Orkan í átökum og skoðanaskiptum

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Stjórn­mála­flokk­ur sem þolir ekki átök hug­mynda – hörð skoðana­skipti flokks­manna – mun fyrr eða síðar visna upp og glata til­gangi sín­um. Slík­ur flokk­ur get­ur aldrei orðið hreyfiafl fram­fara eða upp­spretta nýrra hug­mynda. Flokk­ur sem býr ekki til frjó­an jarðveg fyr­ir sam­keppni hug­sjóna og skoðana, verður ekki til stór­ræða og á lít­il­fjör­legt er­indi við framtíðina.

Ég hef lýst lands­fund­um Sjálf­stæðis­flokks­ins sem suðupotti hug­mynda og hug­sjóna. Potti þar sem allt kraum­ar und­ir. Á annað þúsund sjálf­stæðis­menn frá land­inu öllu koma sam­an til þess að bera sam­an bæk­ur sín­ar, berj­ast fyr­ir því sem stend­ur hjarta þeirra næst. Átök­in eru á stund­um hörð, jafn­vel óvæg­in. Marg­ir, þar á meðal sá er þetta skrif­ar, hafa þurft að sætta sig við mála­miðlun. Bar­átt­an fyr­ir hug­mynd­um ber ekki alltaf ár­ang­ur. Þótt þær falli í grýtt­an jarðveg hjá meiri­hluta lands­fund­ar­full­trúa, er ástæðulaust að gef­ast upp.

Í fjöl­menn­um og öfl­ug­um stjórn­mála­flokki skilja flest­ir mik­il­vægi þess að stilla að lok­um sam­an strengi – að kon­ur og karl­ar, ung­ir og gaml­ir standi sam­an í bar­átt­unni um grunn­stef sjálf­stæðis­stefn­unn­ar. And­stæðing­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa átt erfitt að skilja hvernig hörð skoðana­skipti inn­an flokks­ins leysa úr læðingi póli­tísk­an kraft.

Erfiðar deil­ur

Öllum má vera ljóst að umræðan um þriðja orkupakk­ann hef­ur reynst Sjálf­stæðis­flokkn­um á marg­an hátt erfið. Það hef­ur verið deilt hart – á stund­um með stór­yrðum, vill­andi upp­lýs­ing­um og staðhæf­ing­um sem eiga enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Þegar tek­ist er á af sann­fær­ingu og eld­móði er ým­is­legt sagt sem bet­ur hefði verið látið ósagt.

Við sem skip­um þinglið Sjálf­stæðis­flokks­ins get­um ekki kveinkað okk­ur und­an gagn­rýni flokks­bræðra og -systra. Hún er eðli­leg­ur hluti af starfi þing­manns­ins. Hann verður að hlusta og taka til­lit til og skilja ólík sjón­ar­mið. En þingmaður verður einnig að hafa burði til að svara og taka af­stöðu til mál­efna. Sá sem feyk­ist líkt og lauf í vindi og skipt­ir um skoðun til að geðjast síðasta viðmæl­anda skil­ur aldrei eft­ir sig önn­ur spor en þau sem fenn­ir strax yfir.

Deil­an um þriðja orkupakk­ann hef­ur langt í frá verið til­gangs­laus eða án inni­halds. Áhugi al­menn­ings á orku­auðlind­um lands­ins hef­ur auk­ist sem og skiln­ing­ur á nauðsyn þess að Íslend­ing­ar standi vörð um óskorað for­ræði á eig­in auðlind­um. Þeim, sem hafa áhyggj­ur af því að með samþykkt þriðja orkupakk­ans séum við að af­sala okk­ur yf­ir­ráðum yfir orku­auðlind­un­um, var rétt og skylt að taka til máls.

