Tilgangurinn og meðalið

Inga María Hlíðar Thorsteinsson varaborgarfulltrúi.

Loksins hafa vinstriflokkarnir í Reykjavík, sem hafa verið við völd í borginni nær óslitið í 20 ár, gert hverjum manni ljóst hver meginstefna þeirra í umferðarmálum er: Að skapa grundvöll fyrir dýrari almenningssamgöngur en nú eru í boði.

Á tíunda áratug síðustu aldar var fjárhagsleg aðkoma ríkisins á vegakerfinu í höfuðborginni í sögulegu hámarki. Var það undir forystu sjálfstæðismanna. Síðan vinstrimenn tóku við völdum hafa þeir hins vegar ítrekað hafnað fjármagni frá ríkinu fyrir framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu sem myndu ýmist greiða fyrir umferð eða stuðla að auknu umferðaröryggi. Má þar nefna ýmis mislæg gatnamót og byggingu göngubrúa yfir helstu stofnbrautir. En hvers vegna að neita framkvæmdum?

Kærkomið framkvæmdastopp

Eftir hrun samdi Reykjavíkurborg, með vinstriflokka í meirihluta, við ríkið um framkvæmdastopp á höfuðborgarsvæðinu. Sá kreppusamningur fól í sér að falla frá framkvæmdum sem taldar voru brýnar á þeim tíma og í staðinn var lagður milljarður á ári í Strætó í þeim tilgangi að efla almenningssamgöngur og auka hlutdeild þeirra í umferðinni. Nú, nærri áratug síðar, hefur komið á daginn að hlutdeild almenningssamgangna hefur ekki aukist, heldur staðið í stað og er um 4% af allri umferð. Verkefnið misheppnaðist algjörlega þar sem fjöldi bíla á vegum borgarinnar hefur aldrei verið meiri og tafir í umferðinni hafa aukist með tilheyrandi óánægju borgarbúa.

Um miðjan septembermánuð var tillaga flutt í borgarstjórn Reykjavíkur um að slíta samningnum og þar með stöðva þetta framkvæmdastopp þar sem markmiðið með því hefði bersýnilega mistekist. Að sjálfsögðu var borgarstjóri ekki sammála því að markmiðið hefði mistekist, því í hans huga fól samningurinn í sér kærkomið framkvæmdastopp sem olli töfum og almennri biturð út í fjölda bíla á götunum. Hans verkefni er nefnilega að selja hugmyndina um að „borgarlína – hágæða almenningssamgöngur“ sé nauðsynleg framkvæmd til að hægt sé að greiða fyrir umferð í borginni. Án hennar mun ástandið einungis geta versnað. Tilgangurinn helgar meðalið.

Markviss biturð út í einkabílinn

Í COWI-skýrslunni um borgarlínu kemur skýrt fram að hlutdeild almenningssamgangna þurfi að vera 12% svo að forsendur séu fyrir hraðvagnaútgáfu borgarlínu: „Þetta þýðir að styðja þarf við borgarlínu með þéttingu byggðar (samgöngumiðað skipulag) í kringum hágæða stoppistöðvar þar sem forgangur er fyrir almenningssamgöngur á kostnað einkabílaumferðar. Jafnframt þarf bílastæðastefna að vera ströng með færri bílastæðum og aukinni gjaldheimtu, aðgengi gangandi og hjólandi þarf að vera mjög gott og strætókerfið þarf að styðja við borgarlínuna til að vel takist til og markmið um fjölgun farþega í almenningssamgöngum náist.“

Með öðrum orðum er einungis grundvöllur fyrir borgarlínu á kostnað bílferða og því hefur ekkert verið gert til að auðvelda fólki að komast á milli staða með bíl í áratug. Þétta þarf byggð vegna þess að annars verður fjöldi íbúa í nálægð við borgarlínu ekki nægur og þá mun 12% markmiðið ekki nást. Því þarf einnig að byggja fjölmennar blokkaríbúðir meðfram þessum samgönguási og takmarka bílastæði við þær. Þannig er gert ráð fyrir því að kaupendur framtíðarinnar vilji flestir búa í blokk ofan í umferðargötu með tilheyrandi áreiti og hávaðamengun og vilji nýta sér almenningssamgöngur, annars standast forsendur fyrir borgarlínu ekki.

Uppsöfnuð þörf

Nú eru menn loksins að vakna og þverpólitísk sátt ríkir um uppsafnaða þörf fyrir samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Allir eru sammála um að efla þurfi almenningssamgöngur og byggja þurfi upp hjóla- og göngustíga samhliða því að ráðast í endurbætur á stofnbrautum. Efla þurfi alla þessa þætti til þess að fólk geti farið á milli staða með fjölbreyttum hætti enda sýna skýrslur að breyttar ferðavenjur séu nauðsynlegar samhliða löngu tímabærum umferðarframkvæmdum til að draga úr tafatíma allra í umferðinni. Lengi vel var bílnum gert hátt undir höfði. Það tók hægt og rólega breytingum en það þýðir ekki að nú sé ráð að fara út í öfgar í hina áttina. Víða er þörf á forgangsreinum fyrir strætó. Þó ekki í þeim mæli sem nýjustu hugmyndir eru um vegna þess að því skal haldið til haga að umbætur á gatnakerfinu nýtast almenningsvögnum einnig, hvort sem um er að ræða hágæða hraðvagna eða Strætó bs. Breyttar ferðavenjur munu eiga sér stað yfir langt skeið, en ekki skjótt og ekki í eins ríkum mæli og áætlanir gera ráð fyrir.

Fólk þarf að hafa val um hvaða ferðamáta það kýs. Sú stefna að gera einum samgöngumáta hátt undir höfði á kostnað annarra og þröngva þannig fólki til þess að breyta um ferðavenjur hefur ekki einungis mistekist, heldur ber vott um forræðishyggju og ólýðræðisleg vinnubrögð. Flokkur sem kennir sig við frelsi og val ætti undir engum kringumstæðum að steypa alla borgarbúa í sama mót, heldur að stuðla að fjölbreyttum samgöngumátum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10.október. 2019