600 blaðsíðna bindi

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Meirihluti borgarstjórnar hefur kynnt áform um breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi. Fyrirhugað er afnám skólahalds í Staðahverfi og sameiningar skóla sem áður voru fjórar aðskildar skólaeiningar. Börnum Staðahverfis verður nú gert að sækja skóla utan hverfis. Íbúar eru að vonum ósáttir.

Breytingarnar munu hafa í för með sér umferðaróöryggi og slysahættu fyrir börn. Langar vegalengdir verða til skóla meðfram umferðarþungum götum. Hættan hefur legið fyrir um árabil en engar ráðstafanir verið gerðar til að auka öryggi barnanna.

Íbúar borgarhlutans hafa áður staðið frammi fyrir sambærilegum sameiningum. Árið 2012 kvartaði hluti íbúa til umboðsmanns alþingis vegna samskonar áforma. Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að gera breytingar á skólahaldi án undanfarandi breytinga á deiliskipulagi, enda gerir deiliskipulag ráð fyrir skólastarfsemi í hverfinu. Þess var ekki gætt við breytingar ársins 2012. Þess hefur ekki verið gætt við fyrirhugaðar breytingar í Staðahverfi. Ábendingar umboðsmanns virðast hafðar að engu.

Það er eðlileg forsenda við búsetuval fjölskyldufólks að í nærliggjandi umhverfi megi finna grunnskóla. Fyrirhugaðar breytingar á skólahaldi eru því alvarlegur forsendubrestur fyrir íbúa hverfisins. Foreldrum er mætt af skilningsleysi og meðal uppgefinna ástæðna er hagræðing.

Víða í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar eru tækifæri til niðurskurðar. Síðastliðinn vetur var ráðist í stjórnkerfisbreytingar hjá Reykjavíkurborg. Ætla mátti að tilgangur breytinganna væri hagræðing í rekstri borgarinnar. Það skaut því skökku við þegar breytingarnar voru kynntar – þær skiluðu nákvæmlega engri hagræðingu. Hið sama mátti sjá í nýlegri samantekt á starfslýsingum hjá miðlægri stjórnsýslu. Samantektin tók eingöngu til afmarkaðs hluta af yfirbyggingu borgarinnar en samanstóð af ríflega 600 blaðsíðum. Síðufjöldinn talar sínu máli. Vannýtt tækifæri til hagræðingar blasa við.

Reykjavíkurborg þarf sannarlega að bregðast við slæmri fjárhagsstöðu með hagræðingu af fjölþættum meiði. Niðurskurðarhnífnum skal þó aldrei beitt fyrst gagnvart lögbundnum verkefnum sveitarfélags – né heldur grunnskólabörnum og fjölskyldum þeirra. Réttara væri að hagræða fyrst í yfirbyggingunni og fækka blaðsíðum hins 600 blaðsíðna bindis. Af nógu er að taka.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september. 2019