Ó(sam)ráð

Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi og Jórunn Pála Jónasdóttir, varaborgarfulltrúi:

Því miður er samráðsferli ekki til staðar hjá Reykjavíkurborg þegar ákvarðanir eru teknar, sér í lagi í skipulagsmálum. Hjá borginni felst ferlið frekar í að fyrirliggjandi ákvörðun er tilkynnt, fólki er boðið að senda inn athugasemdir en þeim athugasemdum er aðeins svarað um síðir eða þegar málið hefur þegar verið afgreitt inni í stjórnkerfinu. Og það án nokkurrar aðkomu íbúa borgarinnar. Það gefur augaleið að slíkt samráð getur ekki verið til annars en sýnis og það kemur ekki á óvart að þessi aðferð vekur yfirleitt gremju.

Óþarfi að finna upp hjólið

Í lok árs 2017 gaf Samband íslenskra sveitarfélaga út handbók sem nefnist Íbúasamráð í sveitarfélögum og þátttaka íbúa. Handbókinni er ætlað að vera leiðbeinandi plagg fyrir sveitastjórnir í landinu svo hægt sé að bæta samráð við íbúa og auka jákvæða þátttöku þeirra að ákvörðunartöku í nærsamfélagi þeirra. Handbókin er bæði aðgengileg og upplýsandi um það hvernig kjörnir fulltrúar geta bætt ákvörðunarferli innan sveitarfélagsins.

Borgar- og sveitarstjórnarmál snerta nærumhverfi fólks það mikið að mikilvægt er að eiga gott samráð þegar ákvarðanir eru teknar. Eins og segir í handbók Sambandsins: „Íbúar sveitarfélags eru sérfræðingar í nærumhverfi sínu og samráð við þá stuðlar að vandaðri ákvörðunartöku þar sem ákvarðanir eru teknar á betri þekkingargrunni. Ef rétt er á haldið getur íbúasamráð líka stuðlað að betri sátt um ákvarðanir þar sem samráðsferlið getur aukið skilning íbúa á mismunandi sjónarmiðum og hagsmunum.“

Enn einn stýrihópurinn

Það vekur því athygli að enn og aftur stendur til að skipa stýrihóp um íbúalýðræði. Enn einn stýrihópurinn gefur ekki góð fyrirheit um að þessi vinnubrögð verði bætt á næstu árum. Til gamans má geta að á fyrri hluta árs 2016 var ákveðið að stofna stýrihóp um matarstefnu fyrir Reykjavíkurborg. Stefnan sjálf var ekki samþykkt fyrr en tveimur árum síðar, á fyrri hluta árs 2018. Nú rúmum þremur árum eftir að stýrihópurinn var stofnaður var loks lögð fram í borgarstjórn tillaga meirihlutans um að samþykkja framkvæmdaáætlun stefnunnar. Þannig hafa liðið þrjú og hálft ár frá stofnun stýrihópsins þar til framkvæmdaáætlun stefnunnar kemur til samþykktar en þá stendur eftir sú spurning hvenær sjálfri matarstefnunni verður raunverulega hrint í framkvæmd?

Ef raunverulegur vilji væri til staðar að fá íbúa sveitarfélagsins með í ákvörðunartöku væri nærtækast að vinna eftir handbók Sambandsins um íbúasamráð, í stað þess að verja tíma fólks og fjármunum skattgreiðenda í að finna enn á ný upp hjólið með enn einum stýrihópnum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. september 2019.