Eðli og inntak EES-samnings

Vilhjálmur Bjarnason skrifar:

Það er eðli Íslendingsins að standa í deilum um landamerki og hross. Með því að samfélagið hefur þróast og landamerki og hross hafa minni þýðingu í samskiptum fólks en áður var, þá taka samningar við erlend ríki við sem deiluefni. Þannig skipti herverndarsamningur við Bandaríkin verulegu máli til deiluefnis, að ekki sé talað um aðild Íslands að NATO.

Það hefur lengi vafist fyrir þeim er þetta ritar hvort 5. grein Atlantshafs­sátt­málans samræmist þeirri nýju túlkun á fullveldi landsins sem ýmsir virðast nú aðhyllast:

  • 5. grein. Aðilar eru sammála um, að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þá alla; fyrir því eru þeir sammála um, ef slík vopnuð árás verður gerð, að þá muni hver þeirra í samræmi við rétt þann til eigin varnar og sameiginlegrar, sem viðurkenndur er í 51. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna, aðstoða aðila þann eða þá, sem á er ráðizt, með því að gera þegar í stað hver um sig og ásamt hinum aðilunum þær ráðstafanir, sem hann telur nauðsynlegar, og er þar með talin beiting vopnavalds, til þess að koma aftur á og varðveita öryggi Norður- Atlantshafssvæðisins.

Ísland er aðili að sáttmála hina Sameinuðu þjóða. Í sáttmálanum segir, um ákvarðanir öryggisráðsins:

  • gr. Meðlimir hinna sameinuðu þjóða eru ásáttir um að fallast á og framkvæma ákvarðanir öryggisráðsins í samræmi við ákvæði þessa sáttmála.

Ísland hefur aldrei átt aðild að öryggisráðinu. Fimm lönd eiga þar fastafulltrúa með neitunarvald. Ísland hefur fallist á samþykktir Allsherjarþings SÞ um hömlur á viðskipti með hergögn og einingar til hergagnaframleiðslu.

Ísland hefur verið aðili að Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (IMF) frá upphafi með Bretton Woods samkomulaginu frá 1944. Þeir, sem eldri eru og mest tala nú um framsal fullveldis, ættu að minnast þess að á tímum fastgengisskráningar íslensku krónunnar þurfti íslenski Seðlabankinn að leita samþykkis IMF hverju sinni þegar gengi krónunnar var fellt. Þá var lítið talað um framsal fullveldis, aðeins hjáróma raddir, helst í Þjóðviljanum.

Eðli fríverslunar

Með aðild að OEEC árið 1948 og síðar OECD árið 1961 var stefnt að því að aðildarþjóðir styddu hverja aðra til heilbrigðrar samkeppni með viðskiptum sín á milli. OEEC miðlaði Marshall aðstoð til Evrópuþjóða til uppbyggingar eftir stríð. Í nóvember 1958 lýsir Pétur Benediktsson, þá landsbankastjóri en áður sendiherra í Frakklandi, þróuninni í áratug, sennilega með mesta þekkingu Íslendinga á alþjóðlegum viðskiptasamningum þess tíma:

  • „Kvótar og innflutningshöft eru nú að mjög miklu leyti horfið af þessu svæði, — þótt nokkrum aðiljum hafi verið veittar undanþágur. Má t.d. nefna einn aðilja, sem hefir fengið stórar undanþágur, máske vegna þess hve smár hann er frá heildarinnar sjónarmiði — Ísland. Annar syndaselur hefir ekki syndgað eins mikið á móti reglunum í hlutfallstölum, en veldur miklu meiri vandræðum fyrir hin þátttökuríkin. Það er Frakkland.“

Pétur sagði jafnframt að

  • „Eins dauði er annars brauð segja haftamennirnir, þeir sem alltaf hugsa í sérleyfum og bitlingum.
  • Eins gróði er annars brauð gæti verið kjörorð hinna, sem trúa á það að meira athafnafrelsi og frjálsari viðskipti gefi bæði einstaklingum og heildinni meira í aðra hönd.“

Það kom fram í sovésku blaði að „prógressivir“ hagfræðingar á Íslandi, og einn nefndur en sá lauk ekki prófi, teldu að Íslandi ætti ekki að taka þátt í samstarfi um fríverslun í Evrópu.

