Framtíðarsýn fyrir Valhallarlóðina

Sjálfstæðisflokkurinn vinnur nú að því að nýta betur lóðina að Háaleitisbraut 1, þar sem Valhöll stendur. Flokkurinn hefur lagt fram tillögu að deiliskipulagi til Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, sem er í samræmi við markmið aðalskipulags frá 2001 um þéttingu byggðar.

Tillagan felur í sér að reistar verði tvær nýjar byggingar á lóðinni, sem til þessa hefur að mestum hluta verið nýtt undir bílastæði og lítt til prýði. Nú eru aðeins um 12% lóðarinnar lögð undir húsnæði og byggingarhlutfall langt undir viðmiðunarmörkum. Því er ráðgert að annars vegar rísi 5.000 fm sex hæða fjölbýlishús við Bolholt og hins vegar 2.500 fm fimm hæða skrifstofubygging við horn Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar. Efstu hæðir bygginganna verða inndregnar.

Með þessu næst mun betri nýting á lóðinni án þess þó að ganga í nokkru á græn svæði innan hennar. Mikil eftirspurn hefur verið eftir húsnæði svo miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Þá er til skoðunar að skrifstofa Sjálfstæðisflokksins flytjist yfir á eina hæð í nýju skrifstofubyggingunni.

Horft niður Bolholt frá Skipholti.

Valhöll mun standa óbreytt og áfram fá að njóta sín á lóðinni, en um helmingur hennar  hefur nýst sem skrifstofa Sjálfstæðisflokksins og fundarrými í hartnær fimm áratugi. Það húsnæði miðaðist við þarfir þess tíma, en allt stjórnmálastarf hefur gerbreyst síðan. Með því að fara í nýtt skrifstofuhúsnæði á lóðinni kæmist flokkurinn í hagkvæmara húsnæði.

Í íbúðarhúsnæðinu við Bolholt er miðað við að 40-55 minni og millistórar íbúðir verði í húsinu. Í skrifstofubyggingunni við Kringlumýrarbraut eru ráðgerðar skrifstofur á neðri hæðum og íbúðir á efstu hæð. Bílastæði verði í kjöllurum beggja húsa. Áhrif á nágrennið verða hverfandi og til batnaðar. Segja má að rekið verði smiðshögg á götumynd Bolholts, þegar hús verða beggja megin götunnar. Gert er ráð fyrir breyttri aðkomu að lóðinni, sem mun færa umferðarálag sem fjærst íbúðarhúsnæði í grenndinni, en tvær aðkomur að lóðinnni verða í stað þriggja áður.

Í nýrri tillögu að deiliskipulagi fyrir Háaleitisbraut 1 er gert ráð fyrir að fjölga byggingum um tvær

Hér ræðir sem fyrr segir aðeins um tillögu til deiliskipulags, svo lokahönnun og útlit húsa liggur ekki fyrir. Hins vegar hafa verið gerð drög að útliti í samræmi við tillöguna um legu, hæð, ákvæði um inndregna efstu hæð og svo framvegis til gerðar þrívíddarmynda til þess að meta útlistbreytingar, skuggavarp og ámóta.

Tillöguna í heild sinni og myndir má skoða hér í fundargerð Umhverfis- og skipulagssviðs, undir lið 11.