Rafmagn, fjarskipti og gúmmístígvél

Eftir Vilhjálm Bjarnason:

Ísland fór að mestu á mis við gufuvélina í landi. Þegar vindorku skútualdar þraut, þá kom ventlavél í bátaflotann, en vissulega voru gufuvélar í togurum og farskipum fram til þess að Rudolf Diesel var notaður í skip.Bændur varðaði lítt um vélvæðingu, þar til Marshall-aðstoðin færði þeim dráttarvélar. Áður urðu mestar framfarir í bændastétt með tilkomu gúmmístígvéla. Af einhverjum ástæðum voru bændur á móti lagningu Landssíma en sögðu síðar að þeir hefðu viljað loftskeyti Marconis. Búnaðarsamband Kjalarnessþings var á á móti aðild Íslands að EFTA árið 1969, vegna þess að aðildin gæti stuðlað að þéttbýlismyndun. Hér má hafa í huga að afurðir bænda eru seldar í þéttbýli þegar sjálfsþurftarbúskap lýkur. Aðild að EFTA var sennilega næstmesta framfaraspor í utanríkisviðskiptum, á eftir aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði.

Aðild felld í þjóðaratkvæði

Það er skoðun mín að aðild Íslands að NATO, EFTA og EES hefðu allar verið felldar í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ástæður fyrir andstöðu var ímyndað „afsal“ fullveldisréttar því talsvert skortir á þann skilning á fullveldisrétti að fullveldisréttur er réttur til samninga við önnur ríki á jafnréttisgrundvelli. Með aðild að NATO getur Ísland farið í stríð án hers.Þann skilning skorti ekki árið 1944 þegar Ísland, að nýfengnu sjálfstæði, gerðist aðili að Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðaflugmálastofnuninni. Það var of mikið að gerast stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum, til þess þurfti stríðsyfirlýsingu gagnvart öxulveldunum. Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum var samþykkt árið 1946 og þar með að lúta samþykktum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur aldrei átt sæti í Öryggisráðinu.

EES-samningurinn

Sennilega er samningur Íslands við Evrópusambandið um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði einn afdrifaríkasti samningur sem Ísland hefur gert.Höfuðþættir samningsins eru frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og vinnuafls um evrópskt efnahagsvæði. Þess sér helst stað á Íslandi að Íslendingar geta keypt fasteignir og verðbréf utanlands, án þess að bera slíkt undir ráð og nefndir.

Skipafélög geta keypt skip án þess að leita til „langlánanefndar“ með beiðni um leyfi. Samhliða afnámi „leyfisveitinga“ hafa orðið stórstígar framfarir í fjarskiptum, þar sem síminn frá 1906 er grundvöllur þess sem síðar kom.

Sennilega eru lausnir fjarskiptafyrirtækja meira framfaraskref við fulla nýtingu framleiðsluþátta en tilkoma vélvæðingar bátaflotans tæpri öld fyrr. Einingakostnaður hefur hríðfallið, auk þess sem nýjar lausnir hafa skapað ný tækifæri.

Viðskiptakostnaður á fjármálamörkuðum er brot af því sem áður var, en jafnframt hafa fjármálafyrirtæki hannað banvæn vopn fyrir samfélög. Sem leiðir til aukins eftirlitskostnaðar!

Nú er kvartað yfir of miklum ferðalögum. Ástæðan er sú að verð á flugfarseðlum hefur lækkað mikið vegna mjög virkra bókunarkerfa. Lágur einingakostnaður við farseðlabókanir leiðir til aukinna ferðalaga

Mæling á virkni samnings

Það er hægt að mæla virkni alþjóðasamninga. Hvernig hafa samningar þróast á samningstímabilinu? Það er erfitt að mæla virkni vegna samkeppni, svo og vegna aukinnar framleiðni. Samkeppni hefur komið í stað samráðs. Ekki er víst að ASÍ hafi áttað sig á því.Nærtækast er að rannsaka kaupmátt launa á Íslandi. Frá ársbyrjun 1994 til mars á þessu ári hefur kaupmáttur launa vaxið um 2,5% á ári. Sennilega er þetta mesta hagsældartímabil sem yfir landið hefur gengið. Þrátt fyrir böl og alheimsstríð í milli.

