Gerum alla að kapítalistum – að eignafólki
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Í sjálfu sér er ákvörðunin til­tölu­lega ein­föld. Meiri­hluti Alþing­is get­ur sam­ein­ast um að af­henda öll­um Íslend­ing­um eign­ar­hluti í tveim­ur bönk­um, sem þeir eiga en rík­is­sjóður held­ur á í umboði þeirra. Með því yrði ýtt und­ir þátt­töku al­menn­ings á hluta­bréfa­markaði og marg­ir fengju tæki­færi til að stíga fyrstu skref­in í átt að því að ger­ast kapí­tal­ist­ar.

Auðvitað má bú­ast við and­stöðu á þingi og víðar við að launa­fólk fái af­hent­an eign­ar­hlut í fyr­ir­tækj­um sem það á sam­eig­in­lega. Þeir eru enn til sem trúa því í ein­lægni að sam­fé­lag­inu vegni best ef flest (öll!) at­vinnu­tæki eru á hönd­um rík­is­ins. Rík­is­hyggj­an get­ur aldrei samþykkt hug­mynd­ir um vald­dreif­ingu og auðstjórn al­menn­ings.

En það gæti orðið áhuga­vert að fylgj­ast með hverj­ir setj­ast á bekk með úr­tölu­mönn­um og ger­ast tals­menn stjórn­lynd­is með því að leggja steina í götu þess að ein­stak­ling­ar eign­ist milliliðalaust hlut í bönk­un­um. Að skjóta styrk­ari stoðum und­ir fjár­hags­legt sjálf­stæði ein­stak­linga og fjöl­skyldna þeirra og gera Íslend­inga að kapí­tal­ist­um, er eit­ur sem enn seytl­ar um æðar margra, sem eru sann­færðir um að sér­eign­ar­stefn­an eigi ræt­ur í hugs­un­ar­hætti smá­borg­ar­ans.

Fjár­stjórn fjöld­ans

Al­manna­væðing fjár­mála­kerf­is­ins, líkt og hér er lagt til, er hluti af frels­is­bar­áttu Sjálf­stæðis­flokks­ins í 90 ár. Bar­átta fyr­ir að gera launa­fólk að eigna­fólki, – tryggja því fjár­hags­legt sjálf­stæði og frelsi til at­hafna. Eyj­ólf­ur Kon­ráð Jóns­son – Ey­kon – talaði um auðstjórn al­menn­ings eða fjár­stjórn fjöld­ans. Hans draum­ur var að al­menn­ing­ur yrði virk­ur þátt­tak­andi í at­vinnu­líf­inu og að til yrðu öfl­ug al­menn­ings­hluta­fé­lög með þúsund­ir eig­enda. Með þessu yrði þjóðarauðnum dreift til sem „allra flestra borg­ara lands­ins, að auðlegð þjóðfé­lags­ins safn­ist hvorki sam­an á hend­ur fárra ein­stak­linga né held­ur rík­is og op­in­berra aðila“. Með öðrum orðum: Vald­inu sem fylg­ir yf­ir­ráðum yfir fjár­magni er dreift á meðal allra lands­manna. Draum­ur­inn er að all­ir eigi hlut­deild í þjóðarauðnum, „en séu ekki ein­ung­is leiguliðar eða starfs­menn rík­is­ins“.

Það var ein­læg sann­fær­ing Eykons, líkt og allra for­ystu- og hug­sjóna­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins fyrr og síðar, að nauðsyn­legt væri að örva sem „allra flesta til þess að ger­ast sjálf­stæðir at­vinnu­rek­end­ur, hvort held­ur þeir taka sér fyr­ir hend­ur að reka trillu­bát eða iðju­ver“.

Ekki fyr­ir fáa út­valda

Davíð Odds­son mótaði þessa hug­sjón sjálf­stæðismanna í nokkr­um meitluðum orðum á Viðskiptaþingi Versl­un­ar­ráðs í fe­brú­ar 2004:

„Til­gang­ur bar­áttu okk­ar fyr­ir ein­stak­lings­frels­inu var aldrei sá að frelsið yrði fyr­ir fáa út­valda. Of mik­il samþjöpp­un í efna­hags­líf­inu er í mín­um huga óæski­leg og lítt dul­bú­in frels­is­skerðing.“

Líkt og Davíð minnti á fyr­ir liðlega 15 árum kostaði það mik­il póli­tísk átök að ná sam­stöðu um nauðsyn þess að ríkið hætti að leika aðal­hlut­verkið í ís­lensku at­vinnu­lífi. Hann óttaðist hins veg­ar að stuðning­ur við þá stefnu myndi fjara út „ef þess er ekki gætt að jafn­vægi ríki á markaðinum og ekki gíni of fáir yfir of miklu“.