Aðild að EFTA

Dr. Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðaherra, sagði í ræðu á Alþingi um aðild Íslands að EFTA árið 1969

  • „Sízt er orðum aukið að fá mál hafa komið betur undirbúin fyrir hið háa Alþingi en EFTA-málið. Á árunum milli 1955 og 1960 voru verulegar athug­anir gerðar á því, hvort Íslendingar ættu að gerast aðilar að EFTA eða um svipað leyti og þau samtök voru stofnuð. Snemma á þessum áratug var málið tekið til nýrrar athugunar, þegar útlit var fyrir að Efna­hagsbandalagið mundi stækka með aðild Breta og nokkurra annarra EFTA ríkja. Menn gerðu sér grein fyrir því, að ef slík stór efnahagsheild skap­aðist í Evrópu yrðu Íslendingar með einhverjum hætti að gera sér­samn­inga við þau samtök. Það hafði hins vegar aldrei fylgi hér, að Íslendingar gerðust fullgildir aðilar þeirra. Þáverandi Frakklandsforseti synjaði um þennan samruna þá. Á þessum árum voru efnahagsaðstæður á Íslandi slíkar, að ekki var talin knýjandi nauðsyn til nýrrar markaðs­öflunar með EFTA-aðild. En örðugleikar síðustu 2 – 3 ára og reynsla af óvissu og tekju­missi hafa orðið til þess að vekja málið upp á ný.“

 

Aðild að EFTA var samþykkt með atkvæðum stjórnarliða og tveggja þingmanna stjórnarandstöðu. Sennilega var einhver andstaða innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins, en flokkurinn stóð saman í atkvæðagreiðslu.

EES samningur

EES samningur er upphaflega sniðinn  fyrir Svíþjóð, Finnland og Austurríki, vegna „hlutleysis“. Þessi lönd gengu í Evrópusambandið 1995 og urðu því ekki lengur hluti af EFTA löndum innan EES samningsins. Önnur EFTA ríki voru upphaflega aðilar að EES samning­num, en aðild var feld í Sviss í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig eru Evrópu­sam­band­sríki; Liechtenstein, Noregur og Ísland aðilar að EES samningnum núna.

Megin efni samningsins er að stuðla að frjálsu flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns milli samningsaðila. Þetta er nefnt fjórfrelsi.

Í samningnum um EES eru aðfararorð í 18 greinum. Í fyrstu sex greinum aðfararorðanna segir: [SAMNINGSAÐILAR]

  • ERU SANNFÆRÐIR UM að Evrópskt efnahagssvæði muni stuðla að upp­byggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda;
  • ÁRÉTTA að höfuðáhersla er lögð á náin samskipti Evrópubandalagsins, aðildarríkja þess og EFTA-ríkjanna, sem grundvallast á nálægð, sameigin­legu gildismati frá fornu fari og evrópskri samkennd;
  • HAFA EINSETT SÉR að stuðla á grundvelli markaðsbúskapar að auknu frjálsræði og samvinnu í viðskiptum um gjörvallan heim, einkum í sam­ræmi við ákvæði Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti og samninginn um Efnahags- og framfarastofnunina;
  • HAFA Í HUGA það markmið að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efna­hagssvæði er grundvallist á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnis­skilyrðum, tryggri framkvæmd, meðal annars fyrir dóm­stólum, og jafnrétti, gagnkvæmni og heildarjafnvægi hagsbóta, réttinda og skyldna samningsaðila;
  • HAFA EINSETT SÉR að beita sér fyrir því að frelsi til vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutninga verði sem víðtækast á öllu Evrópska efnahagssvæð­inu, svo og að styrkja og auka samvinnu í jaðarmálum og tengdum málum;
  • HAFA ÞAÐ AÐ MARKMIÐI að stuðla að samræmdri þróun á Evrópska efnahagssvæðinu og eru sannfærðir um nauðsyn þess að draga með samningi þessum úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða.

