Í algjörum forgangi að koma okkur af listanum

„Það á að vera í algjörum forgangi að koma okkur af listanum. Við erum í mjög góðri stöðu og höfum mjög góðan málstað. Hvort það gerist í febrúar eða maí er ekki algjörlega í okkar höndum. Við erum með allar aðgerðir í undirbúningi eða klárar til að fara fram á að það gerist í upphafi næsta árs,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun þar sem hann og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sátu fyrir svörum varðandi þá stöðu að Ísland sé komið á svokallaðan gráan lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Bjarni sagði að unnið væri að því að bregðast við öllum athugasemdum FATF og að markmiðið væri að komast af listanum í febrúar 2019. Hann sagði að vissulega vissu menn að á Íslandi væri stunduð ólögleg starfsemi þar sem á endanum væri reynt að koma ávinningnum aftur í umferð. En að það hafi þó engar ábendingar eða dæmi komið fram sem sneru að bönkunum og það skipti verulega miklu máli.

Bjarni áréttaði að FATF væri samstarfsvettvangur þar sem Ísland væri þátttakandi eins og önnur þau ríki sem þar eiga með sér samstarf. Við værum því ekki þolendur niðurstöðu FATF. Sagði Bjarni að tækifæri íslenskra stjórnvalda með þátttöku á þessum vettvangi lægu m.a. í því að koma í veg fyrir tjón sem við litum á að gætu orðið í okkar samfélagi. Það væri með þeirri nálgun sem við Íslendingar ættum að taka þátt í FATF. Þá sagði hann að við ættum að leggja meiri áherslu á að vera virkir þátttakendur í fundum FATF. Það væri eitt af því sem kæmi til greina sem viðbrögð Íslendinga við þessari stöðu og að huga að því hvar þessum málaflokki væri best komið í stjórnkerfinu til frambúðar.

Áslaug Arna sagði að við værum klárlega mun betur í stakk búin til að bregðast við núna með stýrihópi dómsmálaráðuneytisins sem vinnur að þessum málum. Búið væri að efla kerfið varðandi þessi mál mjög. Umræddur stýrihópur hafi m.a. það hlutverk að fylgjast með öllum breytingum sem verði. Hópurinn hafi fundað 17 sinnum síðan í mars 2018 og hafi unnið þrekvirki í að bregðast við athugasemdum FATF á síðustu mánuðum. Hópurinn muni halda áfram að starfa.

Ráðherrarnir boðuðu að skýrsla væri í vinnslu sem lögð yrði fyrir Alþingi á næstunni. Í henni yrði gerð grein fyrir aðdraganda þess að við lentum á gráa listanum og hvernið stjórnvöld sjái fyrir sér að komast af honum aftur.

Dómsmálaráðherra sagði að fimmta úttekt FATF færi fram árið 2023 og að stýrihópur ráðuneytisins hafi þegar hafið undirbúning og umræðu nálgun við þá úttekt.