Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Það hljómar ekki illa að leggja á græna skatta enda allt vænt sem er vel grænt. Umhverfisskattar eru ekki nýtt fyrirbæri en með aukinni vitund um náttúruvernd hefur verið lögð áhersla á að slíkir skattar skuli innheimtir. Talsmenn grænna skatta telja þá nauðsynlega til að hvetja til umhverfisvænni ákvarðana fyrirtækja og einstaklinga. Þannig á að leggja þung lóð á vogarskálarnar í loftslagsmálum.
Hér verður ekki borið á móti því að umhverfisskattar – grænir skattar – geti verið skynsamlegir en hættan er sú að til verði skjól fyrir aukna skattheimtu hins opinbera. Þá virðast ríki og sveitarfélög hafa ríka eðlishvöt til að klæða skatta í búning grænna skatta, þó þeir séu það ekki í raun. Pólitískt er auðveldara að réttlæta slíka skattheimtu en aðra, enda á markmiðið að stuðla að jákvæðum áhrifum á umhverfið.
Í einfaldleika sínum má segja að markmið grænna skatta/gjalda sé tvíþætt (þó auðvitað spili þar fleira inn í):
- að standa undir kostnaði að hluta eða öllu leyti sem samfélagið verður fyrir vegna ákveðinna athafna fyrirtækja/almennings,
- að hvetja til breyttrar hegðunar, en ekki til að auka tekjur ríkis eða sveitarfélaga.
Áhrif á samkeppnishæfni
Augljóst er að grænir skattar geta haft veruleg áhrif á samkeppnishæfni þjóðar, atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja. Séu t.d. lagðir sértækir umhverfisskattar á íslensk fyrirtæki, sem samkeppnisaðilar í öðrum löndum þurfa ekki að standa undir, er augljóst að staða þeirra versnar. Afkoman verður verri, möguleikar til að bjóða vöru/þjónustu á lægra verði eða greiða starfsmönnum hærri laun verða lakari en áður.
Vísbendingar eru um að grænir skattar hafi neikvæð áhrif á tekjulága hópa. Skattarnir leggjast hlutfallslega þyngra á tekjulága en hátekjufólk. Ekki má heldur gleyma því að möguleikar fólks til að breyta hegðun sinni eru oft í réttu hlutfalli við tekjur. Hátekjumaðurinn á auðveldara með að taka strax þátt í orkuskiptum með því að kaupa sér rafmagnsbíl (og njóta raunar töluverðra ívilnana) en unga fjölskyldan sem hefur ekki efni á öðru en halda áfram að nota gamla bensín-fjölskyldubílinn.
Sé tilgangurinn að baki grænum sköttum að stuðla að breyttri hegðun fyrirtækja og einstaklinga til að ná fram ákveðnum markmiðum í umhverfismálum, liggur það í hlutarins eðli að skattarnir skila æ minni tekjum eftir því sem árin líða. Annars hafa þeir ekki skilað tilætluðum árangri. Umhverfisskattar sem ætlað er að standa undir ákveðnum kostnaði samfélagsins vegna efnahagslegra athafna eru a.m.k. að hluta öðru marki brenndir.
Lækka á aðra skatta
Það er hins vegar rétt sem Samtök atvinnulífsins hafa bent á: Það á að nýta tekjur vegna grænna skatta til þess að lækka aðra almenna skatta. SA telur að til greina komi að lækka álagningu á „umhverfisvæna starfsemi sérstaklega en þannig væri ýtt enn frekar undir umhverfisvitund almennings og fyrirtækja, eins og þegar er gert með lækkun virðisaukaskatts á rafmagns-, vetnis- og tvinntengilbifreiðar“. Hugmynd af þessu tagi er þess virði að hugleiða en framkvæmdin er vandasöm. Skattalegir hvatar í formi ívilnana geta komið illilega í bakið á umhverfinu. Dæmi um þetta er þegar íslensk stjórnvöld, líkt og víða í Evrópu, töldu rétt að ýta undir dísilvæðingu bílaflotans.
Jafnvel löngu áður en umhverfisskattar – grænir skattar – komust „í tísku“ komu fram áhyggjur af því að verið væri að mynda skjól fyrir þyngri álögur hins opinbera á fyrirtæki og einstaklinga. Árið 1993 lagði Árni M. Mathiesen, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og síðar fjármálaráðherra, fram þingsályktun þar sem umhverfisráðherra og fjármálaráðherra var ætlað að athuga „hvort og þá á hvaða hátt umhverfisskattar geti komið í stað núverandi skatta, svo sem tekjuskatta, eignarskatta, útsvars og aðstöðugjalds“. Að baki tillögunni, sem náði ekki fram að ganga var sú hugsun að umhverfisskattar kæmu í stað annarra skatta en yrðu ekki viðbótarskattheimta. Í greinargerð var bent á að umhverfisskattar væru hagræn stjórntæki sem beitt er til að ná ákveðnum markmiðum í umhverfismálum. Með sköttunum væri tekið „tillit til þess kostnaðar sem við höfum af því að skaða umhverfið og ella væri ekki tekinn með í reikninginn“ við efnahagslega og viðskiptalega ákvörðun. „Þetta er m.a. leið til þess að beita hinum frjálsa markaði til þess að aðlaga neyslu, viðskipti og framleiðslu að markmiðum umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar,“ sagði í greinargerðinni en þar var lögð áhersla á að „umhverfisskattar verði ekki notaðir til þess að afla hinu opinbera aukinna tekna heldur til þess að breyta og beita skattkerfinu á jákvæðan hátt“.
Byrjað af hófsemd en …
Svipað viðhorf birtist í leiðara Morgunblaðsins í nóvember 1996. Blaðið tók undir að skynsamlegt væri að innleiða umhverfisskatta en hafði uppi aðvörunarorð:
„Áherslu ber þó að leggja á að umhverfisskattar komi í stað annarra skatta og verði ekki til þess að heildarskattbyrðin hækki. Þeir mega heldur ekki verða hrein tekjulind opinberra aðila, í stað þess að standa undir kostnaði við umhverfisvernd.“
Eitt að lokum: Oft byrjar skattheimta af töluverðri hófsemd. En það eru meiri líkur á að hægt og bítandi aukist þungi nýrra skatta fremur en þeir séu felldir niður. Þetta virðist nær órjúfanlegt lögmál. Dæmi um þetta er söluskatturinn, sem var innleiddur árið 1945 og var innheimtur undir ýmsum nöfnum fram til 1960 þegar almennur söluskattur var lagður á. Þá var skatthlutfallið 3% en hækkaði síðan nokkuð ört á næstu áratugum og var orðið 22% þegar virðisaukaskattskerfið var tekið upp árið 1990. (Raunar var á tímabili sérstakur söluskattsauki lagður á).
Grænir skattar geta verið æskilegir og skynsamlegir út frá efnahagslegum þáttum ekki síður en umhverfislegum. En reynslan kennir skattgreiðendum – fyrirtækjum og einstaklingum – að græn skattheimta verði lítið annað en fallegt heiti á þyngri álögum til framtíðar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2019.