 Þar segir einnig að aðilar;

  • HAFA EINSETT SÉR að efla hagsmuni neytenda og styrkja stöðu þeirra á markaðinum, með öfluga neytendavernd að markmiði.

Þar segir jafnframt að gerð samningsins um EES á ekki á nokkurn hátt að hafa áhrif á möguleika EFTA ríkja á að gerast aðilar að Evrópusambandinu.

Tveggja stoða kerfi

Til að tryggja framkvæmd samnings um um EES gagnvart EFTA löndum er EFTA dómstóllinn, sem fjallar um ágreiningsefni og getur gefið ráðgefandi álit gagnvart dómstólum aðildarlanda. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, getur lagt fram kvartanir til aðildarlanda EFTA um samningsbrot og eftir atvikum höfðað mál fyrir EFTA dómstólnum.

Dómstóllinn og ESA eru sjálfstæð í gjörðum sínum og lúta ekki boðvaldi stofnana Evrópusambandsins eða ríkisstjórna EFTA ríkja eða Evrópusambandsríkja. Dómstóllinn og ESA geta aðeins úrskurðað á grundvelli samningsins og þeirra gerða, sem tekin hafa verið upp í samninginn.

Stjórnmálaleg eining og aðrir hagsmunir hafa engin áhrif á gjörðir þessara stofnana.

Í EES samningnum segir:

  • [SAMNINGSAÐILAR] STEFNA AÐ ÞVÍ, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu samnings þessa og þeirra ákvæða í löggjöf bandalagsins sem tekin eru efnislega upp í samning þennan, svo og að koma sér saman um jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri að því er varðar fjórþætta frelsið og samkeppnisskilyrði.

Tveggja stoða kerfið er grundvöllur fullveldisréttar aðila að EES samningnum. EFTA lönd geta borið ágreiningsefni undir stofnanir, sem löndin eiga aðild að.

Gildir það jafnt um orkumál, samkeppnismál, málefni fjármálamarkaða eða önnur þau mál, sem samningurinn tekur til.

Allar bollaleggingar um afsal eða framsal fullveldis er því langt innan þeirra marka sem gert er í Atlantshafssáttmála NATO eða sáttmála hinna sameinuðu þjóða um öryggisráð og ályktanir þess.

Sjálfstæði og fullveldi er verndað með því að eiga í samvinnu við önnur lönd og aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli.

Hvernig hefur gengið? Hver er árangurinn af samningnum?

Það er sjálfstætt rannsóknarefni hvernig EES samningurinn hefur þróast og hvaða árangri hann hefur skilað til þeirra þjóða, sem aðild eiga að honum. Nú er nefnd að störfum, sem rannsakar það. Kaupmáttur launa á Íslandi hefur aukist um tæp 3% á ári á samningstímabilinu.

Aðild Íslands að samstarfi European Aviation Safety Agency, EASA, er ágætt dæmi um árangur af EES samningi. Aðildin veitir íslenskum flugfélögum aðgengi að flugmörkuðum í allri Evrópu. Hluti flugs hjá Icelandair er sennilega um 2,5% af vergri landsframleiðslu á Íslandi.

Að auki er rétt að nefna aðgengi fagstétta að störfum á EES svæðinu með gagnkvæmri viðurkenningu réttinda. Þá er fátt talið.

Hvað segir Guðbjartur bóndi í Sumarhúsum um sjálfstæðið?

„Maður er þó ævinlega sjálfstæður heima í koti sínu. Hvort maður lifir eða drepst, þá kemur það aungvum við utan manni sjálfum. Og einmitt í því álít ég að sjálfstæðið sé fólgið.“

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. ágúst 2019.