Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skrifar:
Í síðustu viku sendi Reykjavíkurborg út fréttatilkynningu þar sem skýrt var frá því að búið væri að ráða í 98% stöðugilda í grunnskólum borgarinnar og 96% í leikskólum.
Staða mönnunarmála er því að mati Reykjavíkurborgar góð. Þrátt fyrir þá „góðu stöðu“ sem uppi er í mönnunarmálum að mati borgarinnar er ljóst að ekki fá öll börn þá þjónustu sem foreldrar þeirra hafa óskað eftir en nú á enn eftir að ráða í 230 stöðugildi hjá skóla- og frístundasviði.
Þá er óljóst hvort að hægt sé að taka inn öll þau börn á leikskóla sem hefur verið boðið pláss þar sem ekki hefur tekist að manna allar stöður.
Biðlisti inn á frístundaheimili telur 1328 börn sem er óásættanleg staða. Því þarf að hafa hraðar hendur til þess að klára ráðningar þannig að biðlistum sé eytt. Enda eru foreldrar ungra barna ekki með mikið svigrúm til þess að brúa óvænt bil sem getur myndast þegar börn þeirra fá ekki þá þjónustu sem sótt hefur verið um hjá sveitarfélaginu.
Sama sagan ár eftir ár
Það er ekki boðlegt að þessi staða komi upp ár eftir ár. Við verðum að reyna að breyta ferlinu til batnaðar. Lausnin að mínu mati gæti falist í því að bjóða sem flestu starfsfólki frístundaheimila 100% starfshlutfall.
En hvernig?
Tilraun til að leysa þennan árlega vanda
Hægt væri að samþætta starfsemi skóla- og frístundaheimila mun meira en nú er gert svo unnt sé að ráða fólk sem sinnir 100% vinnu. Þannig væri hægt bjóða starfsfólki að flakka á milli skóla og frístundaheimila yfir vetrarmánuðina.
Starfsfólkinu yrði síðan boðið starf á frístundaheimilum á sumrin þar sem nú þegar eru frístundaheimili með heilsdagsopnum á sumrin. Ef sem flest starfsfólk frístundaheimila hefði 100% vinnu allt árið um kring hjá Reykjavíkurborg ætti starfsmannavelta að minnka.
Þar með vonandi gætum við bundið enda á þetta árlega vandamál sem veldur töluverðum vandræðum hjá fjölda fjölskyldna.
Greinin birtist fyrst á vefmiðlinum Vísi.is 27.8.2019