Það sem gerir okkur að þjóð

Haraldur Benediktsson alþingismaður:

Fiski­miðin, landið og ork­an eru þeir þætt­ir sem skapa fyrst og fremst þá mögu­leika að við get­um skapað okk­ur það viður­væri að hér á landi er öfl­ug þjóð í gjöf­ulu landi. Það snert­ir okk­ur því flest djúpt hvernig er haldið á mál­um og um­gjörð nýt­ing­ar og meðferðar þess­ara gjafa er fyr­ir komið.

Við deil­um um til­gang og gildi staðfest­ing­ar á orkupakka 3. Rót er á umræðunni og þing­mál­inu að mörgu leyti ætlað að vera eitt­hvað annað en það í raun og veru er. En einu ber að fagna – orku­mál í sinni breiðustu mynd hafa fengið verðskuldaða at­hygli og áhug­inn auk­ist .

Umræða um orkupakka snert­ir þá grund­vall­arþætti sem tengja okk­ur sam­an sem þjóð. Rétt eins og land­helg­in og sjálf­bær nýt­ing henn­ar, eign­ar­hald á landi, bújörðum og nátt­úruperl­um lands­ins. Yf­ir­ráð yfir ork­unni eru okk­ur heil­ög. Það er því al­vöru­mál að vera ætlað að vilja fram­selja yf­ir­ráð og eign­ar­hald á orku­auðlind­um lands­ins. Ekk­ert er fjær okk­ur.

Rót umræðunn­ar ligg­ur ekki síst í hvernig við höf­um hér áður inn­leitt svo nefnda orkupakka. Aðskilnaður á flutn­ingi og fram­leiðslu orku varð hér á ár­un­um eft­ir 2003. Þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Guðjón Guðmunds­son, var einn þeirra sem vöruðu við þeirri veg­ferð. Segja má að flest hans viðvör­un­ar­orð hafi ræst. Þannig er veru­leik­inn sá að flutn­ing­ur raf­magns hef­ur stór­hækkað í verði. Leiða má lík­ur að því að við höf­um áður verið lítt meðvituð um kostnað um upp­bygg­ingu dreifi­kerf­is og rekst­ur þess. Greidd­um bara einn orku­reikn­ing. Veru­leik­inn er sagna best­ur og reynsl­an. Dreif­býl­is­not­andi raf­magns hjá Rarik hef­ur séð reikn­ing vegna flutn­ings á raf­magni frá ár­inu 2005-2018 hækka um 108% meðan al­mennt verðlag hækkaði um 45%. Þrátt fyr­ir að á sama tíma hafi niður­greiðslur til jöfn­un­ar á flutn­ings­kostnaði úr rík­is­sjóði hækkað um liðlega 300%.

Er því ekki að undra að van­traust sé á enn ein­um orkupakk­an­um.

Það er því fagnaðarefni að iðnaðarráðherra hef­ur þegar hafið vinnu til að vinda ofan af því mis­rétti á milli lands­manna sem inn­leiðing á orkupakka 1 og 2 var. Það er al­menn­ur stuðning­ur við að all­ir lands­menn njóti þess að hafa sam­bæri­leg­an aðgang að orku­fram­leiðslunni. Að því verður að vinna og er kannski ein helsta niðurstaða umræðunn­ar und­an­farna mánuði um orku­mál.

Teng­ing við raf­orku­kerfi annarra landa er af­drifa­rík. Góð þekk­ing er á hvernig orku­reikn­ing­ar heim­ila í ná­granna­lönd­um okk­ar hafa hækkað gríðarlega. Það er von að ótti sé við slíka þróun hér. Teng­ing um sæ­streng er því grund­vall­ar­mál og mun því verða for­sendu­breyt­ing. Það gild­ir einu þó að sagt sé í op­in­berri umræðu að Ísland hafi burði til að jafna slík­an kostnað fyr­ir neyt­end­ur – reynsl­an er önn­ur.

Sú hug­mynd er hér sett fram að áskilja það í inn­leiðingu orkupakka 3 að setja laga­ákvæði um að slík teng­ing verði aðeins með samþykki þjóðar­inn­ar í sér­stakri at­kvæðagreiðslu. Sæ­streng­ur og bygg­ing grunn­tengi­virkja fyr­ir slíka teng­ingu verði því aðeins að meiri­hluti lands­manna samþykki það í at­kvæðagreiðslu.

Umræða um eign­ar­hald á bújörðum og landsvæðum er önn­ur umræða sem einnig verður að taka. Um það er meiri stuðning­ur en áður að búa lagaum­gjörð með þeim hætti að eign­ar­hald jarða verði af ábyrgð og til byggðafestu. Ríkið er stærsti ein­staki eig­andi búj­arða. Það færi vel á því að hefja nú átak í sölu rík­is­j­arða und­ir merkj­um nýrr­ar stefnu í eign­ar­haldi á bújörðum. Stefnu sem styrk­ir byggð og bú­setu, því blóm­leg­ar byggðir eru helsta aðdrátt­ar­afl lands­ins.

Fjár­mun­um af sölu rík­is­j­arða mætti ráðstafa til efl­ing­ar á heil­brigðis­stofn­un­um um land allt, sem marg­ar hverj­ar hafa nú þurft að þola tak­markað viðhald og end­ur­bæt­ur á hús­um og tækja­kosti. Upp­bygg­ingu á nú­tíma­legri heil­brigðisþjón­ustu sem er nær fólki en skap­ar öll­um aðgang að fær­ustu sér­fræðing­um. Þar höf­um við vart enn nýtt bestu tækni sem auðveld­ar slíkt aðgengi og ger­ir þjón­ust­una hag­kvæm­ari.

Þessi mál eru nefni­lega öll samof­in í vit­und okk­ar sem vilj­um efla byggð og full­veldi okk­ar. Nýt­ing og yf­ir­ráð land­helg­inn­ar, yf­ir­ráð og eign­ar­hald á landi og ekki síst full yf­ir­ráð yfir orku­auðlind­um okk­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí 2019.