Haraldur Benediktsson alþingismaður:
Ég verð að segja þetta enn einu sinni: Það er nauðsynlegt að hafist verði handa við skipulega sölu bújarða í eigu ríkisins. Þetta hefur öllum sem til þekkja verið lengi ljóst. Um leið er mikilvægt að mótuð sé almenn heildstæð stefna um eignarhald jarða hér á landi og ná sáttum um hvaða kröfur eðlilegt er að gera til eigenda þeirra.
Ábúðarkerfið og leigukerfið er gamalgróið og var lengst af í höndum landbúnaðarráðuneytisins, en var fært til fjármálaráðuneytisins fyrir allmörgum árum.
Það tók tíma sinn en nú er loksins búið að setja eigendastefnu ríkisins um jarðir. Hún er ítarleg og í henni er m.a. að finna stefnumörkun um meðferð ríkisjarða. Ekki aðeins bújarða. Sú stefna er staðfest að ríkið efli og styrki byggð og búsetu við sölu og meðferð bújarða. Efla á landbúnað og sækja fram til blómlegri byggða.
Með stefnunni er sérstakur viðauki sem fjallar sérstaklega um ábúðarjarðir, þ.e. jarðir sem eru í rekstri og eru mikilvægar fyrir áframhaldandi búrekstur.
Aldrei skal því haldið fram að einfalt verk sé að fylgja slíkri stefnu eftir. En eigendastefnan staðfestir það markmið að stuðla eigi að aukinni byggðafestu. Í umræðu um jarðir og eignarhald hefur ríkið því markað skýra stefnu. Stefnu sem ber með sér að ekki á nokkurn hátt er ætlunin að verða til þess að veikja byggð og búsetu í sveitum.
Það er ástæða til að draga þetta fram því í fréttum eru oft viðraðar áhyggjur fólks af jarðasöfnun innlendra og/eða erlendra auðmanna. Ríkið hefur engan hug á að selja jarðir sínar til að styðja þá þróun. En spyrja má á móti – hvaða stefnu hafa núverandi eigendur jarða?
Þarf frekari reglur um eignarhald jarða?
Umræðan um eignarhald hefur verið mjög lífleg frá breytingu jarðalaga 2004. Þá var m.a. fellt á brott ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga. Réttur sem var til að gefa samfélögum færi á að hafa áhrif á þróun byggðar.
Sveitarfélög fara með skipulagsvaldið og hafa margvísleg úrræði til að hafa raunveruleg áhrif á þróun byggðar og eignarhalds á jörðum. Hvers vegna er ekki umræða um að sveitarfélögin beiti þeim? Úrræði sem m.a. felast í valdi til skattlagningar og skilgreiningar á þjónustu við fasteignaeigendur.
Oft er vísað til danskra lagaákvæða um búsetuskyldu á jörðum. Það þarf ekki að vera rangt að beita henni hér á landi í einhverjum mæli. En spyrja má líka hvort sveitarfélög hafi þegar heimildir þannig að þau geti með afgerandi hætti haft áhrif á meðferð og nýtingu bújarða eða hvort eigi mögulega að styrkja þær. Um þetta atriði verður að fara fram umræða. Það á ekki að vera sjálfsagt og eðlilegt að leggja niður ábúð og nýtingu bújarða. Til þess standa miklu ríkari hagsmunir en einkahagsmunir jarðeigandans.
Er kæruleysi gagnvart skyldum og hlutverki jarðeigenda?
Þeirri spurningu svara ég játandi. Í mínum huga er spurning um eignarhald – hvort sem það er í höndum innlendra eða erlendra aðila – ekki meginatriði ef jarðir eru setnar og nýttar. Miklu meira máli skiptir hvernig eigendur halda á þessum eignum sínum og nýta þær. Í lögum um fjölbýlishús eru margvísleg íþyngjandi ákvæði og skyldur fasteignaeigenda. Ég vil miklu frekar að við endurskoðun jarðalaga verði skerpt á skyldum jarðeigenda. Það er alvörumál að eiga bújörð. Meðferð hennar og nýting hefur afgerandi áhrif á möguleika þeirra sem búa í nágrenni þeirra og þar með samfélagið sem þær tilheyra
Samþjöppun á eignarhaldi hlunnindajarða
Ásamt fleiri þingmönnum lagði ég fram frumvarp um breytingar á ákvæðum laga um veiðifélög. Þeim er ætlað að verja og vernda jarðeigendur fyrir að lenda í þeirri stöðu að verða ofurliði bornir af aðilum sem kaupa hlunnindajarðir og ná meirihluta atkvæða í veiðifélögum, oft í þeim eina tilgangi.
Auðvitað má halda því fram að slíkt ákvæði skerði eignarrétt. Það er engin að þræta fyrir það. En gleymum ekki að megintilgangur laga um veiðifélög hefur alltaf verið að standa vörð um byggð og búsetu. Um þetta má m.a. lesa í nýlegum hæstaréttardómi. Hefur það kannski gleymst? Því miður virðist sem margir veiðiréttareigendur hafi fjarlægst meginmarkmið laganna eða aldrei skilið þær óskráðu skyldur sem þeir hafa undirgengist.
En hver er eigendastefna bændanna sjálfra?
Langflestir bændur velja að selja jarðir sínar til áframhaldandi búsetu og rekstrar – sé þess nokkur kostur. En gleymum heldur ekki að skattkerfið hefur haft eyðandi áhrif á byggð undanfarin ár. Því er nauðsynlegt að endurskoða skattalega meðferð á söluverði jarða. Um það hefur og verið lagt fram einfalt og skilvirkt frumvarp. Það má jafnvel halda því fram að skattlagning á söluverðmæti jarða hvetji til sölu úr búsetu og nýtingu.
Verkefnið um eignarhald jarða og búsetu á þeim er margþætt og verður að ræða heildstætt með hagsmuni sem flestra að leiðarljósi.
En öll þessi umræða verður þó aldrei slitin úr sambandi við afkomu og samkeppnishæfni landbúnaðar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júlí 2019.