Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi skrifar:
Allt of mörg mál hafa verið til umfjöllunar síðustu vikur og mánuði vegna aðstöðumála grunnskólabarna í borginni. Og ekki af ástæðulausu enda skólum lokað vegna myglu og að auki eru fyrirætlanir um að loka skólum í sparnaðarskyni. Þá á jafnframt að fresta nauðsynlegum framkvæmdum í öðrum skólabyggingum svo fátt eitt sé nefnt.
Óþarfa rask veldur óþarfa áhyggjum
Þetta óþarfa rask veldur fólki óþarfa áhyggjum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir hefði fjármunum verið forgangsraðað í þágu grunnþjónustu síðustu ár. Þegar upplýsingar um húsnæði skóla eru skoðaðar og rýnt er á einfaldan hátt í þau samskipti sem hafa átt sér stað milli þeirra sem tilheyra skólasamfélaginu annars vegar og borginni hins vegar kemur ljós að ekkert hefur verið hlustað. Mætti í raun halda því fram að borgaryfirvöld hafi skellt skollaeyrum við öllum þeim viðvörunum sem bæði starfsfólk og foreldrar hafa komið með inn á borð borgaryfirvalda af þessu tilefni. Samtalið er á þann veg að skólasamfélagið kallar eftir því að á það sé hlustað (og brugðist við) en viðbrögðin eru lítil sem engin.
Ekki flókin hagfræði
Þetta eru þættir sem skerða og draga úr gæðum grunnþjónustu sveitarfélagsins. Það er ekki boðlegt. Á sama tíma og hundruð, ef ekki þúsundir, milljóna eru sett í ólögbundinn verkefni hjá sveitarfélaginu, er þjónustuskerðing annars staðar. Þetta er ekkert flókin hagfræði. Núverandi valdhafar gera iðulega lítið úr því þegar rætt er um að miklir fjármunir fari í ólögbundin verkefni. Nokkur af þessum verkefnum hafa verið mikið í umræðunni síðastliðna mánuði sem allir ættu að þekkja.
Fyrir utan heimili borgarstjóra
Nýjasta dæmið er í 101 Reykjavík, endurgerð Óðinstorgs, sem er fyrir utan heimili borgarstjóra, en það verkefni mun a.m.k. kosta rúmar 300 milljónir. Framkvæmdin hefur verið keyrð áfram á ógnarhraða inn í borgarkerfinu á meðan grunnþjónusta hefur fengið að sitja á hakanum. Hvers vegna farið er strax í slíkt verkefni á meðan skólasamfélaginu víða um borg blæðir er óskiljanlegt.
Röð mannlegra mistaka?
Rekstur grunnskólanna er ein mikilvægasta þjónusta sem sveitarfélög bera ábyrgð á. Útsvarsgreiðendur í borginni hljóta því að spyrja sig hvort um sé að ræða röð mannlegra mistaka eða hvort forgangsröðun meirihlutans sé einfaldlega í bakgarði borgarstjórans, í 101 Reykjavík.
Þá er jafnframt rétt að spyrja sig, svona í ljósi alls þessa, hvort það liggi raunverulega meira á að draga úr eða hætta að bjóða upp á dýraafurðir í öllum skólum borgarinnar áður en þaki er komið yfir höfuð grunnskólabarna í borginni. Sú hugmynd fékk í það minnsta töluvert meiri athygli meirihlutans í borginni en öll áköll skólasamfélagsins um úrbætur.
Flestir, ef ekki allir sjá að forgangsröðunin er í besta falli undarleg en lítið virðist ætla að breytast í þessum efnum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29.8.2019