Fordæmalaus lækkun ríkisskulda

Matsfyrirtækið Moody’s hækkaði í síðustu viku lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um eitt þrep í A2 úr A3. Horfur eru stöðugar. Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins – sjá hér.

Umtalsverð og viðvarandi skuldalækkun ríkissjóðs og góð staða í samanburði við önnur ríki með sama lánshæfismat sem og aukinn viðnámsþróttur efnahagslífs eru helstu ástæður hækkunar Moody´s á hækkuninni. Þá segir að stöðugar horfur endurspegli væntingar um að áfram verði byggt á þeim árangri sem náðst hefur.

Matsfyrirtækið bendir á að skuldir íslenska ríkisins hafi lækkað mest meðal allra ríkja sem fyrirtækið metur frá fjármálahruninu.

Þá segir í frétt ráðuneytisins: „Bætt umgjörð ríkisfjármála, m.a. með innleiðingu laga um opinber fjármál, hjálpar til við að varðveita þann árangur. Ávinningur af einkavæðingu fyrirtækja í opinberri eigu gæti styrkt efnahagsreikning ríkisins enn frekar að mati Moody´s.“

Fram kemur að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs gæti hækkað frekar ef að ytri staða þjóðarbús batni markvert og fjárhagslegt svigrúm til að mæta áföllum aukist og sala á ríkisfyrirtækjum nefnd í þessu samhengi og verulegri lækkun ríkisábyrgða.

„Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hefur haft jákvæðar horfur hjá Moody´s síðan í júlí 2018 en fyrirtækið hækkaði síðast lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í september 2016. Einkunn ríkissjóðs er nú sambærileg hjá matsfyrirtækjunum þremur sem meta lánshæfi ríkissjóðs, þ.e. Moody‘s, Fitch og Standard & Poor‘s en tvö síðarnefndu fyrirtækin styðjast við annað bókstafskerfi en Moody‘s,“ segir ennfremur í frétt ráðuneytisins.

Uppfært 18. nóvember 2019:

Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur staðfest A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands með stöðugum horfum. S&P reiknar með lítilsháttar samdrætti á yfirstandandi ári vegna samdráttar í komum ferðamanna til landsins, en að hagvöxtur taki við sér á ný frá og með 2020. Viðnámsþróttur hagkerfisins bæði á sviði ríkisfjármála sem og í ytri stöðu þjóðarbúsins er traustur. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins 18. nóvember 2019.