Ekki hvernig þú eyðir peningunum …
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Sú hugmynd að fyrirtæki beri samfélagslega ábyrgð hefur rutt sér til rúms á undanförnum árum og áratugum. Hún hefur þó oft verið umdeild, kannski að hluta til vegna þess að ekki hefur verið alveg skýrt hvað er átt við.

Mörgum hefur þótt það stríða gegn réttmætu hlutverki fyrirtækja að velta fyrir sér öðru en því að hagnast sem mest. Í þeim flokki fer líklega Milton Friedman fremstur.

Nálgun Friedmans

Friedman sagði meðal annars: „[Því] er haldið fram að fyrirtæki eigi að styrkja góðgerðarmál og alveg sérstaklega háskóla, en slíkar gjafir eru óeðlileg ráðstöfun á fjármunum þeirra í samfélagi hins frjálsa framtaks.“

Og á öðrum stað: „Fyrirtæki bera þá einu samfélagslegu ábyrgð að hámarka hagnað sinn, svo lengi sem þau fara eftir reglunum, þ.e.a.s. keppa í frjálsri og opinni samkeppni og hvorki blekkja né svíkja.“

Þar sem gjafir og styrkir væru ekki til þess fallin með beinum hætti að auka hagnað fælu slík útgjöld í raun í sér svik við hluthafa, að hans mati.

Nokkru síðar áréttaði Friedman samt að siðlaust framferði væri ekki forsvaranlegt af hálfu fyrirtækja jafnvel þótt það væri löglegt. Stjórnendum bæri nefnilega skylda til þess að hámarka hagnað „eftir því sem unnt er innan ramma grunnreglna samfélagsins, bæði þeirra sem hafa verið lögfestar og einnig þeirra sem helgast af siðferðilegri venju“.

Arðbær fjárfesting í ímynd?

Þessum rökum Friedmans hefur verið mótmælt með því að benda á að stuðningur við samfélagsverkefni geti einmitt aukið hagnað fyrirtækja með því að bæta ímynd þeirra, bæði meðal neytenda og starfsmanna. Góð ímynd sé líkleg til að auka sölu sem og að laða að hæfasta starfsfólkið og hámarka afköst þess. Þannig sé samfélagsábyrgð sannarlega arðbær og skynsamleg frá sjónarhóli hluthafa, rétt eins og hvert annað markaðs- og ímyndarstarf.

„… heldur hvernig þú aflar þeirra“

En gallinn við umræðuna sem er lýst hér að framan er að hún byggir á gamaldags skilgreiningu á samfélagsábyrgð fyrirtækja. Styrkir til góðgerðarmála og tilviljanakenndra samfélagsverkefna hafa færst hratt út á jaðarinn í skilgreiningum á samfélagsábyrgð og þykja í raun algjört aukaatriði í dag.

Mads Øvlisen, sem hefur m.a. verið forstjóri Novo Nordisk og stjórnarformaður Lego, orðaði þetta best þegar hann sagði: „Samfélagsábyrgð fyrirtækja snýst ekki um hvernig þú eyðir peningunum heldur hvernig þú aflar þeirra.“

Með þessari einföldu og snjöllu setningu er kastljósinu snúið í hundrað og áttatíu gráður, þráðbeint að því sem skiptir mestu máli.

Í eigin þágu

Mögulega erum við með þessari skynsamlegu endurskilgreiningu á samfélagsábyrgð á síðari árum komin með hugtak sem jafnvel Milton Friedman hefði getað samþykkt og stutt.

Spurningin í dag snýst því varla lengur um hvort fyrirtæki beri samfélagslega ábyrgð eða ekki heldur fremur hvar mörk hennar liggi. Til dæmis að hvaða marki fyrirtæki beri ábyrgð á því óhreina mjöli sem birgjar þeirra – og þeirra birgjar og svo framvegis – kunna að hafa í pokahorninu.

Þróunin virðist öll vera í eina átt, til meiri útvíkkunar á þessum mörkum. Hvaðan kemur hráefnið? Við hvaða aðstæður er það framleitt? Hvað verður um vöruna við lok líftíma hennar? – Neytendur spyrja þessara spurninga í vaxandi mæli. Það er í besta falli áhætta fyrir fyrirtæki að hafa ekki svör við þeim.

Það er líka í besta falli áhætta að taka ákvarðanir sem standast ekki siðferðisviðmið þótt þær standist lög. Fá ef nokkur fyrirtæki hafa í reynd efni á því til lengdar að byggja rekstur sinn á ákvörðunum sem ekki er hægt að svara fyrir opinberlega. Þess vegna er vaxandi umræða um samfélagsábyrgð réttmæt.

Ekki vegna þess að fyrirtækin þurfi að vera einhverjir dýrlingar – þau eiga kannski ekkert að vera það og líklega myndi hvort sem er enginn trúa þeim ef þau þættust vera það – heldur vegna þess að það er í þeirra eigin þágu að hafa sitt á tæru.

Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. nóvember 2019.