Ó, þetta er indælt (ný-)frjálslyndi

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Klisj­ur? Já þær eru sí­fellt al­geng­ari í stjórn­má­laum­ræðu sam­tím­ans. Merkimiðapóli­tík? Ekki verður annað séð en að þeim stjórn­mála­mönn­um fjölgi frem­ur en fækki, sem telja það til ár­ang­urs fallið að nota merkimiða á sig sjálfa en ekki síður á póli­tíska and­stæðinga. Í póli­tík merkimiðanna eru marg­ir dug­mikl­ir við að skreyta sig með fal­leg­um orðum. Það þykir sér­lega gott að kenna sig við frjáls­lyndi og ekki er verra að koma því til skila að viðkom­andi sé víðsýnn og umb­urðarlynd­ur. Um leið eru and­stæðing­arn­ir stimplaðir – merkt­ir í bak og fyr­ir. Þeir eru þröng­sýn­ir, aft­ur­halds­sam­ir, for­stokkaðir full­trú­ar gam­alla tíma og úr­eltra sjón­ar­miða.

Klisj­ur og merkimiðar eru oft ár­ang­urs­rík aðferð og gefa stjórn­mála­mönn­um tæki­færi til að forðast efn­is­leg­ar umræður um mik­il­vægt mál. Það er miklu auðveld­ara að af­greiða and­stæðinga með ein­um eða tveim­ur merkimiðum, en að eiga rök­ræður.

Hug­tök fá nýja merk­ingu

Þeir stjórn­mála­menn sem dug­mest­ir eru við að kenna sjálfa sig við frjáls­lyndi boða það sem þeir kalla „nýja póli­tík“ – „stjórn­mál framtíðar­inn­ar“ til að tak­ast á við áskor­an­ir 21. ald­ar­inn­ar. Í hug­mynda­heimi þeirra fá hug­tök og orð nýja merk­ingu. Með nýrri merk­ingu hafa stjórn­lynd­ar hug­sjón­ir fengið skjól. Nú­tíma­legt frjáls­lyndi bygg­ist ekki á trúnni á ein­stak­ling­inn, getu hans og ábyrgð.

Stjórn­lyndi breyt­ist ekki þótt það sé klætt í nýj­an bún­ing. Góðhjartaðir stjórn­mála­menn, und­ir fána hins ný­fengna frjáls­lynd­is, leggja veru­lega á sig að hafa vit fyr­ir sam­ferðamönn­um sín­um. Í hug­um þeirra er það lífs­nauðsyn­legt að „barn­fóstr­an“ sé stöðugt á vakt­inni svo al­menn­ing­ur fari sér ekki að voða. Lög um alla mann­lega hegðun skal samþykkja. Reglu­gerðir eru tald­ar for­send­ur þess að hægt sé að verja ein­stak­ling­inn gagn­vart sjálf­um sér. Öflugt eft­ir­lit und­ir stjórn vel­viljaðra emb­ætt­is­manna á að tryggja að ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki fari eft­ir lög­um og regl­um. Hið ný­fengna frjáls­lyndi kall­ar á að skatt­ar séu lagðir á vöru og þjón­ustu í nafni um­hyggju enda al­menn­ing­ur stjórn- og sinnu­laus um eig­in vel­ferð og heil­brigði.

Stjórn­lynd­ir eru ekki þeir einu sem skreyta sig í tíma og ótíma með frjáls­lyndi. Frjáls­lyndi sam­tím­ans felst einnig í því að grafa und­an til­trú al­menn­ings, at­vinnu­lífs­ins og er­lendra aðila á ís­lensku efna­hags­lífi og ekki síst krón­unni. Patent­lausn flestra vanda­mála er að henda krón­unni út í hafsauga og taka upp evr­una – gjald­miðil fyr­ir­heitna lands­ins. Víðsýn­in er staðfest í end­ur­tekn­um til­raun­um til að koll­varpa skipu­lagi sjáv­ar­út­vegs, sem þó er skattlagður sér­stak­lega á sama tíma og flest­ar aðrar þjóðir – Nor­eg­ur, Banda­rík­in að ekki sé talað um lönd Evr­ópu­sam­bands­ins – hafa sjáv­ar­út­veg í sér­stakri súr­efn­is­vél rík­is­styrkja. Umb­urðarlyndið elur á tor­tryggni í garð at­vinnu­grein­ar sem hef­ur staðist rík­is­styrkta sam­keppni. Stöðugt þyngri álög­ur eru kapps­mál nú­tíma­legs stjórn­mála­manns, enda vas­ar út­gerðarmanna sagðir svo djúp­ir að hægt sé að fjár­magna flest lof­orð.

Upp­hafn­ing

Hið nýja umb­urðarlyndi sýn­ir ekki and­stæðum skoðunum virðingu. Umb­urðarlyndi felst í sjálfs­upp­hafn­ingu og for­dæm­ingu „rangra skoðana“. Ný­frjáls­lyndi hef­ur litla þol­in­mæði gagn­vart þeim sem hafa áhyggj­ur af því að með inn­leiðingu orku­til­skip­ana á EES-svæðinu séu Íslend­ing­ar með bein­um eða óbein­um hætti að missa for­ræði yfir orku­auðlind­um. Í stað þess að hlusta og skilja áhyggj­urn­ar og svara þeim með rök­um og staðreynd­um, eru þær af­greidd­ar líkt og hver önn­ur vit­leysa enda hinir áhyggju­fullu ör­ugg­lega for­pokaðir ein­angr­un­ar­sinn­ar.