Auðvitað má spyrja hvað sé EES-samningnum að þakka og hvað sé samningnum að kenna.

Að auki hafa stjórnvöld afnumið vörugjöld og tolla af mörgum vöruflokkum. Eftir standa vörugjöld á bíla og eldsneyti. Ekki hefur náðst að afnema viðskiptahindranir á nokkrum tegundum landbúnaðarafurða. Þá má nefna að verð á hlaupaskóm á Íslandi er tvöfalt hærra en í Bandaríkjunum. Sömu skór, framleiddir í Kína.

Orkupakki

Nú um stundir eru harðvítugar deilur um „orkupakka“. Sá er þetta ritar hefur lagt á sig að kanna innihald „pakkans“ og stofnanauppbyggingu vegna eftirlits með virkri samkeppni á raforkumarkaði.Rétt er að taka fram að það er ekkert í „pakkanum“ um einkavæðingu Landsvirkjunar. Þar er ekkert að finna sem leggur skyldur á hið opinbera að heimila lagningu rafstrengs frá landinu til inn- eða útflutnings á raforku. ASÍ sem er í miklu stuði virðist hafa misskilið eitthvað þegar ályktun um „orkupakka“ var samþykkt. Samkeppni skilar meiri kjarabótum en kjarasamningar.

Meginefni þessara tilskipana er að auka samkeppni í framleiðslu og dreifingu á raforku. Það eru ekki allir sem átta sig á þeim „stórveldum“ sem starfa á íslenskum raforkumarkaði. Stórveldi á íslenskan mælikvarða. Svo er aðallega einn stórflytjandi á raforku, einn stórdreifandi á Suðvesturlandi og smáir framleiðendur og dreifendur á landsbyggðinni. Það er sennilegt að Orkustofnun fái hlutverk eftirlitsaðilans, til hagsbóta og verndar fyrir neytendur. Það eru fáir neytendur, sem skilja rafmagn. Nema þeir sem eru í stuði!

Í því einfalda stofnanaumhverfi sem er sameiginlegur vettvangur þeirra ríkja sem ekki eiga aðild að Evrópusambandinu en eiga aðild að EES og eru í EFTA þá er ESA eftirlitsstofnunin fyrir EFTA-ríkin. Til að skera úr um ágreiningsmál milli ríkja er hægt að bera ágreiningsmálin undir EFTA-dómstólinn. Málsaðilar fyrir innlendum dómstólum geta óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins ef innlendir dómstólar heimila það. Með sameiginlegum dómstól ríkja samningsins er jafnræði með deilendum.

Ekki verður séð að umgjörð orkumála sé á neinn hátt frábrugðin málsmeðferð í öðrum málaflokkum, eins og í málefnum fjármálamarkaða, samkeppnismálum. Schengen-málum og persónuverndarmálum. Þó er einn munur á. Hann er að raforka er ekki til útflutnings, eins og á við um viðskipti með vöru og þjónustu. Hvað sem síðar kann að verða um raforku og það er viðfangsefni annarra samninga.

Rakarafrumvarp

Það er margt í umræðu um „orkupakka“ sem svipar til umræðu um rakarafrumvarpið árið 1924 og 1928.„Átti að þolast bæjarfélaginu að rakarastofum væri lokið upp á morgnana klukkan sex eða sjö og síðan haldið áfram að raka fólk þángað til um miðnætti?“

Um rakarafrumvarpið sagði Skáldið mörgum árum síðar:

„Mig minnir að deilan hafi staðið um það, klukkan hvað ætti að loka rakarastofum á kvöldin. Ýmsir smápólitíkarar og kleyfhugar lögðu þetta mál fyrir sig sem sérfræðigrein, eða kannski maður ætti að segja rórill. Á einum æsingafundi um málið í Barnaskólaportinu, þar sem líka voru krakkar, heyrði ég og sá þektan borgara æpa undir einni ræðunni: Hér skal blóð mæta blóði.“

Er ekki nær að ræða grundvallaratriði samnings um Evrópskt efnahagssvæði og stofnanauppbyggingu þess og dómstóla?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2019