Aukin nýsköpun; ekki val heldur nauðsyn

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins dómsmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Heimur batnandi fer. Nánast alls staðar í veröldinni eru lífsgæði miklu meiri en þau sem forfeður og formæður okkar nutu. Þessi staða blasir við og er áberandi á Íslandi.

En við stöndum líka frammi fyrir gífurlegum áskorunum. Reglulega er rætt um breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Kannski ekki rosalega grípandi orðanotkun. En ef spár ganga eftir má gera ráð fyrir því að upp úr 2030 verði færri en þrír einstaklingar á vinnufærum aldri á hvern einstakling á lífeyrisaldri. Fyrir aðeins um átta árum voru þeir fimm. Að óbreyttu er staðan því sú að færri og færri einstaklingar standa straum af opinberri þjónustu. Hvað er þá til ráða? Ekki viljum við hækka skatta og ekki viljum við skerða þjónustuna. Þriðji möguleikinn er aukin nýsköpun. En ef hún á að duga til þurfum við líka að vera tilbúin að láta kné fylgja kviði.

Þá munu tækniframfarir á næstu árum gjörbylta atvinnuháttum okkar með meira afgerandi hætti en við höfum áður séð. Þetta kallar á að við leggjum enn meiri áherslu á að rækta sköpunargleði, frumkvæði, gagnrýna hugsun, athafnafrelsi og sjálfstæði.

Fjórða iðnbyltingin mun vekja áleitnar spurningar um það hvort leiðarljós okkar í dag, hin klassíska frjálslyndisstefna, hafi ennþá svörin og geti tryggt okkur áframhaldandi bætt lífskjör, kynslóð fram af kynslóð. Við þurfum að vera vakandi gagnvart þeim spurningum.

Aðlaga þarf menntakerfið og þróun þess að þessum veruleika og leggja áherslu á að efla dómgreind og hina skapandi og mannlegu þætti. Hitt meginverkefnið er efling nýsköpunar. Nýsköpunarstefna fyrir Ísland er þess vegna eitt mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnar. Þar hefur góð vinna verið unnin og ég hlakka til að kynna hana í haust og hrinda tillögum hennar í framkvæmd.

Aukin nýsköpun er ekki val, heldur nauðsyn.

Hún er stór hluti af svarinu við stærstu spurningunum sem við stöndum frammi fyrir.

Hún er forsenda áframhaldandi verðmætasköpunar og velsældar.

Þetta snýst um nýsköpun í opinberri þjónustu, nýsköpun í heilbrigðisþjónustu, nýsköpun í menntun.

Þetta snýst ekki um val á milli nýsköpunar og einhvers annars.

Þetta snýst ekki um nýsköpun eða ferðaþjónustu, heldur nýsköpun í ferðaþjónustu.

Þetta snýst ekki um nýsköpun eða sjávarútveg, heldur nýsköpun í sjávarútvegi.

Þetta snýst ekki um nýsköpun eða virkjanir, heldur nýsköpun í orkuvinnslu og orkufrekum iðnaði.

Og að sjálfsögðu nýsköpun af hálfu frumkvöðla sem búa til ný fyrirtæki, ný störf, ný verðmæti.

Yfirnáttúrulegir hæfileikar

Hugvitssamir einstaklingar sem hafa fengið tækifæri til þess að finna hugmyndum sínum og starfsþreki frjósaman farveg hafa stuðlað að auknum veraldlegum og menningarlegum lífsgæðum. Við viðhöldum öflugu samfélagi með því að hafa umhverfið þannig að við hámörkum nýtingu hæfileika okkar allra. Það er lykillinn að árangri okkar fámennu þjóðar.

Góður árangur okkar á mörgum sviðum er athyglisverður en hann byggist ekki á yfirnáttúrulegum hæfileikum. Hann byggist á því að okkur hefur auðnast að búa til samfélag þar sem langflestir hafa raunverulegt tækifæri til að þroska hæfileika sína og nýta þá til fulls. Tækifæri hins venjulega Íslendings eru ekki eins og lottómiði, þar sem vinningslíkurnar eru einn á móti milljón, heldur raunveruleg tækifæri. Íslenski draumurinn er ekki einn á móti milljón heldur innan seilingar fyrir langflesta. Fá lönd geta gert sterkara tilkall til þess að geta með réttu kallast „land tækifæranna“ og það er eitt af okkar dýrmætustu sérkennum sem við verðum að standa vörð um.

Þess vegna er það, að þegar Íslandi tekst að standa jafnfætis eða jafnvel framar margfalt fjölmennari þjóðum á einhverjum sviðum, þá kemur ekki upp í hugann einhvers konar hugmynd um yfirnáttúrulega hæfileika okkar sjálfra, heldur stolt yfir samfélagi þar sem allir skipta máli og svo til allir eiga raunhæfa möguleika á að þroska hæfileika sína til fulls. Á sama tíma vakna spurningar um þá hæfileika sem kunna að fara til spillis meðal fjölmennari þjóða, sem hugsanlega ná ekki að hlúa eins vel að tækifærum hvers og eins.

Lágt afskriftarhlutfall í mannauði

Fámennið hefur áreiðanlega hjálpað okkur Íslendingum í tvennum skilningi við að nýta sem best hæfileika hvers og eins; annars vegar með því að gera það nauðsynlegt, og hins vegar með því að gera það mögulegt. Því telja má líklegt að það sé bæði mikilvægara og auðveldara fyrir lítil samfélög en stór að leyfa hverjum og einum að blómstra.

Á bókhaldsmáli getum við sagt að á Íslandi höfum við „lágt afskriftarhlutfall í mannauði“. Varla er hægt að ímynda sér nokkurn auð sem verra er að afskrifa en mannauðinn. Þetta er eitt af okkar dýrmætustu sérkennum, sem við verðum að varðveita.

Erindi við framtíðina

Sjálfstæðisflokkurinn trúir á samfélag tækifæra. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrst og fremst hefur staðið vörð um hin borgaralegu gildi, réttarríkið, samvinnu fullvalda ríkja og frelsi einstaklingsins. Við Sjálfstæðismenn eigum erindi við framtíðina, af því að við skiljum hvers hún krefst af okkur. Hún krefst þess að einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi blómstri sem aldrei fyrr.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2019.