Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Í samræmi við samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar um eflingu hafrannsókna er í fjárlagafrumvarpi næsta árs mælt fyrir um 750 milljón króna framlag til Hafrannsóknastofnunar til rannsókna og fjárfestinga. Þar er annars vegar um að ræða 600 milljóna króna framlag í byggingu nýs hafrannsóknaskips sem mun stórefla grunnrannsóknir. Alls hefur þá verið varið 900 milljónum króna til þessa verkefnis sem sérstök byggingarnefnd hefur umsjón með. Í byrjun september skrifuðu Hafrannsóknastofnun og Ríkiskaup undir samning um útboðsvinnu fyrir skipið. Áformað er að smíði skipsins verði boðin út á fyrri hluta næsta árs en nýtt skip mun marka tímamót í hafrannsóknum Íslendinga.
Hins vegar er um að ræða 150 milljóna króna framlag til Hafrannsóknastofnunar vegna samdráttar í framlögum úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til stofnunarinnar. Það framlag kemur til viðbótar 250 milljóna króna framlagi á þessu ári. Rétt er að gera nokkra grein fyrir þessari aukningu. Þannig er að undanfarin ár hefur nokkuð verið fjallað um fjárframlög til Hafrannsóknastofnunar en sú umræða var til þess fallin að varpa skýru ljósi á ýmsa veikleika varðandi það hvernig stofnunin hefur verið fjármögnuð. Munar þar mest um að stofnunin hefur verið mjög háð framlögum úr verkefnasjóði sjávarútvegsins og hafa þær tekjur lækkað mikið á undanförnum árum. Með fjárlagafrumvarpi næsta árs er verið að breyta þessu fyrirkomulagi og tryggja stofnuninni fastar tekjur þannig að hún verði ekki lengur háð sveiflukenndum tekjustofnum með tilheyrandi óvissu.
Þrátt fyrir framangreint þarf stofnunin, líkt og allar aðrar stofnanir ríkisins, að takast á við þá hagræðingarkröfu sem sett er í fjárlögum hvers árs enda er sú sjálfsagða krafa gerð á allar stofnanir að þurfa stöðugt að huga að forgangsröðun verkefna og gæta aðhalds í rekstri. Á sama tíma hefur ráðuneytið staðið fyrir úttekt á fjárhag stofnunarinnar með það að markmiði að nýta betur fjármuni til kjarnaverkefna stofnunarinnar.
Loks má nefna varðandi fjárframlög til Hafrannsóknastofnunar að á þessu ári fær stofnunin einnig fjármuni til húsnæðismála, en á næstu mánuðum mun stofnunin koma sér fyrir í nýju húsnæði í Hafnarfirði þar sem öll starfsemin verður þá undir sama þaki.
Allt eru þetta markverð skref í þá veru að stuðla að öflugum hafrannsóknum en þær eru ein af undirstöðum verðmætasköpunar í sjávarútvegi. Þannig tryggjum við um leið sterka stöðu Íslands sem fiskveiðiþjóðar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september. 2019