Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar:
Mér hefur alltaf fundist skemmtilegt að fylgjast með hvernig brugðist er við fjárlagafrumvarpi þegar það er lagt fram. Sumir eru þeim kostum búnir að geta fellt stóradóm nokkrum klukkustundum eftir að viðamikið og að nokkru flókið skjal lítur dagsins ljós. Aðrir þurfa lengri tíma til að kynna sér málið.
En þótt ég bíði spenntur eftir viðbrögðum stjórnarandstöðunnar við nýju frumvarpi til fjárlaga, verð ég oftar en ekki fyrir vonbrigðum. Allt er fyrirsjáanlegt – líkt og handrit sem búið er að læra og er þulið upp lítið breytt ár eftir ár.
Fulltrúi Samfylkingarinnar var fljótur að fara í gamalkunnugt far. Þar á bæ er litið svo á að ríkið sé að afsala sér tekjum ef ekki er gengið fram af fullri hörku í skattheimtu á heimili og fyrirtæki. Þess vegna er enn á ný kallað eftir hærri sköttum. Auðlegðarskatt á að endurvekja en skal nú vera undir heitinu stóreignaskattur. Innleiða á nýtt þrep í tekjuskatti þar sem skatturinn fer í yfir 56%.
Talsmaður Miðflokksins misskilur fjárlagafrumvarpið og stendur í þeirri trú að ríkissjóður ætli að næla sér í þrjá milljarða með því að afnema samsköttun hjóna og koma í veg fyrir samnýtingu skattþrepa. Hlaupið var í fjölmiðla og hrópað. Allt innantómt gaspur sem á sér enga stoð.
Viðreisn heldur sig á bandi svartsýninnar og Píratar klæða sig í búning teknókratans og vilja fleiri excel-skjöl og greiningar um leið og skatta- og útgjaldahjartað slær hraðar.
Lækkun tekjuskatts
Hægt er að lýsa fjárlagafrumvarpinu í fáum orðum. Aukin útgjöld, ekki síst til velferðarmála, lækkun skatta og aukin fjárfesting. Fyrir þann sem þetta skrifar er því margt að gleðjast yfir en ýmislegt veldur áhyggjum.
Lækkun tekjuskatts einstaklinga, með nýju lægra þrepi, verður flýtt og kemur til framkvæmda á næstu tveimur árum í stað þriggja. Allir njóta lækkunarinnar en hlutfallslega mest þeir sem lægstu tekjurnar hafa. Tekjuskattur einstaklings með tekjur við fyrstu þrepamörkin mun lækka um 42 þúsund krónur þegar á næsta ári. Ráðstöfunartekjur heimilanna aukast um 21 milljarð á ári þegar lækkunin er að fullu komin fram. Fyrir einstaklinga með tekjuskattsstofn í kringum 350 þúsund krónur þýðir það 125 þúsund króna skattalækkun á ári.
Það skal viðurkennt að ég hef aldrei verið hrifinn af margþrepa tekjuskattskerfi. Eftir því sem skattkerfið verður flóknara því meiri neikvæð áhrif getur það haft. Þannig er skynsamlegra að hafa eitt skattþrep en breytilegan persónuafslátt sem lækkar eftir því sem tekjur hækka. En upptaka nýs lægra skattþreps er hins vegar jákvætt skref í átt að lægri sköttum á einstaklinga og í takt við það sem gert hefur verið frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók sæti í ríkisstjórn 2013. Frá þeim tíma hefur lækkun skatta á einstaklinga verið í forgangi. Á árunum 2014 til 2018 hafa þeir verið lækkaðir um 25 milljarða á ársgrundvelli með tilheyrandi hækkun ráðstöfunartekna heimilanna.
Skatttekjur og tryggingargjald nema á komandi ári um 817 milljörðum króna. Aðrar tekjur, s.s. arður og vaxtatekjur, eru áætlaðar 96 milljarðar og fjárframlög liðlega sex milljarðar. Alls verða því tekjur ríkisins um 919 milljarðar. Þrátt fyrir lækkun tekjuskatts og enn eina lækkun tryggingargjalds munu skatttekjur ríkisins verða nær 27 milljörðum hærri að raunvirði 2020 en 2017.
