Lækkun fasteignagjalda

Ragnar Sigurðsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð:

Fasteignamat íbúðarhúsa í Fjarðabyggð hefur hækkað umtalsvert á síðustu árum. Um síðustu áramót hækkaði matið að meðaltali um rúm 10% en þónokkuð meira á Reyðarfirði, Eskifirði og Norðfirði eða um 14-15%. Um næstu áramót munu þau svo aftur hækka að meðaltali um 6,5%.

Þetta þýðir talsverða tekjuaukningu fyrir sveitarfélagið sem hefur í kjölfarið úr meiri fjármunum að spila á kostnað ráðstöfunartekna íbúa. Fjarðabyggð hefur skilað afgangi frá rekstri á undanförnum árum samhliða því í að borga niður skuldir sveitarfélagsins, hraðar en áætlað var, og takmarkað með því vaxtagreiðslur sveitarfélagsins eins og kostur er.

Það er því engin tilviljun að Sjálfstæðisflokkurinn í Fjarðabyggð stígi fram að öðru sinni á þessu kjörtímabili með tillögu um lækkun fasteignagjalda. Tillagan felur í sér að fasteignamatsstuðull íbúðarhúsnæðis fari úr 0,5% í 0,438%. Með því að samþykkja tillögu Sjálfstæðisflokksins væri Fjarðabyggð að koma til móts við hækkandi fasteignamat á íbúðarhúsnæði undanfarinna ára og stuðlað að verðstöðugleika líkt Samband íslenskra sveitarfélaga hefur mælst til um í anda lífskjarasamninganna en þar er lagt til að á árinu 2020 munu gjaldskrár sveitarfélaga hækka um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga er lægri.

Þjónusta sveitarfélagsins

Þegar tillögur sem þessar eru lagðar fram af minnihluta eru viðbrögð meirihlutans gjarnan á þá veru að krefjast tillagna um það hvar á að skera niður á móti í rekstri sveitarfélagsins til að mæta tekjusamdráttinum. Það er eðlileg krafa, alla jafna, en í þessu tilfelli er svo ekki enda hafa fasteignagjöld hækkað umtalsvert í sveitarfélaginu á undanförnum árum og sveitarfélagið notið góðs af því. Við Sjálfstæðismenn leggjum einungis fram að sveitarfélagið taki ekki óhindrað við allri tekjuaukningu heldur dragi úr neikvæðum áhrifum hækkananna á samborgaranna. Áfram hefur sveitarfélagið yfir álíka miklum fjármunum að ráða og því allt tal um hagræðingu í rekstri óþörf.
Af hverju núna?

Því hefur verið látið að liggja að tillögur okkar séu tækifærismennska, eingöngu settar fram í pólitískri refskák. Því fer fjarri sanni. Við lögðum tillöguna fram árið 2018 og aftur núna vegna þess að okkur hefur tekist vel að greiða niður skuldir sveitarfélagsins þökk sé kraftmiklu samfélagi með blómstrandi atvinnulíf. Þá hefur sveitarfélagið verið rekið með afgangi á undanförnum árum ásamt því að viðhalda góðu þjónustustigi sveitarfélagsins. Þetta hefur verið drifin áfram af traustum útsvarsgreiðendum, sterku atvinnulífi og gjaldskrám sem almennt eru yfir meðallagi. Til að viðhalda samkeppnishæfni sveitarfélagsins er nauðsynlegt að við setjum íbúana í fyrsta sæti og skilum hluta þeirra hækkana sem íbúar og atvinnulífið hafa lagt á sig til baka.

Réttlætismál

Ef við skoðum hækkanir á fasteignaskatti sveitarfélaga frá 2014 kemur fram að mestar hækkanir voru Keflavík, Reykjanesbæ, 124,1% og næst mestar í Njarðvík, Reykjanesbæ, 121,7%. Þar á eftir kemur Fjarðabyggð með 71,7% hækkun. Sömu sögu er að segja um vatns- og holræsagjaldið. (Samkvæmt tölum ASÍ)
Stærstu sveitarfélög landsins ef frá eru talin Reykjavíkurborg og Fjarðabyggð hafa einmitt stigið það skref sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til og sum hver stigu mun stærra skref þ.e. að skila til baka allri áætlaðri tekjuaukningu vegna hækkun fasteignamats.

Akranes lækkaði álagningarhlutfallið sitt 2018 og 2019, Akureyri gerði það um síðustu áramót, sömu sögu er að segja um Garðabæ, Hafnarfjörð sem hefur lækkað stuðulinn samhliða lækkandi skuldastöðu undanfarin ár, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjanes, Seltjarnarnes, Árborg og Vestmannaeyjar og þetta er ekki tæmandi listi. Flest eiga þessi sveitarfélög það sameiginlegt að hafa Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta enda tillögurnar flestar komnar þaðan.

Það er kominn tíma á að íbúar samfélagsins fái að njóta velgengni undanfarinna ára. Tökum ekki meira en það sem nauðsynlegt er fyrir áframhaldandi uppbyggingu og lögbundinni þjónustu sveitarfélagsins. Gerum frekar þær kröfur til meirihlutans í Fjarðabyggð að hann gæti aðhalds í óþarfa útgjöldum og eyðslu á skattfé fólksins í Fjarðabyggð.

Greinin birtist í AusturFrétt 16. september 2019.