Tækniframfarir eða pólitískur geðþótti

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi skrifar:

Um aldamótin 1900 voru Reykvíkingar einungis 6.000 talsins. Þá höfðu þeir rætt í nokkur ár um rafvæðingu bæjarins til lýsinga og vélaafls með virkjun Elliðaánna. Fyrsta áratug 20. aldar var mikið og skynsamlega skrafað um rafvæðingu og gasvæðingu í Reykjavík. Þessi litli og afskekkti bær á norðurhjara veraldar stóð á þröskuldi nýrrar tækni, gerði sér vel grein fyrir því, og skáldið og fyrsti innlendi ráðherrann orti:

Dagur er risinn, öld af öld er borin,aldasól ný er send að skapa vorin.

Árdegið kallar, áfram liggja sporin.

Enn er ei vorri framtíð stakkur skorinn.

Verkfælni og sjálfumgleði

En nú er annar Dagur og öldin önnur. Meirihluti núverandi borgarstjórnar hefur ekkert gaman af svona ævintýrum og er í nöp við allar framkvæmdir, ekki síst eftir að þau reyndu að gera við braggann sem nú er búið að loka. Þau telja líklega flest að barátta forfeðra þeirra fyrir mannsæmandi lífi hafi verið háskaleg aðför að lífríki jarðar. Þau eru yfirleitt á því að flest það sem gert var í Reykjavík þar til þau sjálf komust til vits og ára hafi verið mistök á mistök ofan og tala með hroka um að „leiðrétta“ fyrra skipulag. Helst eru þau þá á því að best sé að gera ekki neitt og hafa fylgt því vel eftir.

Sagnfræðileg goðsögn um bílaborg

Flestir í meirihluta borgarstjórnar hallast að þeirri röngu söguspeki að illa innrættir sjálfstæðismenn hafi dreift byggð í Reykjavík út um holt og hæðir svo hún yrði bandarísk bílaborg og þeir sjálfir gætu grætt á bílainnflutningi. En kjarni málsins er sá, að fjölskyldubílar urðu ekki almenningseign hér á landi fyrr en á sjöunda og áttunda áratugnum, og að borgin var einmitt byggð á holtum og hæðum því það þótti of dýrt að byggja í víðfeðmum mýraflákunum þar á milli. Það var kannski eins gott því það að opna heilu mýraflákana fyrir íbúðabyggð hefur í för með sér feikilega kolefnislosun. Ef t.d. Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður niður og Vatnsmýrin rist upp í þessum tilgangi yrðu það vistfræðilegar hamfarir, líklega á við nokkurra ára umferðarmengun í borginni.

Samgöngubylting

Og enn banka upp á nýir tímar með nýja tækni. Við stöndum nú á þröskuldi tæknibyltingar í samgöngumálum. Sú bylting mun hvorki viðhalda „einkabílisma“ í núverandi mynd, né innleiða þær almenningssamgöngur sem meirihluti borgarstjórnar gælir nú við í sinni síbreytilegu Borgarlínu. Samgöngubyltingin mun m.a. felast í orkuskiptum ökutækja, sjálfakandi ökutækjum, fjölgun fisfarartækja, byltingu í bestun og samræmingu umferðar, margfalt betri nýtingu umferðarmannvirkja og geymslusvæða ökutækja, draga úr umferðarmengun og umfangi umferðarmannvirkja, auka umferðaröryggi, gera samgöngur ódýrari, bjóða upp á einstaklingsmiðaðar og almenningsmiðaðar ferðir og sambland af hvoru tveggja og byggja á umhverfisvernd og frjálsu vali einstaklinga.

Tillaga í borgarstjórn

Næsta þriðjudag mun ég leggja fram tillögu okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn, sem lýtur að þessum tækninýjungum í samgöngum. Tillagan tekur mið af nýjum umferðarlögum sem taka munu gildi um næstu áramót en þau m.a. heimila akstur og prófanir sjálfakandi ökutækja. Forsenda fyrir greiðri þróun á því sviði eru m.a. heildarúttekt og samræming á umferðarmerkjum og umferðarmerkingum, á skiltum og yfirborði vega, stíga, gangbrauta og gangstétta.

Borgarstjórn úti á þekju

Það er athyglisvert að þessi bylting sem nú er í burðarliðnum hefur algjörlega farið fyrir ofan garð og neðan hjá vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Ég man ekki eftir að hafa heyrt neinn úr þeim hópi minnast nokkurn tíma á þessar breytingar né hugsanlegar afleiðingar þeirra. Hvað þá að þau hafi stofnað starfshópa til að huga að þeim málum. Ein af mörgum brotalömum hugmyndar um Borgarlínu felst í því að hún sér ekki fyrir ýmsar meginforsendur sem breytast með þessari byltingu. Í samgöngusamningnum er hvergi minnst einu orði á sjálfakandi ökutæki. Borgarstjórnarmeirihlutinn er því eins og óupplýstir afdalabændur miðað við þær 6.000 sálir í Reykjavík sem ræddu af áhuga og skilningi um nýja orkugjafa fyrir 120 árum. En hvers vegna?

Tækniframfarir eða pólitískur geðþótti

Jú, tækniframfarir hins frjálsa markaðar raska pólitískri sannfæringu vinstri meirihlutans. Þau eru yfirleitt þeirrar skoðunar að samfélagið skiptist í gott fólk og slæmt. Í stjórnmálum skiptir mestu að við kjósum góða fólkið á þing og í borgarstjórnir svo það geti látið gott af sér leiða og skammtað okkur lífsgæði. Það passar ekki alveg inn í þessa mynd að frjáls markaður frjálsra einstaklinga leysi betur og fyrr vandamál samtímans, heldur en geðþóttaákvarðanir misviturra stjórnmálamanna sem líta stórt á sig og eru margbúnir að lýsa því yfir hversu góðir og ábyrgir þeir séu. En við sjáum til á þriðjudag. Lengi skal manninn reyna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 12. október síðastliðinn.