Kirkja í smíðum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráherra:

Ég flutti opn­un­ar­ávarp á Kirkjuþingi um liðna helgi. Mesta at­hygli hef­ur vakið að ég beindi sjón­um mín­um að bar­áttu hinseg­in fólks og hvernig kirkj­an náði þar ekki að fylgja sam­tím­an­um. Frá alda­mót­um hafði meiri­hluti lands­manna snú­ist á sveif með rétt­inda­bar­áttu sam­kyn­hneigðra en þjóðkirkj­an stóð þar á móti.

Íslenska þjóðkirkj­an hef­ur lengi vel sinnt mik­il­vægu hlut­verki í ís­lensku sam­fé­lagi; hún hef­ur verið griðastaður þeirra sem hafa átt erfitt um vik, en ekki síður staður þar sem fólk kem­ur sam­an til að fagna gleðistund­un­um í lífi sínu.

Þegar séra Magnús Guðmunds­son afi minn pré­dikaði við vígslu Grund­ar­fjarðar­kirkju árið 1966 sagði hann orðrétt: „Vér höf­um lagt oss fram um að vanda gerð kirkj­unn­ar allt frá því grund­völl­ur henn­ar var lagður hér á þess­um stað. Vér höf­um líka kapp­kostað að gera búnað henn­ar all­an sem best­an. Og þó er enn margt eft­ir. En ég segi í dag eins og einn af bisk­up­um kirkju vorr­ar sagði þegar minnst var á að nýreista kirkju skorti enn ým­is­legt. Hann sagði: „Kirkj­ur eru alltaf í smíðum.“

Þessi síðustu orð geta vel átt við um þjóðkirkj­una í heild sinni, þó svo að kraf­an um jafn­ræði milli ólíkra trú­fé­laga og lífs­skoðun­ar­fé­laga verði sí­fellt meira áber­andi. Sjálf­stæð kirkja óháð rík­is­vald­inu sam­rým­ist bet­ur trúfrelsi og skoðana­frelsi en sérstaðan sem þjóðkirkj­an hef­ur notið í ís­lenskri stjórn­skip­an. Fleiri og fleiri aðhyll­ast þá skoðun að það sé ekki hlut­verk rík­is­ins að fjár­magna trú­fé­lög.

Í mín­um huga er ekki spurn­ing um það að kirkj­an get­ur vel sinnt öll­um verk­efn­um sín­um og þar á meðal sálu­hjálp og marg­vís­legri fé­lags­legri þjón­ustu óháð rík­inu. Ég er einnig þeirr­ar skoðunar að marg­ir muni fylgja kirkj­unni að mál­um þótt full­kom­inn aðskilnaður verði á end­an­um á milli henn­ar og rík­is­valds­ins.

Ný­legt sam­komu­lag milli rík­is­valds­ins og þjóðkirkj­unn­ar fel­ur í sér að hún verður ekki leng­ur eins og hver önn­ur rík­is­stofn­un. Hún mun frem­ur líkj­ast frjálsu trú­fé­lagi sem ber ábyrgð á eig­in rekstri og fjár­hag. Þess­ar breyt­ing­ar eru til mik­illa bóta og óhjá­kvæmi­legt að stefna áfram á sömu braut í átt að full­um aðskilnaði. Þangað til og þrátt fyr­ir sam­komu­lagið mun þjóðkirkj­an áfram njóta stuðnings og vernd­ar ís­lenska rík­is­ins á grund­velli ákvæðis stjórn­ar­skrár­inn­ar.

Kirkj­an er eins og afi sagði alltaf í smíðum. Hún verður að finna boðskap sín­um rétt­an far­veg og vera í góðum tengsl­um við þjóðina. Ef vel tekst til mun henni vegna vel. Ef kirkj­an miðlar boðskap sem hef­ur vægi og þýðingu í aðstæðum hvers­dags­ins og gagn­vart álita­mál­um framtíðar­inn­ar; ef fólkið ber traust til kirkj­unn­ar og leit­ar til henn­ar í betri tíð og verri – þá verður kirkj­an áfram þjóðkirkja hver svo sem laga- og stjórn­skip­un­ar­leg staða henn­ar verður í framtíðinni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2019.