Samgöngumál: þvingun eða valfrelsi

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi skrifar:

Það er svolítið útbreiddur misskilningur meðal hógværra og dómmildra manna að meirihluta borgarstjórnar hafi óvart orðið á í messunni þegar kemur að umferðaröngþveitinu í Reykjavík. Hitt er öllu nær að þessi meirihluti stefnir markvisst og meðvitað að því að lama reykvískt samfélag með árásum á samgöngukerfið. Oft hafa innrásarherir lamað samfélög með því að gera samgöngukerfi þeirra óvirk. En hitt er einsdæmi að yfirvöld ráðist gegn eigin þegnum og samfélagi með slíkum hætti og heimti um leið af þeim æ hærri skatta og álögur til að framkvæma skemmdarverkin.

Aðför gegn borgarbúum

Ástæðan fyrir þessari alvarlegu aðför gegn borgarbúum og samfélagi þeirra felst í þeirri skoðun meirihluta borgarfulltrúa að ef borgarbúar þurfi á annað borð að vera að þvælast á milli staða innan borgarmarkanna, eigi þeir að hjóla á reiðhjólum eða ferðast með almenningsvögnum – ekki aka á eigin bifreiðum. Langflestir borgarbúar hafa hins vegar tekið einkabílinn fram yfir reiðhjól og strætisvagna af ýmsum augljósum ástæðum og fyrir það val er nú verið að refsa samfélaginu í heild.

Tvær ólíkar stefnur

Nú hefur það lengi verið skoðun borgarfulltrúa úr öllum stjórnmálaflokkum að það væri mikið til vinnandi að gera hjólreiðar og ferðir með almenningsvögnum að svo raunhæfum kostum að fleiri veldu þá samgönguhætti. Þetta er stefna okkar sjálfstæðismanna. En hún er allt önnur en stefna núverandi meirihluta. Við viljum bæta alla samgönguhætti og hafa óbein áhrif á frjálst val einstaklinga með því að gera almenningssamgöngur að raunhæfari kosti fyrir mun fleiri en nú er. Núverandi meirihluti vill hins vegar þvinga borgarbúa úr fjölskyldubílum sínum og yfir í almenningsvagna með því að skapa umferðaröngþveiti. Okkar stefna snýst um uppbyggingu, framfarir og frjálst val – þeirra stefna um niðurrif, nýjar álögur og þvinganir.

Skipulagðar umferðartafir

Þetta er ekki innantómur pólitískur áróður heldur raunsönn lýsing á samgöngustefnu meirihlutans undanfarin ár. Lítum á nokkur dæmi.

1.      Borgarstjórnarmeirihlutinn gerði tíu ára samgöngusamning við ríkið árið 2012 þar sem Reykjavík afsalaði sér einum milljarði á ári hverju frá ríkinu, í stofnbrautaframkvæmdir í tíu ár. Þess í stað fékk Reykjavíkurborg fjölgað strætisvögnum sem aftur átti að fjölga farþegum með almenningvögnum úr 4% í a.m.k. 8%. Nú þegar sjö ár eru liðin af samningstímanum hefur notkun einkabíla aukist nokkuð en hlutfall farþega með strætisvögnum er enn 4%. Þessi misheppnaða tilraun hefur því hingað til kostað Reykvíkinga sjö milljarða, án árangurs. Á síðasta borgarstjórnarfundi var tillaga frá minnihlutanum um að segja upp þessum ólánssamningi felld af meirihlutanum.

2.      Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ætíð verið andsnúinn Sundabraut sem þó hefur verið talin ein allra arðbærasta vegaframkvæmd sem ráðist yrði í hér á landi og myndi létta mjög á umferðarþunga um Ártúnsbrekku. Höfðabakka og Gullinbrú.

3.      Á síðasta borgarstjórnarfundi fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um sveiganlegri starfstíma stofnanna og skóla í því skyni að draga úr álagstoppum í umferðinni. Þeirri tillögu var hafnað af meirihlutanum.

4.      Í samgöngusamningnum frá 2012 var farið í algjört framkvæmdastopp við nauðsynleg samgöngumannvirki í Reykjavík þar með talin mislæg gatnamót við Reykjanesbraut/Bústaðaveg, en þær framkvæmdir voru þá taldar brýn nauðsyn á allra næstu árum. Vegagerðin hefur nú beðið með fjármuni í þessa framkvæmd í nokkur ár en meirihlutinn hefur hingað til komið í veg fyrir þessa mikilvægu framkvæmd.

5.      Þann 3. september sl. lögðum við sjálfstæðismenn fram tillögu í borgarstjórn um nýjar ljósastýringar og snjallvæðingu  í umferðarstýringu. Núverandi ljósastýring í höfuðborginni er löngu orðin úrelt og hvergi notuð í borgum þeirra nágrannaríkja sem við berum okkur saman við. Ný tækni á þessu sviði kostar um 1,5 milljarð en hún myndi líklega stytta biðtíma ökutækja um 50% að mati sérfræðinga. Samtök iðnaðarins hafa svo bent á að ef umferðartafir í höfuðborginni minnkuðu um 15% með nýrri ljósastýringu myndi það skila 80 milljarða króna ábata fyrir fyrirtæki og heimili í Reykjavík á nokkrum árum. Þetta er því augljóslega fljótvirkasta og ábatasamasta lausnin í að draga úr umferðaröngþveitinu í Reykjavík. Ekki ætti að koma á óvart að meirihlutinn felldi þessa tillögu okkar sjálfstæðismanna.

6.      Við sjálfstæðismenn höfum á undanförnum árum komið með tillögur um göngubrýr og undirgöng, t.a.m. á Miklubraut við Klambratún og Stakkahlíð og við Hringbraut við Bræðraborgarstíg, en þeim hefur öllum verið hafnað.

Tvær óvissuferðir

Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur því ekki einungis samið af Reykvíkingum allar nauðsynlegar framkvæmdir við samgöngumannvirki í heil sjö ár. Hann hefur þrásinnis hafnað allri viðleitni til að draga úr umferðarvandanum. Þann vanda ber að rekja til Samgöngusamningsins sem gerður var árið 2012. Sá samningur er fyrri óvissuferðin í boði Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Afleiðingar hennar eru umferðartafir og bílaraðir sem  jaðra við neyðarástand. Hún hefur stóraukið svifryks- og loftmengun, tekur nú tímaskatt af vegfarendum sem nemur heilli vinnuviku á ári á hvern íbúa, leggur síaukinn umframkostnað á fyrirtæki og þjónustu sem aftur hækkar verðlag, dregur úr viðbragðshraða sjúkra-, slökkvi- og lögreglubifreiða og beinir í síauknum mæli gegnumakstri um íbúðahverfi þar sem börn eru að leik eða á leið í skóla.

En nú er boðið upp á seinni óvissuferðina. Henni er lýst með nýyrðinu Borgarlína. Engin veit hvað það merkir og hún á ekki að koma til fullra framkvæmda fyrr en árið 2040. Í þokkabót er hún ekki talin leysa þann umferðarvanda sem hún á að leysa samkvæmt ráðgjafafyrirtækinu Cowi sem vann þetta verkefni. Aðeins eitt er víst um þá óvissuferð: Reykvíkingar munu bera skaðann af henni, eins og hinni fyrri, og þeir munu borga brúsann, enn og aftur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 21. september síðastliðinn.