Stjórnmálaályktun Reykjavíkurþings Varðar 2019

Reykjavíkurþing Varðar samþykkti eftirfarandi stjórnmálaályktun síðastliðinn laugardag, 19. október. Ályktunin byggir á málefnastarfi sem fram fór í fjórum hópum en hver hópur tók eitt málefni fyrir. Eftirfarandi málefni voru rædd á þinginu: samgöngu- og skipulagsmál, skólamál, velferðarmál og Reykjavík framtíðar.

Reykjavíkurþing Varðar 2019

Stjórnmálaályktun

Reykjavík framtíðar

 

Inngangur

Reykjavík á að vera borg þar sem gott er að búa. Borgaryfirvöld eiga að þjóna íbúum sínum með góðri, vandaðri, gagnsærri og heiðarlegri stjórnsýslu. Borgaryfirvöld eiga ekki að koma fram við íbúa sína af tillitsleysi og hroka. Borgarstjóri, borgarfulltrúar og embættismenn eiga að gefa borgarbúum kost á reglubundnum viðtalstímum. Aðalhlutverk borgaryfirvalda er að eiga gott samstarf við íbúa um það sem lítur að m.a. skipulagi, umhverfismálum, húsnæðismálum og þjónustu. Borgaryfirvöld eiga að kappkosta að halda sköttum og þjónustugjöldum í lágmarki. Reykjavíkurþing Varðar leggur áherslu á skýra framtíðarsýn í þróun borgarmála á næstu árum.

Samgöngu– og skipulagsmál

Tryggja þarf góðar og greiðar samgöngur allra samgöngumáta. Það verður aðeins gert með gatnakerfi sem stenst kröfur um öryggi og skilvirkni. Framtíðarskipulag borgarinnar þarf að grundvalla á bestu fáanlegum upplýsingum og aðferðafræði. Brýnt er að umferðalíkan greini vandamál núverandi gatnakerfis í Reykjavík og stuðli að greiðari samgöngum til framtíðar. Reykjavík á að vera í fararbroddi í að nýta tækninýjungar í samgöngum. Skoða þarf gaumgæfilega breytingu á opnunartíma stórra vinnustaða og staðsetningu þeirra með það í huga að draga úr umferðarálagi.

Borgarlína og veggjöld ein og sér munu ekki leysa samgönguvanda Reykjavíkur. Brýnt er að álagning veggjalda feli ekki í sér aukna skattlagningu á íbúa, heldur lækki aðrir skattar og gjöld á móti. Fundurinn leggst gegn öllum veggjöldum sem leggjast ójafnt á íbúa eftir búsetu.

Umferðarvandi borgarinnar verður aðeins leystur með fjölþættum lausnum þar sem íbúum gefst kostur að á að velja þann samgöngumáta sem hentar best hverju sinni. Stefna ber að því að Sundabraut verði lögð sem fyrst.

Innviðargjald og skortur á úthlutun lóða hefur stórhækkað íbúðaverð og gert fólki erfiðara að eignast húsnæði. Tryggja þarf nægt framboð lóða undir íbúðarhúsnæði í hverfum borgarinnar þar sem ungt fólk getur eignast sitt eigið húsnæði. Þétting byggðar á ákveðnum svæðum í borginni, eins og hún hefur verið framkvæmd undanfarin ár, er á villigötum og hefur víða haft skaðleg áhrif á umhverfi sitt.

Velferðarmál

Virða ber þau sjálfsögðu mannréttindi að hver einstaklingur fái að taka þátt í samfélaginu á sínum forsendum. Greina þarf vanda einstaklinga eins fljótt og auðið er og tryggja fjölbreyttar lausnir. Reykjavíkurborg skal styðja samtök sem sýnt hafa árangur í meðferð við áfengis- og vímuefnavanda sem og annarra sjúkdóma.

