Þróunarsamvinna ber ávöxt

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

Eftir nokkurra ára hlé hefur vitundarvakningu íslenskra félagasamtaka í alþjóðastarfi, Þróunarsamvinna ber ávöxt, nú verið hleypt af stokkunum á nýjan leik. Það er mér fagnaðarefni af mörgum ástæðum.

Í fyrsta lagi er full ástæða til að minna okkur öll á að þróunarsamvinna skilar árangri. Þrátt fyrir ofgnótt neikvæðra frétta frá þróunarríkjum blasir við önnur mynd og jákvæðari þegar sjónum er beint að framförum á mörgum sviðum. Gott dæmi um það eru tölur um lífslíkur íbúa fátækra þjóða sunnan Sahara í Afríku, en þar vinnur Ísland m.a. að þróunarsamvinnu. Frá árinu 2000 hafa lífslíkur í þessum heimshluta aukist um ellefu ár; úr 53 árum í 64 ár. Stóri áhrifavaldurinn þar er hversu mikið hefur dregið úr ungbarnadauða. Í þeim efnum hefur Ísland látið til sín taka, en ungbarnaeftirlit og stuðningur við barnshafandi konur er eitt af áherslusviðunum í Malaví þar sem við höldum uppi tvíhliða þróunarsamvinnu.

Í öðru lagi er það er jákvætt að frjálsu félagasamtökin í mannúðar- og þróunarstarfi taki höndum saman til að vekja þjóðina til umhugsunar um málefni þróunarríkja og samfélagslegar skyldur okkar sem búum í þróuðum ríkjum. Nýlegar skoðanakannanir hérlendis sýna að vísu afgerandi stuðning landsmanna við þróunarsamvinnu, nú síðast í vor þegar fram kom að tæplega 80 prósent landsmanna telur mikilvægt að Íslandi veiti þróunarríkjum og íbúum þeirra aðstoð. Í sömu könnun kom fram víðtækur stuðningur við frjálsu félagasamtökin, en sex af hverjum tíu Íslendingum styðja starf þeirra með frjálsum framlögum. Utanríkisráðuneytið hefur treyst frjálsum félagasamtökum fyrir sífellt stærri hlut af íslensku þróunarfé og ráðstafaði á síðasta ári liðlega 218 milljónum til tólf félagasamtaka hérlendis. Verkefnin voru tuttugu talsins víðs vegar um heiminn og tengjast öll heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í þriðja lagi verð ég að hrósa frjálsu félagasamtökunum fyrir málefnið sem þau setja á oddinn að þessu sinni: þátttaka fyrirtækja í þróunarsamvinnu. Um leið og þjóðir heims samþykktu metnaðarfull heimsmarkmið um sjálfbæra þróun undir lok árs 2015, varð ljóst að hefðbundin framlög þjóða til þróunarsamvinnu dygðu skammt til að uppfylla markmiðin fyrir árið 2030. Ég hef því lagt mikla áherslu á að virkja atvinnulífið til samstarfs í þróunarríkjum, meðal annars með því að setja á laggirnar sérstakan samstarfssjóð við atvinnulífið um heimsmarkmiðin, og með því að hvetja frjálsu félagasamtökin til samvinnu við atvinnulífið. Við höfum boðið til sameiginlegra kynningarfunda fyrir fyrirtæki og félagasamtök um samstarfsmöguleika við ráðuneytið og jafnframt boðið fulltrúum félagasamtaka á sérstakar vinnustofur þar sem stefna og sýn ráðuneytisins í málaflokknum er skýrð og fulltrúum samtakanna leiðbeint við útfærslu verkefna og gerð umsókna. Aukið samstarf atvinnulífs, félagasamtaka og stjórnvalda er nauðsynlegt til að raunverulegur árangur náist við að útrýma fátækt og auka velsæld í þróunarríkjum.

Ég tek því heilshugar undir kynningu átaksins á þessu höfuðmálefni, sem segir að sífellt meiri kröfur séu gerðar til fyrirtækja um samfélagslega ábyrga hegðun. Þessi krafa kemur frá starfsfólki, viðskiptavinum og fjárfestum, en þátttaka í þróunarsamvinnu uppfyllir þessar kröfur og veitir viðskiptavinum og fjárfestum skýran og ábyrgan valkost, eins og bent er á.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru metnaðarfyllstu markmið sem ríki heims hafa sett sér og það er á ábyrgð okkar allra að tryggja að þessi sameiginlega framtíðarsýn verði að veruleika. Vitund er fyrsta skrefið.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. september 2019.

Greinin er skrifuð í tilefni átaksins Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum félagasamtaka er starfa í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu í samstarfi við utanríkisráðuneyti. Markmið átaksins er að hvetja fyrirtæki, stór sem smá, að taka þátt í þróunarsamvinnu og vinna þannig markvisst að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.