Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Aukið gagnsæi í rekstri stærri fyrirtækja og samstarf við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eru meðal aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í gær. Markmið þeirra er að auka traust á íslensku atvinnulífi eftir umfjöllun um viðskiptahætti Samherja í síðustu viku.
Rétt er halda því til haga að íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum ráðist í miklar úrbætur á sviði peningaþvættis, mútubrota og skattundanskota. Hins vegar hefur þetta mál gefið tilefni til frekari aðgerða líkt og ríkisstjórnin hefur nú samþykkt. Þær aðgerðir eiga það sameiginlegt að verið er að bregðast við með almennum hætti og rétt að gera nokkra grein fyrir þeim aðgerðum sem helst snerta mitt ráðuneyti.
Aukið gagnsæi í rekstri stærri fyrirtækja
Undirbúningur er hafinn að lagafrumvarpi um ríkari upplýsingaskyldu hlutfallslega stórra fyrirtækja sem geta haft kerfislæg áhrif í íslensku efnahagslífi. Er þetta gert til að auka gagnsæi um starfsemi þessara fyrirtækja og tryggja betur heilindi og orðspor íslensk atvinnulífs. Jafnframt er þetta í samræmi við nýlega ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS.
Nýjar kröfur um aukið gagnsæi munu ná til fyrirtækja í öllum atvinnurekstri. Ég hef óskað eftir því að við þessa vinnu verði tekið til sérstakrar skoðunar hvort gera þurfi enn ríkari kröfur um gagnsæi til stærri sjávarútvegsfyrirtækja sem ekki eru skráð á hlutabréfamarkaði.
Samstarf við FAO
Ég mun hafa frumkvæði að því að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ.ám. í þróunarlöndum. Á grundvelli úttektarinnar vinni FAO tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti. Ráðuneyti mitt hefur þegar átt í samskiptum við forsvarsfólk FAO um slíkt samstarf og hefur þessu frumkvæði verið tekið með jákvæðum hætti.
FAO er stærsta alþjóðlega stofnunin sem sinnir reglubundnu starfi hvað varðar aðgerðir til að bæta stjórn fiskveiða og þróun sjávarútvegs á heimsvísu. Á vettvangi stofnunarinnar hafa verið gerðir alþjóðasamningar m.a. til að takast á við ólöglegar veiðar og bæta stjórn og upplýsingagjöf með fiskveiðum. Verkefnið fellur því vel að hlutverki stofnunarinnar.
Óvissu eytt um tengda aðila
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu frá því í janúar á þessu ári kemur fram að ekki verði séð að Fiskistofa kanni með nægjanlega tryggum hætti hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða. Því þurfi að endurskoða 13. og 14. gr. laganna svo reglur um hámarksaflahlutdeild verði skýrari.
Í mars 2019 skipaði ég verkefnisstjórn undir forystu Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, til að koma með tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Nefndinni var m.a. falið að bregðast við fyrrgreindri ábendingu Ríkisendurskoðunar. Í kjölfar umræðu síðustu daga hef ég nú óskað eftir því við nefndina að hún skili tillögum þar að lútandi fyrir 1. janúar nk. Þá er að vænta tillagna frá nefndinni á næstu vikum um bætt eftirlit með fiskveiðum og með vigtun sjávarafla.
Orðspor Íslands
Ég bind vonir við að þau viðbrögð ríkisstjórnarinnar sem birtast í þessum almennu aðgerðum, til viðbótar við þær miklu úrbætur sem gerðar hafa verið á undanförum árum, muni leiða til þess að orðspor Íslands verði ekki fyrir miklu tjóni. Þar eru miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt samfélag, m.a. í ljósi þess að rúmlega 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt á erlendan markað. Það er því kappsmál fyrir alla hlutaðeigandi að sameinast um það verkefni.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2019.