Átök­in um orku­mál­in hafa einnig orðið til að skerpa umræðuna um hvernig við Íslend­ing­ar vilj­um og eig­um að standa að sam­starfi við aðrar þjóðir. Þar fáum við ekki allt fyr­ir ekk­ert. EES-sam­starfið hef­ur reynst okk­ur Íslend­ing­um mik­il­vægt en það er ekki galla­laust. Sú skýra krafa að ís­lensk stjórn­völd gæti hags­muna lands og þjóðar og sýni þar frum­kvæði, krist­all­ast í rimm­unni um orkupakk­ann. Þing­menn og al­menn­ing­ur verða í framtíðinni meira vak­andi gagn­vart hags­mun­um okk­ar inn­an EES en nokkru sinni áður. Það er okk­ur lífs­nauðsyn­legt og eft­ir því hef­ur Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins ít­rekað kallað.

Við ráðum þessu sjálf

Orku­mál og skip­an þeirra er eitt mik­il­væg­asta hags­muna­mál okk­ar Íslend­inga. Óháð af­drif­um þriðja orkupakk­ans munu ís­lensk stjórn­völd og al­menn­ing­ur taka ákvörðun um hvaða virkj­un­ar­kosti eigi að nýta og hverja ekki. Við ein og sjálf­stæð þjóð mörk­um stefn­una í um­hverf­is­mál­um, hvernig við ætl­um að standa að orku­skipt­um, hvaða landsvæði við vilj­um vernda a og friða.

Eng­inn get­ur sagt okk­ur fyr­ir verk­um við að marka eig­enda­stefnu fyr­ir Lands­virkj­un. Aðeins Íslend­ing­ar geta ákveðið að fyr­ir­tækið skuli vera í sam­eig­in­legri eigu lands­manna um ókomna framtíð. Sé vilji til þess að koma á fót Þjóðarsjóði með arðgreiðslum frá Lands­virkj­un til að byggja upp fyr­ir framtíðina, eru það kjörn­ir full­trú­ar á Alþingi sem taka þá ákvörðun. Með sama hætti get­ur eng­inn er­lend­ur aðili eða yfirþjóðlegt vald, komið í veg fyr­ir að hluti af arðgreiðslum Lands­virkj­un­ar sé greidd­ur ár­lega beint út til ís­lenskra heim­ila. Ákvörðun um að tengja með bein­um hætti op­in­bert eign­ar­hald og af­komu Lands­virkj­un­ar við fjár­hag heim­il­anna, er í okk­ar hönd­um. Skipu­lag eign­ar­rétt­ar­ins og þar með nýt­ing hans er og verður á for­ræði okk­ar. Orku­til­skip­an­ir breyta þar engu um.

Þriðji orkupakk­inn skerðir í engu mögu­leika okk­ar á að koma á jafn­ræði milli lands­manna þegar kem­ur að raf­orku­verði og dreif­ingu. Upp­bygg­ing dreifi­kerf­is­ins er á ábyrgð okk­ar.

Sé það skyn­sam­legt að sam­eina RARIK og Orku­bú Vest­fjarða til að auka hag­kvæmni í op­in­ber­um rekstri í fram­leiðslu og dreif­ingu raf­orku, er það á for­ræði ís­lenskra stjórn­valda að taka ákvörðun. Ef það er póli­tísk­ur vilji til að styrkja stöðu lands­byggðar­inn­ar með því að hafa höfuðstöðvar sam­einaðs fyr­ir­tæk­is á Ísaf­irði er það ein­föld ákvörðun.

Íslend­ing­ar hafa ekki og geta aldrei und­ir­geng­ist skyld­ur eða gefið lof­orð um lagn­ingu sæ­strengs. Hvort og þá hvenær sæ­streng­ur verður lagður er ákvörðun sem við tök­um sjálf á okk­ar for­send­um.

Næst­kom­andi mánu­dag verður gengið til at­kvæða um þau þing­mál sem tengj­ast þriðja orkupakk­an­um. Afstaða mín ligg­ur fyr­ir og á henni ber ég einn ábyrgð. Bjarni heit­inn Bene­dikts­son, for­sæt­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins sagði í ára­móta­ávarpi 1968:

„Eng­in skömm er að því að falla vegna þess að maður fylg­ir sann­fær­ingu sinni. Hitt er lít­il­mót­legt að ját­ast und­ir það sem sann­fær­ing, byggð á bestu fá­an­legri þekk­ingu, seg­ir að sé rangt.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. ágúst 2019.