Atvinnulífið og þróunarsamvinna

Í vor var þingsályktunartillaga að nýrri þróunarsamvinnustefnu fyrir árin 2019-2023 samþykkt á Alþingi. Stefnan byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem hafa þegar markað straumhvörf í þróunarsamvinnu nágrannaríkja okkar.

Stefnt er að auknu samstarfi atvinnulífs, félagasamtaka og stjórnvald sem er forsenda þess að raunverulegur árangur náist við að útrýma fátækt og auka velsæld í þróunarríkjum. Þessi ríki sækjast eftir erlendum fjárfestingum til að byggja upp atvinnugreinar sem geta drifið sjálfbæran vöxt, skapað störf og aukið velsæld.

Aukið samstarf við félagasamtök og atvinnulífið
Á Norðurlöndunum vinna stjórnvöld í auknum mæli með fyrirtækjum og félagasamtökum að verkefnum sem miða að því að skapa atvinnu og auka hagvöxt í þróunarlöndum. Á sama tíma hefur áhugi norrænna fyrirtækja aukist á þróunarlöndum sem áhugaverðum mörkuðum þar sem tækifærum mun fjölga ört á komandi árum.

Fjárfestingar í þróunarríkjum geta skilað bæði fjárfestum og samfélögunum töluverðum ávinningi þótt þeim fylgi oft nokkur áhætta. Með samvinnu stjórnvalda, félagasamtaka og atvinnulífs má lágmarka áhættuna, bæði með opinberum stuðningi við einstök verkefni og með því að nýta þekkingu á staðarháttum og tengslanet stjórnvalda við alþjóðastofnanir og stjórnvöld á staðnum.

Meginmarkmið með framlagi Íslands til þróunarsamvinnu er uppbygging félagslegra innviða, störf í þágu friðar, verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Aðkoma íslensks atvinnulífs, sem býr yfir frumkvæði og margs konar sérþekkingu sem getur nýst við að leysa flókin verkefni, er mikilvægur þáttur í þessari uppbyggingu.

Utanríkisráðuneytið hefur útfært tvær meginleiðir sem eiga að auka samstarfstækifæri á sviði þróunarsamvinnu í þágu heimsmarkmiða. Fyrri leiðin beinist sérstaklega að verkefnum fyrirtækja og seinni leiðin að verkefnum á vegum félagasamtaka með þátttöku fyrirtækja. Með þessum leiðum er vonast eftir aukinni þátttöku íslensks atvinnulífs og víðtækara samstarfi fleiri aðila í þróunarsamvinnu með það að markmiði að draga úr fátækt og styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækum ríkjum.

Samstarfssjóður við atvinnulífið
Fyrir tæpu ári hleypti ég af stokkunum nýjum samstarfssjóði atvinnulífs og íslenskra stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til að virkja þekkingu, fjármagn og frumkvæði íslenskra fyrirtækja á þessum vettvangi. Sjóðurinn er ætlaður samstarfsverkefnum fyrirtækja í þróunarríkjum og lögð er sérstök áhersla á að verkefni styðji við heimsmarkmið númer átta um mannsæmandi atvinnu og sjálfbæran hagvöxt.

Fyrstu íslensku fyrirtækin sem vinna með stjórnvöldum gegnum sjóðinn eru Marel og Thoregs sem hlutu styrk fyrr á þessu ári. Bæði verkefnin byggja á íslensku hugviti og verkþekkingu. Þau koma til með að stuðla að aukinni þekkingu á tækni og vinnslu í matvælaiðnaði með það að markmiði að hafa bein áhrif á verðmæti afurða, uppbyggingu atvinnumöguleika og sjálfbæran vöxt í viðkomandi landi.

Utanríkisráðuneytið auglýsti á dögunum að nýju eftir umsóknum um styrki úr samstarfssjóðnum, en allt að 200 m.kr. verða til ráðstöfunar úr honum á þessu ári. Hámarksfjárhæð til einstakra verkefna er allt að 200.000 evrur yfir þriggja ára tímabil en styrkfjárhæð getur numið allt að 50 prósent af heildarkostnaði verkefnis. Að þessu sinni verður einnig mögulegt að sækja um forkönnunarstyrki, sem geta numið allt að 2 m.kr. Styrkjunum er ætlað að styðja við hugmyndir eða verkefni á frumstigi sem geta leitt af sér stærri þróunarverkefni.

Heimsmarkmiðin eru sameiginleg ábyrgð okkar allra og í þeim felast bæði áskoranir og tækifæri. Nú er kominn fram vettvangur þar sem íslenskt atvinnulíf getur lagt lóð sín á vogarskálarnar og skilgreint leiðir til að skapa gagnkvæman ávinning. Við vonumst til þess að sem flestir sjái þar tækifæri til að skapa virðisauka fyrir alla aðila og vinna með okkur að því að ná sameiginlegum markmiðum.

Frekari upplýsingar um styrkveitingar og umsóknarferlið er að finna á www.utn.is/heimsljos, en umsóknarfrestur er til 15. október nk.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 26. september 2019.