Ný­frjáls­lyndi á ekki sam­leið með hug­mynd­um um full­veldi þjóðar og sjálfs­ákvörðun­ar­rétt. Slík­ar skoðanir eru frá síðustu öld og gott bet­ur. Eðli máls sam­kvæmt eiga þær ekki upp á pall­borðið hjá stjórn­mála­mönn­um 21. ald­ar­inn­ar.

Stjórn­mála­maður 21. ald­ar­inn­ar er bar­áttumaður gegn krón­unni, fyr­ir evr­unni og þó fyrst og síðast fyr­ir aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Ný­frjáls­lyndi gef­ur lítið fyr­ir rétt lít­ill­ar þjóðar að eiga viðskipti við þjóðir heims á eig­in for­send­um. Sjálf­stæð ut­an­rík­is­viðskipta­stefna er eit­ur í æðum ný­frjáls­lyndra.

Umb­urðarlyndi stjórn­mála­manna sem kapp­kosta að kenna sig við 21. öld­ina tek­ur mið af því að meiri­hlut­inn ráði svo lengi sem kom­ist er að „réttri“ niður­stöðu. Mála­miðlun er aðeins æski­leg ef hún er á for­send­um hand­hafa ný­frjáls­lynd­is. Aðrar sátta­gjörðir ólíkra sjón­ar­miða eru aðeins sýnd­ar­gjörn­ing­ar í póli­tískri ref­skák. Sætt­ir eru rofn­ar ef það hent­ar og þjón­ar per­sónu­leg­um póli­tísk­um metnaði.

Stjórn­mála­maður 21. ald­ar­inn­ar – ný­frjáls­lynd­ur, víðsýnn og umb­urðarlynd­ur – sér enga þver­sögn í því að beita upp­nefnd­um og brigsl­yrðum. Nyt­sam­leg vopn eru notuð, ekki síst gagn­vart göml­um sam­herj­um og stuðnings­mönn­um. Þeir eru hvort sem er íhalds­sam­ir, – full­trú­ar aft­ur­halds og úr­eltra gilda. En ný­frjáls­lyndi er hag­sýnt. Þegar hent­ar er sótt í kist­ur fyrr­ver­andi sam­herja. Þing­mál eru af­rituð og end­ur­nýtt. Fyrst helsta stefnu­málið um fyr­ir­heitna landið fell­ur í grýtt­an jarðveg hjá meiri­hluta þjóðar­inn­ar, koma mál­efna­k­ist­ur þeirra sem sitja und­ir brigsl­yrðum að góðum not­um.

Klisju­væðing stjórn­mál­anna

Klisj­ur og ein­föld skilj­an­leg slag­orð hafa lík­lega fylgt stjórn­mál­um frá upp­hafi – verið óaðskilj­an­leg­ur hluti af því að vekja at­hygli og vinna málstað fylgi. Orðsnilld hef­ur alltaf verið góður vin­ur stjórn­mála­manns­ins. En í gegn­um fras­ana og slag­orðin hafa kjós­end­ur yf­ir­leitt áttað sig á þeirri hug­mynda­fræði sem að baki ligg­ur. Stjórn­mála­menn, sem segj­ast vera full­trú­ar 21. ald­ar­inn­ar, hafa hins veg­ar gert það að verk­um að kjós­end­ur eiga stöðugt erfiðara með að átta sig á því fyr­ir hvað fram­bjóðend­ur standa í raun. Búið er að henda hug­mynda­fræðinni eða umbreyta merk­ingu hug­taka til að gera hug­mynda­fræði, sem hef­ur selst illa, meira aðlag­andi.

Bar­átta frjáls­lyndra manna fyr­ir rétt­ar­rík­inu, þar sem all­ir eru jafn­ir fyr­ir lög­um, er úr­elt í hug­um ný­frjáls­lyndra. Nú­tíma­legt rétt­ar­ríki skal fyrst og síðast byggja á að póli­tísk­ur rétt­trúnaður nái fram að ganga. Því er hafnað að frelsi ein­stak­lings­ins og rétt­indi hans séu al­gild og óum­breyt­an­leg. Allt er háð aðstæðum og tíðaranda.

Bar­átta gam­aldags frjáls­lyndra manna fyr­ir tján­ing­ar­frelsi, trúfrelsi og at­hafna­frelsi – fyr­ir frelsi ein­stak­linga frá af­skipt­um rík­is­ins – hef­ur verið sett út í horn. Sann­fær­ing um að upp­spretta valds­ins sé hjá borg­ur­um er álit­in jafn furðuleg og hug­mynd­in um full­veldi þjóðar. Ný­frjáls­lynd­ir eru marg­ir sann­færðir um að upp­sprett­una sé að finna í Brus­sel.

Ný­frjáls­lyndi hef­ur reynst in­dælt fyr­ir marga og gefið þeim nýtt líf í póli­tík. Frjáls­lynd­ar skoðanir fyrri tíma eru sagðar púka­leg­ar og eigi ekki er­indi við sam­tím­ann, hvað þá framtíðina. „Þar sem öll­um mönn­um er nátt­úru­legt að vera frjáls­ir, jafn­ir hver öðrum og sjálf­stæðir, má ekki svipta neinn mann þess­um rétt­ind­um og setja hann und­ir lög­sögu ann­ars, án þess hann veiti til þess samþykki sitt,“ skrifaði John Locke í Rit­gerð um rík­is­vald (The Second Treatise of Go­vern­ment) árið 1689. Hversu úr­elt­ar geta hug­mynd­ir gam­alla frjáls­lyndra manna orðið!?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 2019.