Ein helsta áskorun framtíðarinnar er fólgin í hækkandi aldri þjóðarinnar, en jafnframt er það eitt stærsta tækifærið okkar að virkja fólk á efri árum. Reykjavík á að vera í forystu um að auka sjálfstæði eldri borgara með því að tryggja valfrelsi og réttlæti í búsetu, lífsviðurværi og tekjuöflun. Meðal annars verði tekjumörk vegna afsláttar af fasteignaskatti til elli- og örorkulífeyrisþega hækkuð auk þess að fjölga öðrum búsetuúrræðum. Gera þarf eldri borgurum kleift, að búa sem lengst í heimahúsi með aukinni heimaþjónustu og öflugum félagslegum stuðningi.

Menntamál

Grunn- og leikskólar Reykjavíkurborgar eiga að vera sjálfstæðir og sveigjanlegir í störfum sínum, óháð rekstrarformi. Skólar borgarinnar þurfa að hafa aukna sjálfstjórn um fyrirkomulag kennslu og tilhögun námsefnis. Samhliða því þarf að auka valfrelsi foreldra í skólamálum. Fjölþjóðleg samsetning samfélagsins kallar á aukna samvinnu foreldra, skóla og atvinnulífs með það að markmiði, að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda og gera þá hæfari til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Skoða þarf af alvöru kosti þess að auka sveigjanleika skóladagsins og skólaársins með hagsmuni fjölskyldunnar í huga. Nauðsynlegt er að efla samstarf skóla og íþróttafélaga enn frekar, m.a. með það að markmiði að ná fram betri nýtingu á mannvirkjum borgarinnar.

Reykjavík framtíðar

Reykjavík á að vera höfuðborg í fremstu röð á alþjóðavísu. Reykjavík er í samkeppni við nágrannasveitarfélög og erlendar borgir um komandi kynslóðir. Reykjavík skal vera borg valmöguleika með minni yfirbyggingu og styttri boðleiðum. Snjöll borg sem stuðlar að athafnafrelsi með skilvirkri nýtingu skattfjár. Borg sem greiðir fyrir einstaklingsframtaki og nýsköpun, varðveitir frelsi einstaklinga til ákvörðunartöku um eigið líf. Uppstokkun í stjórnsýslu borgarinnar er mikilvæg. Stjórnsýslukostnaður borgarinnar er þegar óheyrilegur og hefur aukist verulega á síðustu árum, án þess að því hafi fylgt skilvirkni, bætt þjónusta, aukið gagnsæi né betri vinnubrögð. Nefndum, ráðum og starfshópum þarf að fækka. Tryggja þarf aukið lýðræði borgaranna varðandi framkvæmdir í hinum ýmsu hverfum borgarinnar. Hverfisráð þarf að efla og íbúum verði gert kleift að krefjast íbúakosninga, að uppfylltum ákveðnum reglum, um verulega umdeild mál til að leiða þau til lykta.

Reykjavíkurborg er viðskiptaborg, hafnarborg, menntaborg og borg öflugrar menningar og íþrótta. Reykjavíkurborg á að vera umhverfisvæn og borg nýsköpunar og sjálfbærni á sem flestum sviðum.  Samspil þessara þátta er grundvöllur stöðugra framfara. Reykjavíkurborg framtíðarinnar á að byggja á sjálfbærum hverfum, þar sem hvert hverfi samanstendur af sterkum innviðum með öflugum og tíðum almenningssamgöngum innan hverfis, sem tengist síðan stærra samgöngukerfi borgarinnar. Hvert hverfi á að geta boðið íbúum alla helstu þjónustu og þar verður að tryggja, að unnt verði að byggja upp fyrirtæki framtíðarinnar. Vernda þarf græn svæði borgarinnar eins og kostur er. Hægja þarf á þéttingu byggðar í rótgrónum hverfum en auka hana í hverfum sem þola betur aukna fjölgun íbúa. Nýta þarf innviði sem eru til staðar í borginni til að stuðla að nýsköpun með því að rækta samspil athafnalífs, menntunar og stjórnsýslu. Tryggja verður friðun náttúruperlunnar Elliðaárdals. Koma verður í veg fyrir alvarlega eyðileggingu á hluta Elliðaárdalsins með byggingu 4500 fermetra stórhýsis í dalnum.