Pítsa í öll mál

Vilhjálmur Árnason alþingismaður:

Skattar og aðrar álögur hefta súrefnisflæði til framfærslu einstaklinga, og þyngja róður og rekstur fyrirtækja. Engin þjóð skattleggur sig inn í velmegun þjóðar, það eru einstaklingarnir – og fyrirtækin – sem skapa verðmætin og standa undir öflugu velferðarkerfi hér á landi. Í árferði líkt og er nú, þar sem óverulegur samdráttur gerir vart við sig í hagkerfinu er brýnt að minna á þessi gildi. Að stökkva ekki til með ríkisstyrki eða önnur framlög þótt einstaka hópar eða atvinnugreinar glími við rekstrarvanda. Almennar aðgerðir eru aftur á móti af hinu góða; að lækka álögur og einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja með því að fella á brott óþarfa regluverk.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð eftirtektarverðum árangri í lækkun skatta og gjalda frá því að hann komst í ríkisstjórn 2013. Áramótin 2014-2015 voru á einu bretti almennir innflutningstollar og vörugjöld afnumin, almenna þrep virðisaukaskattsins var lækkað 2015 úr 25,5% niður í 24%. Þar munar um minna enda nær skatturinn til 80% innkaupa heimila í landinu. Útvarpsgjald lækkaði 2015 og aftur 2016. Tekjuskattur á millitekjur hefur lækkað um þrjú prósent í þremur skrefum, og nú lækkar hann enn. Í fjárlögum næsta árs lækkar tekjuskattur einstaklinga, og þegar lækkunin kemur að fullu til framkvæmda 2021 nemur skattalækkunin 10% af öllum greiddum tekjuskatti einstaklinga, eða um 21 milljarð króna á ári. Þá hefur tryggingagjaldið lækkað mjög frá því að Sjálfstæðisflokkurinn kom í ríkisstjórn 2013. Það stóð þá í 7,69% en verður á næsta ári komið niður í 6,35%.

Á þingmálaskrá fjármálaráðherra má sjá fyrirætlanir um lækkun erfðafjárskatts og afnám stimpilgjalds á skipum. Öll forgangsmál þingflokks Sjálfstæðisflokksins á þessu þingi eru skattalækkunarmál. Við ætlum að afnema stimpilgjöld af íbúðarhúsnæði, gera framkvæmdir iðnaðarmanna á verkstað að fullu skattfrjálsar frá virðisaukaskatti með hækkun endurgreiðslna vsk., endurgreiða virðisaukaskatt vegna fráveituframkvæmda sveitarfélaga og skattalagabreytingar vegna kynslóðaskipta á fyrirtækjum og bújörðum.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa gert lítið úr hverri skattalækkunaraðgerð Sjálfstæðisflokksins og reiknað út hversu margar pítsur hægt sé að kaupa fyrir hverja aðgerð. Því er ekki nema von að maður spyrji sig hvort við þurfum að fara að hafa áhyggjur af heilsufari þjóðarinnar, því það stefnir í að við getum haft pítsu í öll mál í dag.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. september 2019.