Um 18% raunhækkun útgjalda
Rekstrarútgjöld verða tæplega 26 milljörðum hærri að raunvirði á næsta ári en 2017 og launakostnaður um 16 milljörðum hærri. Í heild stefnir í að útgjöld A-hluta ríkissjóðs verði 205,6 milljörðum hærri að nafnvirði 2020 en 2017, án fjármagnskostnaðar, ábyrgða og lífeyrisskuldbindinga. Þetta er um 139 milljarða eða 18% raunhækkun. Mestu skiptir nær 78 milljarða raunaukning til velferðarmála, þar af 30 milljarðar í heilbrigðismál og liðlega 24 milljarðar í málefni eldri borgara og öryrkja. Enginn sanngjarn maður getur haldið öðru fram en að ríkisstjórnin hafi forgangsraðað í þágu velferðar.
Ég er nokkuð viss um að fáir þingmenn fari yfir þessar staðreyndir í umræðum um fjárlög og spyrji hvort þróun útgjalda sé eðlileg. Hvort það er hægt að gera betur en raun ber vitni í rekstri ríkisins er spurning sem flestir forðast. Engu er líkara en óttinn við svarið ráði för. Þess í stað er þess krafist að útgjöld í hitt og þetta verði aukin. Í umræðum um fjárlög breytast margir í jólasveina en skattgreiðandinn stendur lítt varinn.
Skuldir ríkissjóðs halda áfram að lækka og verða um 2,3 milljónir á hvern landsmann á komandi ári. Þetta er lækkun um 1,1 milljón frá 2016 eða 32%. Fjárfestingar aukast og nema rúmlega 74 milljörðum króna samkvæmt frumvarpinu. Mest munar um fjárfestingar í samgöngum upp á 28 milljarða og 8,5 milljarða í byggingu nýs Landspítala.
Vel í stakk búin
Ábending Konráðs S. Guðjónssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs, um að setja þurfi aukinn kraft í innviðafjárfestingu er hins vegar rétt. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Konráð að gott hefði verið „að sjá meiri kraft í fjárfestingarvexti en minni áherslu á önnur útgjöld“ enda eru fjárfestingar í dag „forsenda fyrir hagsæld og einnig ríkisútgjöldum í framtíðinni“. Ríkið – við öll – á mikla möguleika á því að stórauka fjárfestingar á komandi misserum án þess að leggja auknar álögur á einstaklinga eða fyrirtæki. Umbreyting sumra eigna ríkisins í samfélagslega innviði, ekki síst á sviði samgangna, er skynsamleg ráðstöfun ekki síst þegar slaki er í efnahagslífinu. Lífskjör almennings verða ekki varin með því að binda hundruð milljarða í áhættusömum fjármálafyrirtækjum, heldur koma fjármunum í vinnu í arðbærum innviðum samfélagsins.
Þrátt fyrir að undirliggjandi hagstærðir bendi til að hagkerfið sé að kólna er fátt sem ætti að koma í veg fyrir „mjúka lendingu“ á komandi misserum – nema klaufaskapur við stjórn efnahagsmála.
Að baki fjárlagafrumvarpinu liggja ákveðnar forsendur um þróun efnahagsmála. Eins og fjármálaráðherra bendir á í greinargerð frumvarpsins ríkir meiri óvissa um þessar mundir um þróun alþjóðlegra efnahagsmála en oft áður. Óvissa innanlands og utan kunni að leiða til þess að hagvöxtur á þessu og næsta ári verði minni en gert er ráð fyrir. „Meiri líkur eru á því að efnahagshorfur ársins 2020 breytist til verri vegar en að þær batni að ráði,“ eru varnaðarorð í greinargerðinni en um leið bent á við augljósa: Það er svigrúm í hagstjórninni til að bregðast við. Allar forsendur eru fyrir hendi að vextir lækki enn frekar. Skynsamlegt er að slaka enn frekar á skattaklónni og öll rök hníga að því að auka innviðafjárfestingu verulega, jafnt með umbreytingu eigna sem og í samstarfi við lífeyrissjóði og einkaaðila.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. september 2019.