324 orð um landbúnað og sjávarútveg
'}}

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, heyrir það sem hann vill heyra en lokar skilningavitum gagnvart staðreyndum og því sem sagt er. Þess vegna skrifar hann með þeim hætti sem blasti við lesendum Morgunblaðsins síðastliðinn föstudag. Í pistli sínum vísaði hann til stuttrar ræðu sem ég flutti í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Gunnar Bragi fullyrðir að þar hafi mér tekist hið ómögulega „að minnast hvorki á landbúnað né sjávarútveg.“ Jafnframt spyr hann um framtíðarsýn, skattlagningu, sóknarfæri, hindranir, umhverfismál og fleira. Hann klykkir út með því að velta upp, af sinni alkunnu hógværð, hvort ráðherrann „hafi litla sem enga framtíðarsýn fyrir landbúnað og sjávarútveg.“ Það er nefnilega það.

Rétt skal vera rétt og því er mikilvægt að halda til haga staðreyndum. Í ræðunni fjallaði ég um þá umgjörð sem stjórnvöld þurfa að búa til svo landbúnaður og sjávarútvegur fái dafnað. Raunar fóru alls 324 orð af 603 orða ræðu, um 54%, í að ræða aðstæður þessara tvegga undirstöðu atvinnugreina okkar Íslendinga. Skilaboð mín voru skýr en einföld: Það er risastórt hagsmunamál að þessar atvinnugreinar búi við einfalt og skilvirkt regluverk og að stjórnvöld mættu ekki leggja stein í götu fólks og fyrirtækja í landinu. Vísaði ég til þess að umfangsmikil vinna um það væri í forgangi hér í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Skrif ráðherrans fyrrverandi dæma sig sjálf og eru máttlaus tilraun til að þyrla upp moldviðri, en í þeim leik er hann í töluverðri æfingu. En ekki má útiloka að Gunnar Bragi átti sig ekki á mikilvægi þess fyrir íslenskan landbúnað og sjávarútveg að regluverkið sé einfalt, skýrt og skilvirkt. Það jákvæða við þetta frumhlaup er þó það tilefni sem hann gefur til að ræða það sem okkur báðum er vonandi umhugað um – framtíð íslensks landbúnaðar.

Skýr framtíðarsýn

Meginmarkmið ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í þessu samhengi er að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð. Þá á Ísland að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum.

Til að framfylgja þessari stefnumörkun má meðal annars vísa til aðgerðaáætlunar í 17 liðum um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þar er meðal annars kveðið á um:

  • Skipuð verði áhættumatsnefnd.
  • Átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
  • Settur verður á fót Matvælasjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.
  • Opinber stefna um innkaup opinberra aðila á matvælum.
  • Mótun matvælastefnu fyrir Ísland.
  • Átak um betri merkingar matvæla.
  • Vinna við að kanna þróun tollverndar og stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
  • Endurskoðun á tollskrá fyrir landbúnaðarvörur.

Unnið hefur verið staðfastlega að framgangi þessarar aðgerðaáætlunar, sem er í raun tímamóta stefnumörkun Alþingis um landbúnað, líklega sú áhrifamesta í mörg ár, og er hún í forgangi í mínu ráðuneyti. Ég mun fræða ráðherrann fyrrverandi og aðra alþingismenn nánar um þetta þann 1. nóvember nk. þegar ég gef Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar. Af lestri greinarinnar virðist ráðherrann fyrrverandi þó ekki kannast við þessa mikilvægu stefnumörkun sem er til þess fallin að styrkja íslenskan landbúnað. Til að rifja upp fyrir honum þá voru þær samþykktar með 54 atkvæðum á Alþingi hinn 19. júní sl.

Stjórnsýsla landbúnaðarmála efld

Á sama tíma og unnið er að því að styrkja íslenska matvælaframleiðslu er verið að styrkja stjórnsýslu landbúnaðar- og matvælamála. Þannig samþykkti Alþingi í júní sl. frumvarp mitt um að verkefni Búnaðarstofu, sem nú heyrir undir Matvælastofnum, færast til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 1. janúar nk. Með því að koma þessum verkefnum á einn stað undir einni yfirstjórn í ráðuneytinu er horft til þess að auka möguleika til forgangsröðunar, gefa möguleika til að þróa stjórnsýsluna með skilvirkari hætti og þannig þjóna íslenskri matvælaframleiðslu enn betur en nú er gert.

Endurskoðun búvörusamninga

Á þessu ári stendur yfir endurskoðun á þeim búvörusamningum sem tóku gildi 1. janúar 2017 en þá gegndi Gunnar Bragi embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í ár stendur yfir endurskoðun á öllum fjórum samningunum. Einni endurskoðun er raunar þegar lokið í kjölfar þess að ég óskaði eftir því í fyrra að endurskoðun sauðfjársamningsins yrði flýtt. Í kjölfarið var skrifað undir samkomulag um endurskoðun þess samnings í janúar sl. Þar er að finna breytingar sem ég tel að muni stuðla að meira jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir en það hefur verið einn helsti vandi greinarinnar undanfarin ár. Mikilvægast af öllu er að nú sjást skýr merki um að hagur sauðfjárbænda er að vænkast á ný.

Nú standa yfir viðræður um endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Þær viðræður ganga vel og vonast ég eftir að þeim ljúki hið fyrsta. Í kjölfarið verður gengið frá samning um garðyrkju og rammasamning. Þessari vinnu fylgir mikil ábyrgð fyrir bæði stjórnvöld og bændur enda felast í henni dýrmæt tækifæri til að búa svo um starfsskilyrði þessara greina að íslenskur landbúnaður nýti þau mikilvægu sóknarfæri sem hann sannarlega hefur. Með samstilltu átaki mun það takast.