Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins, dómsmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Við tölum af velþóknun um „ískalt mat“. Það þýðir að við höfum vikið tilfinningum okkar til hliðar og skoðað málið út frá rökum og engu öðru. Þetta þykir töluverður gæðastimpill á ákvörðunum.
Líklega eru engin dæmi þess að talað hafi verið um „sjóðheitt mat“. Hvað þá af velþóknun. Hátt hitastig er alls ekki talið eiga samleið með skynsamlegum ákvörðunum. Slæmar ákvarðanir eru oft útskýrðar með því að þær hafi verið teknar í hita leiksins.
Málvenjur okkar benda þannig til þess að okkur þyki meiri líkur á réttri niðurstöðu ef við leggjum ískalt mat á hlutina en ef við tökum ákvarðanir í hita leiksins eða þegar okkur er heitt í hamsi.
Tilfinningar í stjórnmálum
Í stjórnmálum eigum við hins vegar ekki að víkja tilfinningum til hliðar. Stjórnmálin eru ekki ísköld. Þau snúast um fólk og fólk hefur tilfinningar. Við getum kannski ekki alltaf rökstutt eða útskýrt tilfinningar okkar en það þýðir ekki að þær séu ómerkar eða lítils virði. Þær eiga fullan rétt á sér í pólitískri umræðu og við eigum ekki að gera lítið úr þeim eða víkja þeim til hliðar. Að sjálfsögðu eigum við ekki heldur að víkja ísköldum rökum til hliðar, það segir sig sjálft, en við verðum að horfast í augu við að þau eru ekki alltaf fullnægjandi ein og sér.
Þegar kynferðisbrotamaður fær uppreist æru er líklegt að það finnist ekki öllum fullnægjandi að eingöngu sé svarað með ísköldum rökum.
Þegar sú tilfinning hefur gripið um sig að verið sé að afsala orkuauðlindum Íslands til embættismanna í Brussel er líklegt að það finnist ekki öllum fullnægjandi að eingöngu sé svarað með ísköldum rökum.
Það hefur alltaf verið mín skoðun að stjórnmálamenn eigi að hlusta á tilfinningar, bæði sínar eigin og annarra, án þess auðvitað að víkja rökum til hliðar. Ekki bara í sumum málum heldur í öllum málum. Í rauninni held ég að við gerum það flest, hvort sem við viðurkennum það eða ekki.
Það er ekki endilega lýðskrum að höfða til tilfinninga
Það er ekkert athugavert við að stjórnmálamenn höfði til tilfinninga fólks. Það er þvert á móti eðlilegt og mikilvægt. Við megum ekki falla í þá gryfju að kalla það sjálfkrafa lýðskrum. Að kveðja horfinn jökul er að höfða til tilfinninga. Að hylla fánann og hampa menningararfi okkar er að höfða til tilfinninga. Hvort tveggja er eðlilegt sé það gert í góðri trú.
Lýðskrum felst nefnilega ekki í því að höfða til tilfinninga heldur að gera það án tillits til staðreynda eða jafnvel í andstöðu við þær.
Ótti er viðsjárverð tilfinning
Franklin D. Roosevelt tók við embætti forseta Bandaríkjanna í mars 1933, þegar kreppan mikla stóð sem hæst. Í frægri ræðu sinni við embættistökuna sagði hann að landsmenn hefðu ekkert að óttast nema óttann. Hann vissi sem var að ótti er viðsjárverð tilfinning.
Líklega er engin stjórnmálastefna saklaus af því að höfða að einhverju marki til ótta fólks. Hertar landamæravarnir fá stuðning vegna ótta fólks við hryðjuverk. Hertar mengunarvarnir fá stuðning vegna ótta fólks við hamfarahlýnun. Í báðum tilvikum spilar óttinn stórt hlutverk.
Ótti getur auðvitað átt fyllilega rétt á sér en við verðum að vera á varðbergi gagnvart þeim sem reyna að notfæra sér hann.
„Sannaðu það“
Eitt skýrasta viðvörunarljósið um að verið sé að nýta sér ótta gegn betri vitund er þegar öll rök hníga að því að óttinn sé ástæðulaus en talsmenn óttans láta sér ekki segjast og fara fram á að það verði sannað að versta niðurstaða sé útilokuð. Slíkt er sjaldnast hægt og því er auðvelt að viðhalda ótta í trássi við kalt mat.
Krafan „sannaðu það!“ er oftar en ekki síðasta haldreipi þess sem hefur rökin ekki með sér.
Komið til móts við umræðuna
Við höfum hlustað á bæði röksemdir og tilfinningar þeirra sem lýst hafa efasemdum um þriðja orkupakkann og komið mjög til móts við þær.
Við frestuðum málinu í tvígang til að gefa kost á nánari athugun þrátt fyrir að það hefði þegar fengið margra ára athugun af hálfu stjórnvalda og Alþingis. Við breyttum málinu á þann hátt að jafnvel mestu efasemdarmenn úr röðum stjórnskipunarsérfræðinga telja nú hafið yfir allan vafa að það samræmist stjórnarskrá. Við breyttum málinu líka á þann hátt að hingað verður ekki lagður sæstrengur nema með samþykki Alþingis.
Við höfnum því hins vegar að taka í neyðarhemil EES-samningsins bara af því að við megum það. Það er ekki ástæða til þess í þessu máli.
Sú afstaða er hvorki tekin ískalt né í hita leiksins heldur af yfirvegun við mátulegt hitastig. Það verða ekki allir sammála henni en svo mikið er víst að sjaldan hefur andstæðum sjónarmiðum – og tilfinningum – verið gefinn eins mikill gaumur og einmitt í þessu máli.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 25. ágúst 2019.