Grunn­stef sjálf­stæðis­stefn­unn­ar er frelsið – frelsi til orðs og at­hafna, sem er hreyfiafl allra fram­fara og bættra lífs­kjara. Frelsið virkj­ar hug­vit og út­sjón­ar­semi ein­stak­ling­anna. Á Viðskiptaþingi und­ir­strikaði Davíð Odds­son að frelsi eins mætti aldrei verða ann­ars böl og því væri nauðsyn­legt að í gildi væru skýr­ar regl­ur sem tryggðu, eins vel og kost­ur væri, sann­girni og heiðarleika í sam­skipt­um manna. Þær regl­ur yrðu því að tryggja „að viðskiptafrelsið sé sem mest, að sem flest­ir fái tæki­færi til að keppa og þjóðin fái notið sem ríku­leg­astra ávaxta af at­vinnu­starf­sem­inni“.

Hlut­deild í virðis­auka

Ég hef áður haldið því fram að eðli­legt sé og sann­gjarnt að al­menn­ing­ur fái að njóta með bein­um hætti þess virðis­auka sem hef­ur mynd­ast inn­an veggja bank­anna frá end­ur­reisn þeirra. Til þess er eng­in leið betri en að ríkið af­hendi hverj­um og ein­um hluta­bréf í bönk­un­um. Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, varpaði fram þess­ari hug­mynd í ræðu á lands­fundi 2015. Frá þeim tíma hef­ur staðan styrkst. Upp­gjör þrota­búa gömlu bank­anna tókst ein­stak­lega vel, stöðug­leikafram­lög og sala á hlut rík­is­ins í Ari­on banka hef­ur aukið svig­rúmið til að láta al­menn­ing njóta ávaxt­anna með bein­um hætti.

Það er í takt við grunn­tón Sjálf­stæðis­flokks­ins að senda lands­mönn­um bein­an hlut í bönk­un­um. En fleira skipt­ir þar máli. Dreift eign­ar­hald – auðstjórn al­menn­ings og vald­dreif­ing – mun ekki aðeins auka aðhald að mik­il­væg­um stofn­un­um sam­fé­lags­ins held­ur einnig styrkja til­trú og eyða tor­tryggni í garð fjár­mála­kerf­is­ins.

„Fjár­mála­kerfið á að vera traust og þjóna sam­fé­lag­inu á hag­kvæm­an og sann­gjarn­an hátt,“ seg­ir í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur. Þar er bent á að eign­ar­hald rík­is­ins á fjár­mála­fyr­ir­tækj­um sé það um­fangs­mesta í Evr­ópu og „vill rík­is­stjórn­in leita leiða til að draga úr því“. Stjórn­ar­flokk­arn­ir eru hins veg­ar ásátt­ir um að rík­is­sjóður verði „leiðandi fjár­fest­ir í að minnsta kosti einni kerf­is­lega mik­il­vægri fjár­mála­stofn­un“. Hér er um eðli­lega og sann­gjarna mála­miðlun þriggja ólíkra stjórn­mála­flokka að ræða. Lands­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins vill ganga lengra og hef­ur áréttað að eng­in þörf sé á „eign­ar­haldi rík­is­ins á fjár­mála­fyr­ir­tækj­um til lengri tíma litið“. Í þessu sam­hengi er vert að hafa í huga að um­svif rík­is­ins á fjár­mála­markaði hér á landi eiga sér enga hliðstæðu í vest­ræn­um ríkj­um.

Í lok mars nam eigið fé Lands­banka og Íslands­banka um 420 millj­örðum króna. Verðmæti bank­anna kann að vera eitt­hvað lægra, en um það veit eng­inn fyrr en á reyn­ir. Þess­um fjár­mun­um er bet­ur varið í að treysta innviði sam­fé­lags­ins, í sam­göngu­mann­virki, orku­vinnslu og -dreif­ingu, fjar­skipti, skóla, bygg­ing­ar og tæki fyr­ir heil­brigðisþjón­ustu og íþrótta­hús. Fjár­fest­ing í traust­um innviðum, sem eru for­senda hag­sæld­ar og bættra lífs­kjara, er arðbær­ari en að festa fjár­muni í áhættu­söm­um rekstri fjár­mála­fyr­ir­tækja.

Mis­mun­andi áhersl­ur stjórn­ar­flokk­anna og ólík viðhorf til hlut­verks rík­is­ins á fjár­mála­markaði kem­ur ekki í veg fyr­ir að tek­in sé ákvörðun um vald­dreif­ingu – að af­henda lands­mönn­um eign­ar­hlut í bönk­un­um tveim­ur sem eru í eigu rík­is­ins. Um leið er fall­ist á sann­gjarna kröfu um að al­menn­ing­ur, sem tók þátt í end­ur­reisn fjár­mála­kerf­is­ins, fái eitt­hvað í sinn hlut – 10-20% á næstu fjór­um til fimm árum, sam­hliða því sem skipu­lega er dregið úr eigna­haldi rík­is­ins á fjár­mála­markaði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júlí 2019.