nú til 1. janúar 2018. Með öðrum orðum: Ríkisútvarpið fékk tvö ár til að undirbúa stofnun dótturfélags um samkeppnisrekstur, til viðbótar þeim tveimur árum sem liðin voru frá því að fyrst var stefnt að aðskilnaði samkeppnisrekstrar með formlegum hætti.
En ekkert var gert heldur haldið áfram eins að það sé valkvætt fyrir Ríkisútvarpið að fara að ákvæðum laga. Í því skjóli sótti ríkisfyrirtækið harðar fram á samkeppnismarkaði.
Horft í gegnum fingur sér
Ég hef haldið því fram, meðal annars hér á síðum Morgunblaðsins, að ekkert ríkisfyrirtæki eða -stofnun njóti meiri velvilja meðal meirihluta þingmanna en Ríkisútvarpið. Kannski er það þess vegna sem horft er í gegnum fingur sér þegar lög eru brotin. Ef vil vill er það velviljinn sem kemur í veg fyrir að efnt sé til opins fundar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þar sem krafist er svara um hvers vegna skýr lagaleg fyrirmæli eru að engu virt. Allt er gert svo ekki komi brestir í varð- og þagnarmúrinn um ríkisrekna fjölmiðlun.
Talsmenn Ríkisútvarpsins höfðu ekki miklar áhyggjur af ástandinu þegar vakin var athygli á að lögum væri ekki framfylgt. Því var haldið fram að vandinn væri „ýmis lagaleg álitaefni sem finna þarf lausn á áður en næstu skref verða tekin“. Sá sem les 4. gr. laga um Ríkisútvarpið og kemst að því að uppi sé lagalegt álitaefni hlýtur að vera í stórkostlegum vandræðum með allar lagagreinar sem gilda um ríkismiðilinn.
„Þetta átti að vera tilbúið í vor frá Ríkisendurskoðun en hefur dregist. Við erum mjög fegin að vera loksins búin að fá stimpilinn frá Ríkisendurskoðun,“ sagði formaður stjórnar Ríkisútvarpsins í viðtali við Fréttablaðið síðastliðinn mánudag en að nú yrðu brettar upp ermar, vinnuhópur settur á laggirnar og stofnun dótturfélags undirbúin.
Það er sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, þegar stjórnarformaður ríkisfjölmiðils gefur í skyn að Ríkisendurskoðandi beri einhverja ábyrgð á að ekki hafi verið farið að lögum. En auðvitað vona ég að yfirlýsing formannsins í Fréttablaðinu sé byggð á misskilningi og klaufalegu orðalagi. En hitt er annað að í liðlega sex ár hefur vilji löggjafans verið skýr en tvisvar verið ákveðið að gefa Ríkisútvarpinu frekari frest til að undirbúa vinnuna. Orð stjórnarformannsins benda til þess að engin slík vinna hafi farið fram, ekkert verið undirbúið og það hafi verið einbeittur vilji að hundsa skýr fyrirmæli laga. Ríkisendurskoðandi gefur í skýrslu sinni til kynna að stjórn og stjórnendur Ríkisútvarpsins hafi haft skjól í mennta- og menningarráðuneytinu: „RÚV sér mikla vankanta á því fyrirkomulagi og sérfræðingar ráðuneytisins telja óvissuþætti því tengdu of mikla til að hægt sé að leggja það til við ráðherra að þrýst verði á um stofnun dótturfélaga.“
Sé þetta rétt mat Ríkisendurskoðanda hlýtur löggjafarvaldið – Alþingi – að huga að stöðu sinni gagnvart framkvæmdavaldinu.
Skiptir þetta einhverju?
Ríkisútvarpið er ekkert venjulegt ríkisfyrirtæki heldur opinbert hlutafélag með tryggar tekjur af sköttum sem vel flestir landsmenn verða að greiða. Á komandi ári verða framlögin yfir 4.800 milljónir króna. Þessu til viðbótar eru tekjur af samkeppnisrekstri, ekki síst auglýsingar. Samkvæmt ársreikningi námu þessar tekjur um 2.351 milljón á liðnu ári.
Í skjóli lagalegra forréttinda hefur Ríkisútvarpið gert strandhögg á markaði í samkeppni við frjálsa fjölmiðla og sjálfstæða framleiðendur, sem standa höllum fæti gagnvart ofurafli. Kannski er merkilegast hverjir þegja þunnu hljóði og láta sér í léttu rúmi liggja þótt skýr fyrirmæli í lögum séu sett út í horn ef það hentar öflugu ríkisfyrirtæki.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. nóvember 2019.